Sóley Guðmundsdóttir er fjallkonan okkar í dag. Hún klæðist bláum kyrtli úr eigu Sagnheima sem Ólöf Waage saumaði og ber koffur og stokkabelti með sprota úr eigu Ásdísar Johnsen, einnig varðveitt í Sagnheimum.
Sóley flytur hátíðarljóð Jökuls Jörgensens Ísland í Hraunbúðum og á Stakkagerðistúni, sjá nánar með því að smella á fyrirsögn þessarar fréttar.
Gleðilega hátíð!
Ísland- Jökull Jörgensen
Fjóla fagnar himni heiðum
hrakin eins og skip í strandi
Læðist þoka hvíslar fölsku
Huliðshjúpur forni fjandi
Löngum eyja, logum brann
ísilögð um aldir bíður
Skugga vefur einn á báti
brosir máninn blíður
Á fjöru ferðalangur strandar
fúinn yst og innan hrakinn
Glæsileg gnæfir burstin
þó gisin standi þilin nakin
Fljótin renna djúp og hljóð
Börnin hamast heit og rjóð
Gamlar varir blása í kaun
glæður lifna i laun
Upp til sveita út við sæ
sjá má leigukotið aumt.
Þar fer engin bónleiður
þó skammtað sé oft naumt.
Blíður bíður lautarbolli
enn má les’ í ský og blóm
þungur spyr hinn salti sær
hvar er augnablikið frá í gær
Þúsund ár og þúsund enn
þó elni fjara og rísi flóð
Fjóla fagnar himni nýjum
þilið fallið sem hér stóð.