Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur hélt skemmtilegt hádegiserindi í Sagnheimum sl. fimmtudag. Benti hún m.a. á ýmsar matarholur sem leynast í nágrenni okkar, t.d. hvernig útbúa má girnilegt snakk á auðveldan hátt úr blöðruþangi. Ýmsar fleiri uppskriftir var hún með í pokahorninu, t.d. úr mismunandi gerðum þangs, fjörugrösum, sölvum og skeldýrum.
Uppskriftirnar má nálgast í afgreiðslu Sagnheima.
I lok erindisins kom Guðrún með uppskrift af jólasaltfiskrétti frá Suður – Frakklandi. Hvernig væri að breyta einu sinni til og bjóða upp á einn slíkan?
Uppskriftina má sjá hér að neðan:
Jólasaltfiskréttur frá Suður-Frakklandi
1 kg saltfiskflök
250 ml rjómi
50 ml ólívuolía
150 g hvítlaukur
salt og pipar
6 blöð af hvönn eða njóla eða 6 pönnukökur.
Hitið 2/3 af olíunni í potti, setjið fiskinn beinhreinsaðan í litlum bitum út í og hreyfið stöðugt með sleif. Þegar fiskurinn er orðinn vel brúnaður er afganginum af olíunni og rjómanum bætt útí, hitinn lækkaður og hrært vel í þar til maukið er orðið fallega hvítt og líkist kartöflustöppu. Merjið hvítlaukinn og hrærið saman við, saltið og piprið að smekk. Setjið fiskstöppuna á blöðin (sem áður hefur verið dýft í sjóðandi vatn í 2-3 mín) eða á pönnukökurnar og brjótið saman eins og umslag. Berið með þessu kartöflustöppu og olivíuolíu.