Sagnheimar fengu góða heimsókn frá Þjóðminjasafninu í síðustu viku. Þar var á ferð Nathalie Jacqueminet forvörður sem fór yfir húsnæði Sagnheima, ekki síst geymslumálin. Nú er verið að útbúa nýja geymslu á loftinu í Miðstöðinni. Gera þarf verkáætlun, mæla hita- og rakastig, ljósmagn, athuga brunaboða, reikna út og skipuleggja hillumál áður en hægt verður að fara í að raða mununum upp á skipulagðan hátt, mynda og skrá. Leynast ef til vill nýir möguleikar á loftinu? Á sama tíma eru Sagnheimar að gera átak í að skrá muni safnsins í Sarp, rafrænan gagnagrunn safna og verður spennandi að geta sýnt muni safnsins líka á þeim vettvangi. Ómetanlegt er að hafa aðgang að sérfræðingum eins og Nathalie, sem gerir alla vinnu markvissari og fumlausari.
Hér á myndinni má sjá Nathalie frá Þjóðminjasafninu og Georg Skæringsson frá Þekkingarsetrinu á vettvangi.