Í sumar hefur verið unnið að endurbótum fyrir utan Safnahúsið og er þeim ekki enn lokið.
Á trönurnar eru nú komnar nokkrar skreiðar og fljótlega bætast hausar við, þökk sé Víkingi og félögum hjá Löngu ehf.
Þurrkun var gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks og var einkum notuð á Íslandi og í Noregi og var um aldaraðir helsta útflutningsvara þessara landa.
Skreiðin var hengd upp í hjöllum eða trönum sem þessari, fiskarnir spyrtir saman tveir og tveir, og sól og vindur látinn sjá um þurrkunina. Nú er fiskurinn oftast þurrkaður inni.
Segja má að nú sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar, harðfiskur, öll önnur skreið er framleidd til útflutnings.
Margir sakna Eiðisbátsins sem var fyrir utan Safnahúsið en hann fór illa í fárviðri sl. vetur og bíður enn viðgerðar.