Undirbúningur vetrarstarfsins í Sagnheimum er kominn vel á veg. Fyrsti viðburðurinn á safninu verður sunnudaginn 19. október. Vinnuheitið er Brot úr sögu spítala og lækna í Eyjum. Flest þekkjum við Landlyst og gamla spítalann en vitið þið hvar franski spítalinn var? Eða að til eru stórmerkilegar teikningar af spítala sem átti að reisa á Skansinum fyrir um 100 árum? Við munum einnig minnast Halldórs Gunnlaugssonar læknis sérstaklega sem fórst ásamt fleirum við Eiðið árið 1924 og Einars Guttormssonar læknis sem settur var sjúkrahúslæknir hér 1934 og þjónaði okkur í um 40 ár. Verkefni sem unnið er í samstarfi við fjölskyldur beggja. Saga og súpa verður áfram á dagskrá hjá okkur og verður auglýst sérstaklega hverju sinni.
Sagnheimar, byggðasafn verður í október opið mánudaga – laugardaga kl. 13-16, lokað á sunnudögum. Skólar og hópar geta ávallt haft samband við safnstjóra um opnun safnsins á öðrum tímum.
Hér að ofan má sjá mynd af franska spítalanum úr eigu Ljósmyndasafns Vestmannaeyja.