Í dag eru liðin 53 ár frá komu Lóðsins til Eyja sem átti síðan eftir að þjóna okkur dyggilega í um 40 ár. Í tilefni þessara tímamóta færði Ágúst Bergsson fyrrum skipstjóri Sagnheimum, byggðasafni skipsklukku Lóðsins til varðveislu. Einnig fylgdi með hamar sem notaður var við splæsingar. Safnið færir Ágústi bestu þakkir fyrir hugulsemina og verður mununum komið fyrir á bryggjusvæði safnsins.
Sjá meira um Lóðsinn með því að smella á fyrirsögn fréttar.
Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1983 má lesa skemmtilegt viðtal Sigurgeirs Ólafssonar við Einar Svein Jóhannesson sem þá hafði verið skipstjóri á Lóðsinum frá upphafi eða í 22 ár. Í viðtalinu kemur fram hversu mikilvægur Lóðsinn var fyrir Eyjamenn, þó að margir hafi í fyrstu talið í of mikið ráðist. Einar Sveinn talar um eina sál og sérstaka strengi sem myndast oft milli manns og báts á löngum ferli en litlar mannbreytingar voru á Lóðsinum. Lóðsinn skipaði ekki síst mikilvægu hlutverki í Heimaeyjargosinu en hann var hér allt gostímabilið og bann við að báturinn færi úr höfninni nema með sérstöku leyfi. Báturinn ar alltaf tilbúinn við bryggjuna, hvaða tíma sólarhringsins sem var en sex manna vakt var um borð í einu allan gostímann.
Lóðsinn þjónaði Eyjamönnum til ársins 1998 en þá fengum við nýtt hafnsögu- og björgunarskip, smíðað í Skipalyftunni í Vestmannaeyjum og fékk það einnig nafnið Lóðsinn. Gamli Lóðsinn var seldur en endalok hans urðu þau að leki kom að honum út af Hafnarbergi í desember 2003 og sökk hann skömmu síðar. Mannbjörg varð.