Í ár verður íslenski safnadagurinn haldinn á sama degi og sá alþjóðlegi, þ.e. 18. maí næstkomandi. Markmiðið með deginum er að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og vekja athygli á málefnum safna innan samfélagsins. Þátttakendur í safnadeginum á alþjóðavísu er um 35.000 söfn í 140 löndum. Yfirskrift safnadagsins nú er Söfn og menningarlandslag og eru söfn hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga að því menningarlandslagi sem alls staðar blasir við þeim sem hafa opin augu og huga.
Sagnheimar, byggðasafn mun bjóða upp á Sögu og súpu kl. 12 í tilefni dagsins. Þar mun Perla Kristinsdóttir listfræðingur fjalla um margbreytilegt menningarlandslag húðflúrs hér á landi og skoða þróun þess með mynddæmum. Erindi sitt kallar Perla: Húðflúrlist á Íslandi. Upphaf, þróun og áhrif og verður betur auglýst næstu daga. Frítt verður í Sagnheima, byggðasafn í tilefni safnadagsins.
Endilega hafið augun opin á ferðum ykkar hér heima eða erlendis í kringum 18. maí og athugið hvað söfnin eru að bjóða upp á. Getum lofað ykkar að þar er margt afar áhugavert í boði og reyndar allan ársins hring. Verið hjartanlega velkomin!