Undirbúningur er nú á fullu í Sagnheimum fyrir dagskrá sem halda skal á sumardaginn fyrsta, 25. apríl nk. en þá eru liðin rétt 160 ár síðan Kapteinn Kohl var settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. Dagskráin byrjar á Skansinum kl. 14 en Kohl bjó einmitt í Landlyst. Endurvakinn verður vísir að herfylkingu Vestmannaeyja. Allnokkrir hafa nú þegar skráð sig í hersveitina en betur má ef duga skal! Áhugasamir þátttakendur í herfylkingunni eru beðnir um að hafa samband við safnvörð í síma 698 2412. Algjört skilyrði fyrir þátttöku er að menn séu edrú þennan dag í anda Kohls!
Nánari dagskrá verður birt hér á mánudag og í Eyjafréttum eftir helgi.
Dagskrárdrög:
Stutt athöfn hefst á Skansinum 25. apríl kl. 14. Þaðan verður síðan haldið undir taktföstum bumbuslætti upp í Safnahús þar sem dagskrá hefst kl. 14:45. Karl Gauti sýslumaður mun fjalla um forvera sinn og verk hans í þágu Eyjamanna og Óskar Guðmundsson sagnfræðingur mun koma með nýja sýn á söguna en hann telur líkur á að hann sé afkomandi Kohls. Að lokinni dagskrá verður lagður blómsveigur á gröf Kohls í virðingar- og þakklætisskyni.