Velkomin sértu, góa mín – að þreyja þorrann og góuna
Fyrsti dagur góu var 19. febrúar og er sá dagur nefndur konudagur.
Árni Björnsson segir frá því í bók sinni Saga daganna hvernig Góa hafi oft verið persónugerð sem vetrarvættur. Stundum var reynt að skjalla hana til að bæta veður en samkvæmt gamalli þjóðtrú átti sumarið að vera gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrsta góudag.
Góusýning í Einarsstofu er einmitt hugsuð til að blíðka alla góða vætti í von um gott sumar og gott afmælisár í Safnahúsi. Á veggjum má sjá málverk og teikningar úr Listasafni Vestmannaeyjabæjar og eitt handverk úr Byggðasafni. Verkin eru margvísleg en eiga það öll sameiginlegt að vera gerð af konum. Í skápum eru ritverk sem allflest eru eftir konur eða fjalla um konur, ásamt munum sem verið hafa í eigum kvenna.