Farsæll – fulltrúi árabátaaldar – opið virka daga kl. 08 – 17
Föstudaginn 17. maí opnuðu Sagnheimar nýja sýningu í anddyri Þekkingarsetursins. Þar má nú sjá sexæringinn Farsæl, einn elsta bát landsins og líklega merkasta safngrip Sagnheima. Öll vertíðaskip Eyjamanna frá árabátaöldinni sem tók yfir 1000 ár eru nú löngu úr sögunni en segja má að Farsæll komist næst þeim. Á veggnum má sjá mynd frá 1907 sem tekin var á gamla skipasandinum, sem var á svipuðum stað og Farsæll er einmitt nú. Farsæll er aldursfriðaður, smíðaður 1872, en Ívar Gunnarsson bátasmiður hefur sinnt honum eftir leiðbeiningum sérfræðinga á sviði fornminja. Sæþór Vídó og Bragi Magnússon sáu um hönnun sýningar en fjölmargir aðrir hafa einnig lagt hönd á plóginn. Verkefnið var styrkt af Vestmannaeyjabæ og Safnaráði og er liður í 100 ára afmælishátíð Vestmannaeyjakaupstaðar. Gengið er inn í Þekkingarsetrið að vestanverðu en opið er á skrifstofutíma, þ.e. kl. 08-17 virka daga.