Höfðinginn Þórður Tómasson, fræðimaður og safnstjóri á Skógum, var einn gesta í afmælisveislu Sagnheima, byggðasafns. Í erindi sínu Fetað til fortíðar minnti hann á þau miklu tengsli sem ávallt hafa verið milli Vestmannaeyinga og landmanna.
Þórður gaf Safnahúsi Vestmannaeyja góða afmælisgjöf, mikla fágætisbók, sem jafnan er kölluð Kristins manns himinvegur og er eftir sr. Guðmund Högnason en hún var gefin út árið 1777.
Þessi merka bók heitir fullu nafni: ,,Christens Mans rettur og ootaaldrægur Himins Vegur, Hvar med vysad verdur hvernig eirn og serhver faai komist hiaa eilifre Fordæmingu, og orded obrigdannlega saaluhoolpenn. Og hvernig hann faae þeckt, hvørt hann lifer i sønnum og alvarlegum, eda volgum og hræsnisfullum Christeñdoome, hvørt hañ er aa Veigenum til Himins eda Helviitis, og hvørt hañ kuñe i sinu nærverande Astande og Lifernis Haattalage hoolpeñ ad verda, eda ecke. Christnum Møñum til serdeilislegrar Gudræknis Ydkunar aa þessum siidustu haaskasamlegu Tiidum, ad þeir drage sig ecke siaalfer aa Taalar, i sinum Saaluhiaalpar Efnum, helldur gete vered umm hana visser epter Guds Orde af Kiærleika liooslega fyrer Siooner settur, af Mag. FRIDERICH WERNER, S. Theol. Licentiat og Presti i Borgiñi Lipsia i Þiiskalande ; A Þioodversku i 16da siñe utgeingeñ, aa Dønsku utlagdur, og siidañ aa Islensku, af Sr. Gudmunde Høgnasyne, Presti aa Westmañaeyum.” menn komu sér því fljótlega saman um styttri titil bókarinnar og er hún jafnan kölluð Kristins manns himinvegur. Guðmundur þessi er einn af merkustu sonum Eyjanna og mun þó af mörgum að taka, fæddur 1713. Guðmundur var fyrst aðstoðarprestur sr. Þorsteins Oddssonr í Holti undir Eyjafjöllum en árið 1742 fékk hann amtmannsveitingu fyrir Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, þar sem hann þjónaði í heil 50 ár. Guðmundur var skáld gott, ritaði fjölda handrita og gaf út eigin hugarverk sem og þýddi verk annarra.
Kristins manns himinsvegur er mikið fágæti og er aðeins varðveitt, samkvæmt Gegni, í 5 söfnum á landinu. Hún er eina bókin eftir Guðmund sem til er á safninu og er því mikill fengur að henni.
Eintakið er úr einkabókasafni Þórðar og hefur hann sjálfur ritað á innri kjöl: ,,Þessa bók keypti ég í bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, Rvík 1946. Þórður Tómasson.” Bókin er stráheil, en laus í bandi og verður heiður að því að sýna hana er við minnumst Guðmundar Högnasonar.