Í gær kom Friðrik Jónsson færandi hendi í Sagnheima.
Í fórum sínum hafði hann skemmtilega blýantsteikningu sem hann hafði gert af Syrtlingi árið 1992 eftir ljósmynd sem hann hafði tekið af eyjunni í september 1965 og var því jafnvel síðastur til að sjá hana áður en hún hvarf í hafdjúpið. Ljósmyndina hafði Friðrik áður gefið ljósmyndasafni Vestmannaeyja.
Við þökkum Friðriki fyrir þessa höfðinglegu og skemmtilegu gjöf sem varðveitt verður í listasafni Vestmannaeyjabæjar.
Friðrik er fæddur 4. júlí 1921 og var stýrimaður og skipstjóri á gamla svarta Herjólfi, hætti árið 1965.
Þegar Friðrik tók myndina af Syrtlingi var hann í afleysingingatúr á ms. Rangá í lok september 1965 og það því trúlega síðasta skiptið sem sú eyja var mynduð.
Friðrik færði einnig skjalasafninu að gjöf mjög athyglisverða heimild um upphaf Surtseyjargossins en þá var hann stýrimaður á Herjólfi og átti í talstöðvarsambandi við mb. Ísleif, sem var á vetttvangi.
Einnig afhenti hann reynslusögu Grétu Illugadóttur og Lárus Guðmundssonar á Landagötu. Frábærar og greinagóðar lýsingar, sem mikill fengur er af.