Nú í vikunni kom Páll Helgason ferðafrömuður með merka hluti tengda Hótel Berg til varðveislu í Sagnheimum, byggðasafni. Um er að ræða ljósmynd af Hóteli Berg frá um 1915 og forláta postulínskanna merkt Hótel Berg. Hlutir þessir berast safninu frá Sigurði Karlssyni hönnuði og Hanný Ingu Karlsdóttur til minningar um móður þeirra Sigurbjörgu Ingimundardóttur ekkju Karls Sigurðssonar skipstjóra á Litla Landi Vestmannaeyjum en hún var síðasti eigandi Hótels Bergs. Sendum Páli og þeim systkinum bestu þakkir og kærar kveðjur.
Myndin er nú til sýnis í sýningarskáp við hlið dyra inn á bókasafn á 1. hæð.
Smellið á fyrirsögn fréttar til að fá meiri fróðleik um húsið Tungu og Hótel Berg:
Húsið Tunga var reist árið 1913. Húsið var stórt og myndarlegt steinhús, kjallari með rúmgóðri hæð og risi við Heimagötu 4. Gengið var upp á hæðina um ábúðarmiklar steintröppur.
Húsið byggði danskur maður, Jóhann Sörensen, en hann tók síðar upp íslenskt ættarnafn og kallaði sig Reyndal. Hann setti upp brauðgerðarhús á hæðinni til hægri en ekkert brauðgerðarhús var þá til í Eyjum.
Magnús Bergsson, kunnur athafnamaður í Eyjum kvæntist Dóru Reyndal kjördóttur Jóhanns og keypti Tungu árið 1924. Bjuggu þau í rishæð hússins en leigðu hæðina Íslandsbanka og var bankinn þar til 1930 í norðurenda. Bankastjórinn Haraldur Viggó Björnsson bjó í suðurenda ásamt konu sinni Rannveigu Vilhjálmsdóttur. Landsbanki Íslands starfrækti útibú í Tungu veturinn 1930.
Eftir að bankinn flutti starfsemi sína úr Tungu tók Magnús Bergsson allt húsið til eigin nota og flutti með fjölskyldu sína á neðri hæð og setti á stofn hótel. Hótelherbergi voru á rishæð en veitingasala á hæðinni og matstofa. Þar var stundum dansað. Magnús rak síðan veitinga- og gistihús að Tungu og nefndi það Hótel Berg. Jóna Jónsdóttir keypti innanstokksmuni hótelsins um 1942 og leigði aðstöðuna fyrir gistihús og er hún öðrum fremur tengd nafni og sögu Hótel Berg.
Eftir að Jóna hætti hótelrekstri, keypti Sigurbjörg Ingimundardóttir hótelið og húsið af Sigmundi Andréssyni bakarameistara sem áður hafði eignast allt húsið og búið þar ásamt konu sinni Dóru Hönnu dóttur Magnúsar Bergssonar. Hönnuðurinn Sigurður Karlsson, sonur Sigurbjargar og Karls Sigurðssonar skipstjóra frá Litlalandi breytti húsinu mikið og færði í nútímastíl en upphaflegri umgerð og anda hússins var haldið. Nokkrir ungir Vestmannaeyingar tóku hótelið á leigu um tíma og nefndu Hótel Hamar. Sigurbjörg tók síðan aftur við húsinu og rak Sigurður sonur hennar hótelið ásamt konu sinni Ragnhildi Steingrímsdóttur er gosið hófst. Hótelið nefndu þeir aftur sínu gamla nafni Hótel Berg.
Mynd þessa, sem líklega er frá 1915-1917 færðu systkinin Sigurður og Hanný Inga Sagnheimum, byggðasafni til minningar um móður sína Sigurbjörgu Ingimundardóttur (1909-2003), síðasta eiganda Hótels Bergs.
(Heimild: Guðjón Ármann Eyjólfsson. Vestmannaeyjar byggð og eldgos)