Þó að allt virðist vera með rólegra móti í Sagnheimum nú eftir jólin, þá kraumar safnastarfið samt á fullu. Tekið er á móti skólahópum, vina- og vinnustaðahópum og margvíslegir viðburðir og málþing skipulögð. Næstu tveir sögu- og súpufundir hafa nú verið fastsettir. Margrét Lára Viðarsdóttir landsliðskona verður með erindið ,,Við erum það sem við hugsum”, sunnudaginn 21. febrúar og Kristinn R. Ólafsson stefnir með sitt hádegiserindi á fimmtudaginn 3. mars. Mikið tilhlökkunarefni er að fá báða þessa fyrirlesara, sem verða betur auglýstir þegar nær dregur. Minnum einnig á að hópar geta alltaf haft samband við safnstjóra um opnun safnsins utan auglýsts vetrartíma. Verið hjartanlega velkomin!