19. júní 1853 stofnuðu mormónar kirkju sína í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.
Nú þegar liðin eru 160 ár frá þessum merka atburði er boðið upp á dagskrá Í Golfskálanum laugardaginn 29. júní kl. 11-13 um örlög og ævi nokkurra Vestmannaeyinga sem fluttust til Utah á síðari hluta 19. aldar. Unnt verður að fá súpu og kaffi gegn vægu verði.
Dagskráin er öllum opin en um 100 manns hafa þegar boðað komu sína, bæði frá fastalandinu og Utah.
Meðal gesta er Mark Geslison sonarsonur Sigmundar Gíslasonar úr Jónshúsi og Sveinsínu Árnadóttur frá Löndum er bæði yfirgáfu Vestmannaeyjar börn að aldri ásamt foreldrum sínum. Mark hefur skapað sér nafn sem heimsþekktur fiðluleikari en kemur að þessu sinni með fjölskyldu sinni sem öll er á kafi í þjóðlagatónlist. Munu þau flytja á íslensku ljóð, m.a. eftir einstaklinga sem héðan fluttust á sínum tíma.
Elliði Vignisson bæjarstjóri flytur ávarp.
Richard Manning fjallar um afa sinn Ingimund Jónsson og Einar Eiríksson frá Vestmannaeyjum.
Fred Woods fjallar um Loft Jónsson frá Þorlaugargerði.
Siguróli Sigurðsson fer yfir rannsóknir sínar á upphafi mormónskunnar í Vestmannaeyjum.
Guðrún Bjarkadóttir segir frá ,,fólkinu sínu” en hún er afkomandi Árna Árnasonar frá Vilborgarstöðum og Jóhönnu Lárusdóttur frá Búastöðum.
Erindin verða flutt á íslensku og ensku.