Eitt af hefðbundnum atriðum safnahelgar er upplestur höfunda úr nýjum bókum sínum og sá Guðmundur Andri Thorsson um þann þátt í ár – en bók hans Sæmd rétt náðist til Eyja fyrir helgina og var því glóðvolg. Erlendur Sveinsson opnaði málverkasýningu föður síns, Sveins Björnssonar, í Einarsstofu og hélt síðan upp í Sagnheima þar sem hann sagði frá gömlum Eyjakvikmyndum í Kvikmyndasafni Íslands og sýndi 30 mín. bút. Katrín Gunnarsdóttir kom með enn fleiri dýrgripi úr eigu afa síns Árna símritara og opnaði jafnframt á Heimaslóð tengil inn á bók afa síns Eyjar og úteyjalíf sem Víglundur Þorsteinsson hefur séð um að koma þangað af mikilli elju.