Sagnheimum, byggðasafni berast margar merkilegar gjafir og í sumar bárust okkur afar dýrmætar myndir. Sæmundur Ingólfsson sem vélstjóri var á Alberti tók margar ljósmyndir af upphafsstund Surtseyjargossins og færði okkur myndirnar sem birtust á forsíðu og baksíðu Morgunblaðsins 16. nóvember. Svo mikið lá á að koma myndunum í blaðið að þær birtust bara í hluta upplagsins og þá með vélrituðum texta. Einnig færði Sæmundur safninu myndavélina að gjöf sem hann tók flestar myndirnar á. Þessar frábæru myndir eru nú sýndar í listaskáp Safnahúss ásamt afriti af Morgunblaðinu þar sem myndirnar birtust upphaflega.
Sjá nánar um sögu myndanna hér að neðan og fæðingu Surtseyjar.
Saga myndarinnar:
Það voru skipverjar á Ísleifi II sem árla dags þann 14. nóv. 1963 tilkynntu að neðansjávareldgos væri hafið 11 sjómílur suðvestur af Heimaey. Vestmannaeyjaradíó sendi tilkynningu kl. 08:10 um neðansjávargos í námunda við Geirfuglasker.
v/s Albert var við gæslustörf út af Kirkjuvogi í Höfnum, en ég var þá yfirvélstjóri þar um borð. við fáum fyrirmæli um að fara strax til Þorlákshafnar og sækja tvo jarðfræðinga og halda síðan að gosstöðvunum. Gosið reyndist vera réttvísandi 255° fjarlægð 3.1 sjómíla frá Geirfuglaskeri. Við komum þangað kl. 19:30. Þá er komið myrkur og ekkert sést annað en mökkurinn sem kemur vel fram á radar. Við förum til Vestmannaeyja og erum þar um nóttina.
Í birtingu förum við að gosinu og erum þar við ýmsar athuganir. Gosmökkur er ca. 8.1 km hár. Grjót þeytist upp í 290 m. Breidd stróksins er ca 400 m. Öðru hverju sjást eldstrókar upp úr gígnum. Kl. 09:40 sjáum við greinilega móta fyrir eyju. Gerðar eru mælingar með sextant og virðist eyjan vera ca 10 m há og 64 m að lengd. Skömmu síðar huldi mökkurinn allt og ekkert sást til eyjarinnar. Þegar þetta gerðist vorum við einir á staðnum. Síðar þegar fleiri komu á svæðið og ekkert sést til eyjarinnar er farið að tala um Séstey.
Þannig var veðri háttað að ekki var hægt að fljúga til Vestmannaeyja. Vísindamenn og fleiri voru á leið til Vestmannaeyja með báti frá Þorlákshöfn. Við fengum skeyti um að fara til Eyja og sækja vísindamenn. Þegar við komum í höfn biðu þeir á bryggjunni. Ég fékk leyfi til að skjótast í land með filmu úr myndavélinni minni, hitti fréttaritara Morgunblaðsins, afhenti filmuna og sagði honum hvað væri á henni síðan beint um borð og aftur út af gosstöðvunum.
Næstu daga vorum við bundnir við að vakta gosið, þar til annað skip leysti okkur af. Þegar ég kom í land fékk ég að heyra hvað varð um filmuna. Björn Jóhannesson fréttastjóri á Mogganum sagði mér eftirfarandi. Fréttamenn frá Tímanum höfðu komið til Eyja með bátnum frá Þorlákshöfn, leigt sér bát í Vestmannaeyjum til þess að fara út að gosi og til baka. Þar sem ekki var hægt að fljuga leigðu þeir bátinn aftur til Þorlákshafnar. Minni filmu var komið með þessum báti í land og blaðamaður frá Morgunblaðinu fór til Þorlákshafnar með leigubíl og sótti filmuna. Þegar hér var komið sögu var komið fram á nótt og blaðið tilbúið til prentunar. Skilið var eftir stórt fjögurra dálka pláss á forsíðu fyrir myndina og var vélritaður strimill til skýringar. Á baksíðu var myndin af Surti þar sem hann kannar aðstæður. Forsíðumyndin var símsend til AP fréttastofunnar og birtist víða. Sæmundur Ingólfsson, yfirvélstjóri