Dagskráin var haldin í Einarsstofu. Á veggjum voru myndir eftir Júlíönu og í skápum fágætisbókasafn Sveins og munir úr eigu fjölskyldunnar, nú á byggðasafni. Um 45 manns sóttu dagskrána sem var bæði fjölbreytt og skemmtileg, sjá nánar hér að neðan.
Hér á myndinni má sjá mynd af afkomanda Guðrúnar við sveinsstykki ömmu sinnar, afar fallegan kjól í þjóðbúningastíl. Kjóllinn er meira en hundrað ára gamall og afar vel með farinn.
Kristín Bragadóttir doktorsnemi í sagnfræði flutti erindi um hinn ástríðufulla safnara, sem Sveinn elsti í Völundi vissulega var.
Hrafnhildur Schram listfræðingur fjallaði um listakonuna Júlíönu Sveinsdóttur sem hóf og endaði ferill sinn í Vestmannaeyjum.
Bergljót Leifsdóttir Mensuali sagði frá langafa sínum og langömmu, Sveini og Guðrúnu. Bæði voru þau litrík og kraftmikið baráttufólk sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Guðrún ól ein upp börn þeirra við hörð kjör hér í Eyjum eftir að Sveinn flutti til Reykjavíkur.
Sérlega fallegur kross úr mósaíki eftir Júlíönu dóttur hennar er á leiði Guðrúnar í kirkjugarði Landakirkju.