Þó að safnið okkar sé enn opið daglega kl. 10-17 og verður svo til 1. október, þá er undirbúningur vetrarstarfs í fullum gangi. Gátum eiginlega ekki beðið og þjófstörtuðum með stórkostlegum ljóðaleik Þórhalls í Einarsstofu í síðustu viku og svo er næsta Eyjahjartað, sem enginn má missa af nk. sunnudag einnig í Einarsstofu. Undirbúningur dagskrár um netagerð og netagerðarmenn í Eyjum hófst sl. vor hér í húsi og hafa margir verið kallaðir til skrafs og ráðagerða. Mjög skemmtilegt verkefni sem stöðugt vindur upp á sig í myndum og sögum. Afraksturinn birtist síðan í dagskrá á bryggjusvæði safnsins 7. október nk. Undirbúningur safnahelgar er líka langt kominn en hún verður líklega síðustu helgina í október í ár og verður þar margt spennandi á boðstólnum. Starfsfólk bókasafns er nú þegar að missa sig við undirbúning jólanna – það verður eitthvað sögulegt! Það er því algjör óþarfi að kvíða haustinu og vetrinum, því fjölmargar ástæður verða til að gleðjast í Safnahúsinu!
Á meðfylgjandi mynd má sjá listaverkagjöf Ástu Arnmundsdóttur og Sigurðar Jónssonar til minningar um föður Ástu, Arnmund Þorbjörnsson netagerðameistara (1922-2014). Myndina gerði Sigurfinnur Sigurfinnsson og kemur hún úr búi Arnmundar. Arnmundur tengdist sögu netagerðar á margvíslegan hátt, rak og átti Netagerð Reykdals og vann einnig lengi hjá Netagerð Ingólfs. Mynd Sigurfinns er næsta mynd sem kynnt verður í listaverkaskáp Safnahúss í anddyri bókasafns.