Fisktrönur við Safnahúsið okkar vekja alltaf nokkra athygli gesta ekki síst erlendra ferðamanna. Langa ehf hefur undanfarin ár lagt til fiskinn og minna okkur þar með á þessa aldagömlu aðferð til að auka geymsluþol fisks eða skreiðar. Trönurnar eru hluti af sýningarsvæði Sagnheima, byggðasafns.
Skreið er þurrkaður afhausaður fiskur, oftast þorskur eða ufsi. Skreiðin var lengst af útiþurrkuð, tveir fiskar spyrtir saman og hengdir upp í sérstökum fiskhjöllum eða á þar til gerðar sperrur, fisktrönur, og sól og vindur látin um þurrkunina.
Skreið hefur verið verslunarvara í Evrópu í meira en þúsund ár og var ásamt lýsi og vaðmáli ein helsta útflutningsvara Íslendinga öldum saman. Á miðöldum hækkaði skreið mikið í verði á erlendum mörkuðum og reið þá mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Rakt sjávarloftið reyndist oft erfitt og hertu Eyjamenn því gjarna fiskinn á syllum í móbergshömrum í svokölluðum fiskbirgjum. Dæmi um slík fiskbirgi má sjá í berginu í Fiskhellum á leiðinni inn í Herjólfsdal og komu þau m.a. við sögu í Tyrkjaráninu 1627.
Allt fram undir 1900 var skreiðin talin ómissandi fæða, næringarmikil, saðsöm, þurfti litla matreiðslu og geymdist vel. Hertur fiskurinn var borinn fram með súru smjöri sem þótti drýgra en ósúrt og jafnvel bleyttur í sýru, svo að hann yrði mýkri undir tönn.
Í dag má segja að Íslendingar neyti aðeins einnar tegundar þessarar hertu og þurrkuðu afurða, þ.e. harðfisks. Nær öll vinnsla og þurrkun fer nú fram með vélbúnaði innandyra. Helstu markaðir fyrir skreið og þurrkaða hausa eru í Nígeríu.