Í skápum Einarsstofu eru nú ýmsir munir tengdir kristni og páskum, trúarlegar bækur, munir úr Byggðasafni og gamlar fermingarmyndir úr ljósmyndasafni Kjartans Guðmundssonar. Síðustu forvöð eru að sjá þessa sýningu, þar sem hún verður tekin niður á sumardaginn fyrsta.
Meðal merkra bóka má nefna Biblíu ,,gamla Jóns í Gvendarhúsi”. Af munum má sjá lykil úr bænahúsinu að Ofanleiti og ,,eitt guðdómlegt guðslíkamahús”.
Oblátudós þessi er frá árinu 1655 og því með elstu munum safnsins. Hjónin Rebekka Ágústsdóttir frá Landlyst og Sigurður Ólafsson gáfu safninu þennan merka grip til minningar um son sinn Ágúst Gunnar sem fórst í flugslysi 27. mars 1948. Dósin kom úr Miðbæliskirkju undir Eyjafjöllum og hafði fylgt ætt Rebekku frá því kirkjan var lögð niður árið 1765.
Á lokinu stendur skráð á latínu: ,,Homini Larga Flendi Materia ubiq est”, sem lærðir menn segja að þýði: ,,Manninum gefst alls staðar nægilegt harmefni.”