Byggðasafnið væri ekki til nema fyrir velvilja bæjarbúa sem eru duglegir að koma með gamla muni til varðveislu og hjálpa þannig til við að viðhalda sögunni. Oft er það einmitt sagan sem fylgir hlutunum sem gæðir þá lífi og gerir jafnvel hluti sem í fyrstu virðast lítils virði að ómetanlegum fjársjóði.
Hér til hliðar má sjá mynd af einni slíkri gjöf, sem barst safninu sl. sumar. Hér er um að ræða flöskustút af kampavínsflösku sem notuð var við nafnagift Danska Péturs 20. febrúar 1971, sem lengst af var í eigu Emils Andersen og útgerðarfélags hans. Flöskustúturinn er nú til sýnis í glerskáp í afgreiðslu Sagnheima.
Sjá nánar hér að neðan:
Gjöfinni fylgdi eftirfarandi greinagerð Guðbjargar Októvíu Andersen:
Emil Marten Andersen (f. 31.07.1917, d. 17.03. 1995) skipstjóri og útgerðarmaður lét smíða fyrir sig skip á Akranesi hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts hf. árin 1970 til 1971. Þann 20. febrúar 1971 gaf eiginkona Emils, Þórdís Jóelsdóttir (f. 15.02. 1916, d. 17.07. 1996), skipinu nafnið Danski Pétur. Nafnið var gælunafn föður Emils, Hans Peter Andersen, sem jafnan var kallaður Danski Pétur í Vestmannaeyjum.
Danski Pétur VE-423, skipaskráningarnúmer 1146 var tuttugasta og þriðja nýsmíði skipasmíðastöðvarinnar og var skipið 103 tonn að stærð og kom til Vestmannaeyja 10. mars 1971. Skipið var lengst af í eigu Emils Andersen og útgerðarfélags hans og gerði hann skipið út þar til hann lést. Útgerðarfélag Emils, Immanúel ehf., var sameinað Vinnslustöð Vestmannaeyja hf. af erfingjum Emils 1997 og komst skipið þá í eigu VSV hf. sem gerði það út um árabil.
Meðfylgjandi er flöskustútur af kampavínsflösku sem notaður var við nafnagiftina 1971 og var vel varðveittur af þeim hjónum Dísu og Malla og er hann nú færður Byggðasafni Vestmannaeyja til varðveislu.