Á vegum Rannsóknaseturs í safnafræðum við Háskóla Íslands er komin út bókin Byggðasöfn á Íslandi. Bókin er sýnisbók um starfsemi 14 byggðasafna á Íslandi. Tilgangur útgáfunnar er að vekja athygli á því margbrotna starfi sem söfnin hafa staðið fyrir og hversu brýnt það er að þeirri menningarmiðlun sem þar fer fram sé betri gaumur gefinn. Að sjálfsögðu á merkilegt byggðasafn okkar Vestmannaeyinga, Sagnheimar, sína sögu í bókinni.
Í vikunni kom Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í heimsókn í Sagnheima en safnið okkar er ásamt Sæheimum hér í Eyjum í hópi 44 viðurkenndra safna á Íslandi. Til að fá slíka viðurkenningu safnaráðs þurfa söfn að uppfylla strangar kröfur varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf. Við megum því vera afskaplega stolt af safninu okkar og jafnframt þakklát bæjarbúum sem hafa stutt okkur með margvíslegum hætti í gegnum tíðina!
Hér má sjá lista safnaráðs yfir viðurkennd söfn á Íslandi:
http://www.safnarad.is/vidurkennd/vidurkennd-sofn—listi/