Bókasafn Vestmannaeyja fagnaði 150 ára afmæli sínu í dag með veglegri hátíðardagskrá í Einarsstofu. Kjarvalsmálverk úr eigu listasafns Vestmannaeyja prýddu veggi.
Í tilefni afmælisins var efnt til samkeppni um logo bókasafnsins. Hér á myndinni má sjá vinningshafann Gunnar Júlíusson skýra táknmyndir nýja merkisins. Til vinstri er Kári Bjarnason núverandi forstöðumaður bókasafnsins og til hægri Helgi Bernódusson, fyrrverandi forstöðumann Bókasafnsins( 1978-1982).
Margir frábærir fyrirlestrar voru fluttir. Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður fjallaði um gömlu lestrarfélögin, sem voru forverar bókasafna nútímans. Dr. Ágúst Einarsson prófessor og fyrrverandi rektor fór yfir hina nýju atvinnuháttabyltingu, gildi menningar og og hagræn áhrif Bókasafns Vestmannaeyja. Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis rifjaði upp minningar sínar frá störfum sínum á Bókasafni Vestmannaeyja 1978-1982. Matthías Johannessen skáld og dr. Pétur Pétursson prófessor kynntu samstarfsverkefni um Davíðssálma Jóns Þorsteinssonar. Hvert erindið var öðru áhugaverðara og krydduðu Kittý og Balazs dagksrána með tónlistarflutningi sínum. Að lokum var boðið til afmæliskaffis á bókasafninu.