Verkefnið Saga og súpa í Sagnheimum hefur notið mikilla vinsælda sl. ár og verið vel sótt. Boðið er upp á súpudisk og brauð í hádeginu 5-6 sinnum á ári og fengnir fyrirlesarar um hin margvíslegustu efni, sem þó tengjast öll Eyjunum eða sögu þeirra á e-n máta. Með 200 þús. króna styrk Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga nú getum við haldið verkefninu áfram og gleðjumst við mjög yfir því. Bestu þakkir fyrir okkur!
Næsta Saga og súpa hefur þegar verið skipulögð, þ.e. fimmtudaginn 16. júlí kl. 12. Þá mun dr. Þorsteinn Helgason sagnfræðingur einkum beina sjónum sínum að vígi sr. Jóns Þorsteinssonar og afdrifum sonar hans, Jóns Vestmanns en þá eru einmitt liðin 388 ár frá Tyrkjaráninu. Nánar verður sagt frá þessu þegar nær dregur bæði hér á heimasíðu og í Eyjafréttum.