Í júlímánuði minnumst við þess að 388 ár eru frá Tyrkjaráninu. Um goslok var eftirminnilegur flutningur Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar og leikkonu á Örlagasögu Hallgríms og Guðríðar á bryggjusvæði safnsins og komust færri að en vildu. Nú bjóðum við upp á spennandi dagskrá í hádeginu fimmtudaginn 16. júlí kl. 12-13 og er það hluti af fyrirlestraröðinni Saga og súpa í Sagnheimum.
Gestur okkar að þessu sinni er dr. Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur en doktorsritgerð hans: Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins kom út á síðasta ári. Í hádegiserindi sínu ætlar Þorsteinn einkum að beina augum sínum að séra Jóni Þorsteinssyni presti að Kirkjubæ og fjölskyldu hans, ekki síst ævintýralegu lífshlaupi sonar sr. Jóns, er kallaði sig Jón Vestmann. Einnig mun Þorsteinn rekja kenningar sínar um myndmál altaristöflunnar á Krossi í Landeyjum, sem allir Vestmannaeyingar ættu að skoða á ferð sinni um Suðurland.
Að venju er boðið upp á súpu á undan erindinu.
Allir hjartanlega velkomnir!
Dagskráin er styrkt af SASS.
Fréttinni fylgir ein af teikningum Jakobs S. Erlingssonar á sýningarsvæði Sagnheima, byggðasafns um Tyrkjaránið. Hér má sjá víg sr. Jóns Þorsteinssonar víð Rauðhelli.