19. júní sl. var opnuð sýningin Tvær sterkar í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Um er að ræða sýningu á verkum tveggja kvenna Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966) og hinnar færeysku Ruthar Smith (1913-1958). Báðar ólust þær upp á vindbörðum og saltstorknum klettaeyjum í Norður-Atlantshafi og voru meðal fyrstu kvennanna sem gerðu myndlist að ævistarfi. Skemmtilegt er að sjá hvernig heimahagar þeirra koma fram í verkunum ásamt gagnrýnum sjálfsmyndum og sterkum myndum af samferðafólki. Listasafn Vestmannaeyja lánaði eitt af verkum Júlíönu úr safni sínu og Sagnheimar, byggðasafn lánaði málaraspjald og pensla Júlíönu. Á sýningunni er einnig nokkur veflistaverk Júlíönu. Í Sagnheimum eru nokkrir munir tengdir Júlíönu, m.a. bernskuskór hennar, vefstóll hennar, málverk og forkunnarfagur skautbúningur sem hún saumaði fyrir mágkonu sína Laufeyju Sigurðardóttur árið 1930.
Sýningin á Kjarvalsstöðum er norræn farandsýning höfuðborganna þriggja, Reykjavíkur, Tórshavnar og Kaupmannahafnar og leggur því land undir fót í lok ágústmánaðar. Vestmannaeyingar og aðrir áhugamenn um myndlist mega alls ekki láta þessa sýningu fram hjá sér fara!