Vestmannaeyingar fagna 100 ára kosningarétti kvenna 19. júní á margvíslegan hátt. Kl. 12 verður hátíðarfundur bæjarstjórnar og jafnframt sá 1500 í Landlyst. Kl. 16:30 hefst síðan jafnréttisganga frá Vigtartorgi upp í Safnahús. Í göngunni stiklar Jóhanna Ýr Jónsdóttir sagnfræðingur á stærstu áfangasigrum kvenréttindabaráttunar og eru þátttakendur í göngunni hvattir til að mæta í bleikum lit. Kl. 17 hefst síðan dagskrá í Sagnheimum, byggðasafni. Gunnhildur Hrólfsdóttir sagnfræðingur og rithöfundur flytur erindið: Þær þráðinn spunnu. Bók hennar um líf og störf kvenna í Eyjum á síðustu öld er að koma út um þessar mundir. Á safninu er hægt að skrá sig á lista og fá bókina þannig á sérstöku kynningarverði. Að þessu tilefni verður opnuð ný sýning í Sagnheimum, sembyggir á bók hennar og er samstarfsverkefni Gunnhildar og Sagnheima, byggðasafns. Á meðal annarra merkra sýninga Sagnheima er þar sýning sem opnuð var í maí: Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár og sérstök kvennastofa. Í Einarsstofu er myndlistasýning Bjarteyjar Gylfadóttur og þar er einnig á vegum safna Safnahúss sýningin Úr fórum kvenna. Boðið er upp á hátíðarköku í tilefni dagsins Gestir eru hvattir til að skoða sýningar Safnahúss á þessum merka degi. Allir hjartanlega velkomnir.
19. júní í Vestmannaeyjum – þær þráðinn spunnu
