Undirbúningur er nú á fullu í öllum söfnum Safnahúss fyrir safnahelgina. Listvinahópur hússins kallar eftir verkum kvenna sem dæmi um margvíslega listsköpun þeirra. Hér gæti verið um að ræða málverk, handavinnu, skartgripi, ljóð, teikningar, ljósmynd eða nánast hvað sem er. Eina skilyrðið er að konan hafi búið í Eyjum á tímabilinu 1915-2015. Nú þegar hafa borist alveg ótrúlega flott og margvísleg verk kvenna í þetta spennandi verkefni – en enn er tími og rúm til að bæta við fleiri listverkum. Eyjamenn sem telja sig lúra á dýrgripum og eru tilbúnir að leyfa fleirum að njóta eru hvattir til að hafa samband sem allra fyrst við Kára eða Perlu í Safnahúsi.
Hér á myndinni til hliðar má sjá sýnishorn af einum dýrgripanna. Um er að ræða svokallaða klukku sem Margrét Jónsdóttir frá Skuld (1885-1980) prjónaði á Ernu Jóhannesdóttur, barnabarn sitt. Klukkan er einn af kjörgripum Sagnheima, byggðasafns.