Í Einarsstofu getur nú að líta sýningu sem byggir á margvíslegum heimildum um þann mikla örlagadag 23. janúar 1973.
Á skjalasafni og byggðasafni hafa sópast saman munir og minningar sem sýna hina óbilandi löngun til að halda í það sem varð eftir þegar ósköpunum linnti.
Úr listaverkasafninu drögum við fram málverk sem sýna byggðina fyrir gos og einnig nokkur málverk úr eigu Ólafs Sigurðssonar frá Vatnsdal þar sem hann túlkar gosið sjálft.
Skáldin urðu einnig innblásin og barna- unglinga- og fullorðinsbækur voru gefnar út, einkum á fyrstu árunum.
Sýningin er aðeins fyrstu drög að hinni stóru sýningu sem verður að ári er heil 40 ár verða liðin frá eldgosinu í Vestmannaeyjum.