Formannavísur eru merkilegar heimildir um formenn fyrri alda og útgerðarhætti og eru jafnvel taldir séríslenskt fyrirbæri. Nú má í Sagnheimum heyra Ragnar Óskarsson lesa vísur Magnúsar Magnússonar frá1765 og Sigurðar Breiðfjörð frá 1827. Auk þess má heyra stórmerkilega upptöku frá sjómannadeginum 1956 þar sem Baldur Hólmgeirsson syngur formannavísur Ása í Bæ. Einnig syngur Ási í Bæ lag sitt og texta við ,,Í verum”.
Gaman er að heyra Baldur syngja um Bjarnhéðinn, Sigga á Freyjunni, Binna í Gröf og fleiri kappa sem að við munum enn svo mörg. Einnig virðist söngur Ása vera góður við styrðleika í mjöðmum, því enginn hefur hingað til getað hlustað á söng hans án þess ósjálfrátt að fara að dilla sér.