Að vanda verða margir áhugaverðir dagskrárliðir í Eyjum um safnahelgina okkar, 3.-6. nóvember, og mun dagskráin koma inn á hina ýmsu vefmiðla næstu daga.
Á sunnudeginum, 6. nóvember, kl. 12, verður saga og súpa í Sagnheimum. Þá mun Illugi Jökulsson fjalla um vísindamanninn Jean-Babtist Charcot og síðustu sjóferð franska rannsóknarskipsins Pourquoi-pas? sem fórst við Álftanes á Mýrum árið 1936. Í slysinu fórust 39 manns en einn maður lifði af eftir frækilega björgun Íslendings.
Charcot (1867-1936) var í hópi þeirra sem fyrst könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimskautin í byrjun síðustu aldar en meðal annara má nefna Amundsen, Scott, Nordenskjöld og Peary. Pourquoi-Pas? (af hverju ekki?) var sérútbúið rannsóknarskip með þremur rannsóknarstofum og bókasafni. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísindarannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag. Charcot og menn hans komu oft við hér á landi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir og eignaðist fjölmarga vini hér á landi.
Samskipti Eyjamanna við franska sjómenn voru allnokkur fyrr á öldum. Fjölmörg fiskiskip frá norðurhluta Frakklands sigldu á Íslandsmið í lok 19. aldar en flest voru þau talin hafa verið 80 talsins árið 1895. Í byrjun 20. aldar voru reist þrjú sjúkrahús á landinu fyrir þessa sjómenn, í Reykjavík, á Fáskrúðsfirði og í Vestmannaeyjum (Gamló, Kirkjuvegi 20) árið 1905.
Í ritsafni Árna Árnasonar símritara er sagt frá Fransmannaleik sem barst hingað til Eyja í upphafi 20. aldar með sjómönnum á franska spítalanum og varð mjög vinsæll. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1969 er einnig sagt frá því að hið alþjóðlega slagorð sjómanna á milli ,,ship-o hoj” megi jafnvel rekja til franskra sjómanna á miðöldum. Má því e.t.v. með góðum vilja segja að í texta Lofts Guðmundssonar, Sjómannslíf, gæti franskra áhrifa:
Ship-o-hoj – ship-o-hoj,
ferðbúið liggur fley,
ship-o-hoj – ship-o-hoj
boðanna bíð ég ei.