Dagskráin um kaptein Kohl, danska sýslumanninn sem breytti sögu Eyjanna tókst vel í blíðskaparveðri. Nýendurvakinn herfylking mætti edrú og galvösk á Skansinn undir stjórn núverandi sýslumanns og eftirmanns Kohls, Karls Gauta. Herinn skartaði húfum sem Ásdís Loftsdóttir hannaði eftir gamalli lýsingu. Arnar Sigurmundsson benti á breytingar sem gerðar höfðu verið á Skansinum í tíð Kohls og Landlyst, þar sem sýslumaður bjó.
Leikinn var hersöngur Kohls, skotið af fallbyssunni og síðan haldið fylktu liði undir taktföstum trommuslætti lúðrasveitarinnar upp í Safnahús, þar sem dagskráin hélt áfram.
Rúmlega 80 manns mættu í Sagnheima til að hlusta á erindi Karls Gauta og Óskars Guðmundssonar rithöfundar. Karl Gauti rifjaði upp þær framfarir sem urðu hér í Eyjum í tíð kapteins Kohls en Óskar horfði á Kohl í aðeins öðru samhengi, og rakti m.a. meinta niðja Kohls hér á landi. Að lokinni dagskrá var síðan lagður blómsveigur á leiði Kohls í kirkjugarðinum og spiluðu tveir lúðurþeytarar hersönginn við það tækifæri. Dagurinn var allur hinn ánægjulegasti og er vonast til að minningin um þennan mæta mann lifi áfram í hjörtum manna um ókomin ár.
Arnar Sigurmundssyni, Karli Gauta og Óskari Guðmundssyni sem aðstoðu safnstjóra við undirbúninginn eru færðar bestu þakkir. Einnig herfylkingunni, lúðrasveitinni, saumakonum og öðrum sem lögðu hönd sína á plóginn svo að dagurinn yrði sem ánægjulegastur.