Safnstjóri nýtur þeirra forréttinda þessa dagana að grúska í geymslum safnsins. Markmiðið er að draga upp fleiri muni og bæta á bryggjusvæðið eða skipta út fyrir aðra. Leit þessari fylgja oft mikil hróp og háar stunur, sem aðrir starfsmenn Safnahúss eru löngu hættir að kippa sér upp við. Nú komu upp í hendurnar þessir hlutir, sem hér eru á mynd. Á vélrituðum miða stendur: ,,Færisakka með ljósi.”. Þetta er líklega úr kopar, 18 cm langt, 4 cm í þvermál og með fjórum litlum ,,gluggum”. Gefandinn, Friðrik Alfreðsson frá Haga, segist hafa fundið þetta á milli þilja á Faxastíg 14, þegar hann vann þar að endurbótum 1986. Endilega hafið samband við safnstjóra, helga@sagnheimar.is, ef að þið vitið hvenær svona var notað og þá við hvers konar veiðar?