Fréttir

20.09.2012

118

Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð og skipamyndirnar hans í Einarsstofu

Í Einarsstofu er nú sýnishorn af skipamyndum Jóns frá Bólstaðarhlíð en hann lést 4. september sl. á 88. aldursári.  Fyrir um ári ráðstafaði Jón öllu sínu mikla ævistarfi í þágu rannsókna á íslenska skipaflotanum til Safnahúss Vestmannaeyja.
Í Einarsstofu eru nú sýndar 60 myndir sem tengjast sögu Vestmannaeyja á einn eða annan hátt ásamt upplýsingum um skipin, sem allar eru teknar úr bókum Jóns, sem einnig eru lagðar fram til sýnis.

Sjálfur sagði Jón að upphaf þess að hann hófst handa um að taka saman sögu íslenskra skipa hafi verið bernskuminning hans um: ,,...hversu við strákarnir þekktum nánast hvern bát í Vestmannaeyjum á vélarhljóðinu einu og það kveikti í mér löngun að fara af stað og eignast myndir af sem flestum Eyjabátum".
Afrakstur þessa eru 9 hnausþykk bindi, með um 6000 ljósmyndum af skipum og bátum hvaðanæva af landinu, sem skráð voru á Íslandi á árunum 1870-1998.
Jón var sæmdur fyrsta heiðursmerki Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja 18. júní 1992 og riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2003 fyrir fræði- og ritarastörf, auk margra annarra viðurkenninga í ræðu og riti.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Bryndís Jónsdóttir og eignuðust þau fjögur börn.
Til baka