Fréttir

Dánardagur Ása í Bæ - frábær dagskrá í RÚV

01.05.2014

Ási í Bæ hefði orðið 100 ára 27. febrúar sl. og hefur þess víða verið minnst. Sighvatur Jónsson var með frábæran þátt í RÚV í dag en 1. maí var einmitt dánardagur Ása. Í dagskrá Sighvatar má m.a. heyra brot úr dagskrá sem haldin var á afmælisdaginn í Safnahúsinu, svo og frá tónleikunum í Hörpu.

Hér má heyra þátt Sighvats:

http://www.ruv.is/sarpurinn/eg-thrai-heimaslod/01052014-0

 

Sagnheimar fagna sumarkomu

23.04.2014

Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 24. apríl,  verður opið í Sagnheimum, byggðasafni frá kl. 13-16.

Við sýnum mynd Heiðars Marteinssonar Gosið og uppbyggingin í Vestmannaeyjum kl. 13 og 14 og lundamynd Páls Steingrímssonar Litli bróðir í norðri kl. 15.

Sagnheimar um páska 2014

15.04.2014

Opið verður í Sagnheimum, byggðasafni á skírdag og laugardag fyrr páska kl. 13-16.

Báða dagana verður sýnd mynd Heiðars Marteinssonar Gosið og uppbyggingin í Eyjum kl. 13 (enska) og 14 (þýska). Myndin verður einnig sýnd aukalega með íslensku tali ef þess verður óskað.

Einarsstofa verður einnig opin á sama tíma, þ.e. skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16. Þar er nú einstök sýning Kristleifs Magnússonar og fer hver að verða síðastur að sjá hana.

 

Sagnheimar - 53 ár frá komu Lóðsins til Eyja

04.04.2014

Í dag eru liðin 53 ár frá komu Lóðsins til Eyja sem átti síðan eftir að þjóna okkur dyggilega í um 40 ár. Í tilefni þessara tímamóta færði Ágúst Bergsson fyrrum skipstjóri Sagnheimum, byggðasafni skipsklukku Lóðsins til varðveislu. Einnig fylgdi með hamar sem notaður var við splæsingar. Safnið færir Ágústi bestu þakkir fyrir hugulsemina og verður mununum komið fyrir á bryggjusvæði safnsins.

Sjá meira um Lóðsinn með því að smella á fyrirsögn fréttar.

Leyndardómar: Saga og súpa í Sagnheimum 3. apríl kl. 12

01.04.2014

Við höldum áfram að afhjúpa leyndardómana, innan og utan Safnahúss. Eigum nóg uppi í erminni enn!

Dagskrá Sagnheima og Safnahúss, fimmtudaginn 3. apríl:

kl. 12. Saga og súpa í Sagnheimum.  Ásmundur Friðriksson alþingismaður ræðir um ferðamennsku og hvernig oft má á einfaldan og skemmtilegan hátt nýta þau tækifæri og möguleika sem felast í sögu og menningu Eyjanna.

Kl. 13-16: Ljósmyndadagur í Ingólfsstofu. Ljósmyndir þekktra sem óþekktra ljósmyndara á síðustu öld varpað á vegg.

Kl. 16: Opnun sýningar Kristleifs Magússonar í Einarsstofu. Sýningin er liður í átaki Listvina Safnahúss við að draga fram Vestmananeyinga sem eru þekktir í sögu Eyjanna fyrir allt annað en listsköpun. Sýningin er unnin í sstafi við fjölskyldu Kristleifs.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.
 

,,Staðlausir stafir" í Sagnheimum, byggðasafni

29.03.2014

Í dag var sýningin ,,Staðlausir stafir" opnuð í Sagnheimum, byggðasafni. Sýningin samanstendur af níu göngustöfum, sem venjulega eru geymdir í geymslum safnsins, þ.e. eiga sér engan fastan stað í sýningum og má því segja að séu staðlausir. Stafirnir koma úr eigu átta karla og einnar konu. Allir voru þessir einstaklingar mikilvægir í samfélaginu í síðustu öld, áttu sínar vonir og drauma og er stiklað á stóru í lífslaupi þeirra í sýningunni. Sýningin er opin á opnunartímum Sagnheima, byggðasafns og stendur fram eftir ári.

Stafirnir tilheyrðu:

1. Bjarni Þorsteinsson (1841-1930)

2. Halldór Brynjólfsson (1873-1948)

3. Gísli J. Johnsen (1881-1965)

4. Árni Filippusson (1856-1932)

5. Ingmundur Jónsson (1829-1912)

6. Páll Bjarnason (1884-1938)

7. Sveinn Jónsson (1862-1947)

8. Jóhanna Gunnsteinsdóttir (1841-1923)

9. Guðjón Jónsson (1882-1963).

 

Leyndardómar Safnahúss Vestmannaeyja kynntir

27.03.2014

Sunnlensk söfn og fyrirtæki kynna nú ýmsar gersemar sem leynast í fjórðungnum. Nú um helgina eru eftirfarandi viðburðir í eða í samstarfi við Safnahús:

Vöruhúsið, föstud. 28. mars kl. 17: Vöruhús minninganna. Opnun sýningar úr ljósmyndsafni Vestmannaeyja. Samstarfsverkefni Vöruhúss og Safnahúss kynnt.

Einarsstofa, laugard. 29. mars kl. 13: Gleymdir kvikmyndabútar úr fórum Sigurgeirs Jónassonar ljósmyndara frá um 1968.

Sagnheimar, byggðasafn, laugard. 29. mars kl. 14: Sýningin ,,Staðlausir stafir" opnuð. Um er að ræða sýningu á samstæðum dýrgripum úr geymslu Sagnheima, þar sem hver gripur segir sína sögu.

Kynntir verða ómetanlegir munir úr eigu Júlíönu Sveinsdóttur, sem safninu bárust fyrir skömmu frá Danmörku.

Niðurstöður rannsókna á skipsklukkunni sem skipverjar á Þórunni Sveinsdóttur VE færðu safninu í desember kynntar.

Allir hjartanlega velkomnir!

Sagnheimar og Annríki, þjóðbúningar og skart

11.03.2014

Guðrún Hildur Rosenkjær hjá Annríki hefur verið með námskeið hér í Eyjum undanfarnar vikur í í þjóðbúningasaum.  Hún leit við í geymslum Sagnheima um helgina og sá þar margan dýrgripinn. Stefnt er að því að draga þennan fjársjóð fram í dagsljósið í samvinnu við Guðrúnu Hildi í maímánuði og þá jafnvel í samfloti við útskrift nemenda hennar hér.   Nánar auglýst síðar.

Leyndardómar Suðurlands - Safnahús Vestmannaeyja

06.03.2014

Dagana 28. mars - 6. apríl standa ýmis söfn, fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi fyrir kynningarátaki á margvíslegum forvitnilegum gersemum sem leynast á Suðurlandi.

Safnahúsið tekur virkan þátt í átakinu og dregur ýmislegt forvitnilegt fram í dagsljósið. 

Föstudaginn 28. mars kl. 17 opnar sýningin Vöruhús minninganna í Vöruhúsinu, Skólavegi 1. Við opnun verður kynnt nýtt samstarfsverkefni Vöruhúss og Safnahúss.

Laugardaginn 29. mars kl. 13 í Einarsstofu: Sýndur kvikmyndabútur frá seinustu öld, sem nýverið fannst og ekki hefur verið sýndur áður.  Sama dag kl. 14 opnar sýningin Staðlausir stafir í Sagnheimum. Um er að ræða sýningu á samstæðum dýrgripum úr geymslu Sagnheima sem hver segir sína sögu. Einnig verða sýndir dýrgripir úr eigu Júlíönu Sveinsdóttur sem safninu bárust fyrir skömmu frá Danmörku. Niðurstöður rannsókna á skipsklukkunni sem skipverjar á Þórunni Sveinsdóttur VE færðu safninu í desember verða kynntar.

Fimmtudaginn 3. apríl kl. 12: Saga og súpa í Sagnheimum. Ásmundur Friðriksson alþingismaður fjallar um hina ýmsa leyndardóma Suðurlands. Sama dag kl. 13-16 er síðan ljósmyndadagur í Ingólfsstofu, þar sem ljósmyndir þekktra sem óþekktra ljósmyndara á síðustu öld verður varpað á vegg.

Viðburðir verða auglýstir betur þegar nær dregur.

 


 

Ási í Bæ og Safnahús Vestmannaeyja

28.02.2014

Frábær þátttaka og stemming var í Einarsstofu í gær er 100 ára afmælis Ása í Bæ var minnst. Dagskránni lauk með því að Gunnlaugur Ástgeirsson söng Undrahattinn við undirspil Eyvindar og Molanna og tóku gestir vel undir. Sýningin Ólíkar ásjónur Ása í 100 ár stendur áfram í Einarsstofu fram í miðjan mars á opnunartímum Safnahúss. Minnum einnig á að í Sagnheimum, byggðasafni má hlusta á Ása syngja lag sitt og ljóð Í verum. Einnig eru þar skipslíkön föður hans hins þekkta bátasmiðs Ólafs Ástgeirssonar í Litlabæ. Safnið er nú opið á laugardögum kl. 13 - 16. og eftir samkomulagi.

Á myndinni má sjá Kristínu Jóhannsdóttur menningarfulltrúa færa Gunnlaugi gamla lærimeistara sínum blómvönd í tilefni dagsins.

Ólíkar ásjónur Ása í Bæ í Safnahúsi Vestmannaeyja

25.02.2014

Á fæðingardegi Ása í Bæ, 27. febrúar, kl. 17,  bjóðum við upp á dagskrá í Einarsstofu þar sem áherslan er lögð á rithöfundinn Ása.

Gunnlaugur Ástgeirsson fjallar um föður sinn, rithöfundinn Ása, og Kári Gunnlaugsson og Ástgeir Ólafsson lesa valda kafla úr bókum afa síns.

Eyvindur Ingi Steinarsson og Molarnir flytja nokkrar af ógleymanlegum perlum Ása.

Á sama tíma opnum við sýninguna Ólíkar ásjónur Ása, þar sem málverk, teikningar og ljósmyndir af honum eru dregnar fram auk allra bóka hans.

Kaffi og konfekt.

Allir hjartanlega velkomnir.

Dagskráin er styrkt af Menningarsjóði Sparisjóðsins.

Baðstofuhorn og biblíur á sýningu aðventista í Höllinni

09.02.2014

Aðventistar minnast þess að nú eru liðin 90 ár frá stofnun safnaðarins í Eyjum. Sett hefur verið upp myndarleg sýning í Höllinni sem opin er kl. 10-22 til 16. febrúar auk þess sem boðið er upp á erindi og tónlist, sjá nánar á b3d.adventistar.is.
Safnahús hefur ásamt fleirum lánað muni til sýningarinnar. Má þar sjá merkar biblíur úr safni Bókasafns og Sagnheimar, byggðasafn á muni í baðstofuhorni.
Hér á myndinni má sjá Hrönn Þórðardóttur sitja í peysufötum Ingu móður sinnar í baðstofuhorninu.

Ný ásýnd Safnahúss Vestmannaeyja

28.01.2014

Allflestir eru sammála um að Safnahúsið okkar er orðið hið glæsilegasta þó að alltaf megi laga og betrumbæta. Nokkuð hefur borið á að gestir og ferðamenn hafi kvartað undan lélegri merkingu hússins og hefur nú verið ráðin veruleg bót á því. Á rúðum norðurhliðar standa nöfn þeirra fimm safna sem þar eru til húsa bæði á íslensku og ensku. Yfir aðaldyrum stendur síðan stórum stöfum Safnahús Vestmannaeyja ásamt skjaldamerki bæjarins. Starfsmenn Safnahúss minna á fjölbreytta starfsemi hússins og bjóða alla hjartanlega velkomna.

Víkin í heimsókn í Safnahúsi Vestmannaeyja

28.01.2014

Líf og fjör var í Safnahúsi Vestmannaeyja í morgun þegar um 60 nemendur ásamt kennurum og leiðbeinendum úr Víkinni komu í heimsókn.  Eftir að hafa skoðað spennandi veröld bókasafnsins var farið í rannsóknarleiðangur í kjallarann. Í Sagnheimum var fræðst um eldgosið á Heimaey, þorrann og ýmislegt forvitnilegt sem gert var í gamla daga.  Áður en þessi flotti hópur kvaddi var kíkt í þjóðhátíðartjaldið og sjóræningjahellirinn kannaður. Takk fyrir heimsóknina - þið voruð frábær!

Undirbúningur nýrra sýninga í Sagnheimum, byggðasafni

21.01.2014

Myndasýning og blaðaúrklippur sem voru á vegg í Pálsstofu og sagði frá Eldeyjarför vaskra Eyjamanna 1971 og 1982 hefur nú verið tekin niður. Sýningin var hluti af dagskrá sem flutt var um safnahelgina í nóvember.
Undirbúningur er hafinn af nýrri sýningu á veggnum sem byggir á dýrgripum úr geymslu í kjallara. Einnig hefur safninu borist ómetanlegir dýrgripir frá Danmörku sem tengjast Vestmannaeyjum og er nú verið að undirbúa til sýningar. Báðar þessar sýningar verða kynntar betur þegar nær dregur.

Danski Pétur skal hann heita!

13.01.2014

Byggðasafnið væri ekki til nema fyrir velvilja bæjarbúa sem eru duglegir að koma með gamla muni til varðveislu og hjálpa þannig til við að viðhalda sögunni. Oft er það einmitt sagan sem fylgir hlutunum sem gæðir þá lífi og gerir jafnvel hluti sem í fyrstu virðast lítils virði að ómetanlegum fjársjóði.
Hér til hliðar má sjá mynd af einni slíkri gjöf, sem barst safninu sl. sumar.  Hér er um að ræða flöskustút af kampavínsflösku sem notuð var við nafnagift Danska Péturs 20. febrúar 1971, sem lengst af var í eigu Emils Andersen og útgerðarfélags hans. Flöskustúturinn er nú til sýnis í glerskáp í afgreiðslu Sagnheima.
Sjá nánar hér að neðan:

Fjölmennt á myrkraverkum Sagnheima

05.01.2014

Um 140 manns aðstoðuðu Grýlu við að finna dótið sitt í Sagnheimum í gær. Börnin mættu með vasaljós enda hafði Leppalúði klippt á rafmagnið og því myrkur á safninu. Talsvert stóð í fólki hvað væri ,,koffort" en allflestir þekktu koppinn sem unga stúlkan á meðfylgjandi mynd fann undir stól í mormónabásnum. Grýla þarf því væntanlega ekki að fara út í öllum veðrum til morgunverka sinna. Takk fyrir komuna krakkar!

Myrkraverk í Sagnheimum, byggðasafni

29.12.2013

Jólaleikur fyrir börn á öllum aldri 4. janúar kl. 13-16
Hjálp! Grýla kom með fullt af dóti sem hún safnaði í mannheimi og faldi á safninu. Leppalúði varð svo reiður að hann klippti á rafmagnið!
KRAKKAR! Getið þið komið með vasaljós og hjálpað Grýlu að finna dótið sitt? Frítt fyrir afa og ömmur í fylgd með börnum!

Endurgerð og skráning kvikmyndaefnis um Vestmannaeyjar

28.12.2013

Vinir Árna Árnasonar símritara í samstarfi við Sagnheima og Kvikmyndasafn Íslands buðu til bíós í dag kl. 13 og nýttu tæplega 60 manns sér boðið.  Um var að ræða myndbúta úr 9 klst. löngu myndefni Átthagafélagsins Heimakletts sem tekin var á árunum 1945-1960 af Sveini Ársælssyni, Friðrik Jessyni og fleirum. Sýningaraðilar stefna á nýju ári á samstarf við Eyjamenn um greiningu á einstaklingum sem koma fram í myndinni, svo skrá megi til framtíðar. Myndefni þetta er ómetanleg heimild um atvinnu- og byggðasögu Vestmannaeyja sem og menningararfinn okkar í heild.

Sagnheimar - uppskrift af jólamatnum

14.12.2013

Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur hélt skemmtilegt hádegiserindi í Sagnheimum sl. fimmtudag. Benti hún m.a. á ýmsar matarholur sem leynast í nágrenni okkar, t.d. hvernig útbúa má girnilegt snakk á auðveldan hátt úr blöðruþangi. Ýmsar fleiri uppskriftir var hún með í pokahorninu, t.d. úr mismunandi gerðum þangs, fjörugrösum, sölvum og skeldýrum.
Uppskriftirnar má nálgast í afgreiðslu Sagnheima.
I lok erindisins kom Guðrún með uppskrift af jólasaltfiskrétti frá Suður - Frakklandi. Hvernig væri að breyta einu sinni til og bjóða upp á einn slíkan?
Uppskriftina má sjá hér að neðan: