Fréttir

Sagnheimar - sumaropnun 1. maí - 30. sept.

01.05.2015

Í dag 1. maí hefst sumaratíminn í Sagnheimum, byggðasafni og verður nú opið daglega kl. 10-17. Við förum rólega af stað en 17. maí fögnum við íslenska safnadeginum með opnun nýrrar sýningar: Eyjakonur í íþróttum í 100 ár. Fleira gerum við skemmtilegt þann dag, allt frekar á kvennavænginn enda erum við rétt að byrja að fagna 100 ára kosningaafmæli kvenna og er ýmislegt fleira á prjónunum fram á haust, bæði í Sagnheimum og í Einarsstofu. Fylgist því vel með tilkynningum úr Safnahúsi!

 

Ljósmyndasýning í Einarsstofu

30.04.2015

Í dag kl. 17 opnar ljósmyndasýning Sísíar Högnadóttur Valkyrjur í Einarsstofu. Á sýningunni má sjá um 200 ljósmyndir af Eyjakonum í leik og starfi. Sýningin er opin alla daga á opnunartímum Safnahúss frá kl. 10-17 til 14. maí.  Allir hjartanlega velkomnir.

Sumardagurinn fyrsti - Dagur bókarinnar

22.04.2015

Líf og fjör verður í Safnahúsinu á sumardaginn fyrsta enda vetur konungur loks að kveðja.

Bæjarlistamaður verður kynntur og hefst sú dagskrá kl. 11.

Málþing verður um sagnaarfinn okkar í Einarsstofu kl. 13-15 með þátttöku Vésteins Ólasonar, Einars Kárasonar og Guðna Ágústssonar. 

Opið verður í Sagnheimum, byggðasafni kl. 13-16. Frítt inn.

Í Einarsstofu er myndlistarsýning Sigurdísar Hörpu Arnarsdóttur: mEyjar og samsýning safna Safnahúss: Úr fórum kvenna í skápum.

Allir hjartanlega velkomnir!

Úr fórum kvenna

21.04.2015

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar og kjörgengis íslenskra kvenna er ný sýning í skápum Einarsstofu Safnahúss: Úr fórum kvenna. Með þessari sýningu, sem er samstarfsverkefni safna Safnahúss, viljum við hvetja fólk til að muna eftir söfnunum - ekki síst þegar dagbækur, skjöl, myndir og munir koma úr fórum kvenna. Munir/skjöl sem ef til vill láta lítið yfir sér við fyrstu sýn geta geymt ómetanlegar heimildir.

Sýningin er opin á opnunartíma Safnahúss. Allir hjartanlega velkomnir!

Safnahús í dymbil- og páskaviku 2015

31.03.2015

í Sagnheimum, byggðasafni verður opið á skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16.  Nú eru síðustu forvöð að sjá íþróttasýningu Þórs en sýningin verður tekin niður eftir páska. Hafinn er undirbúningur að nýrri spennandi íþróttasýningu sem opnuð verður í maí.

Í Einarsstofu er sýning Sigurdísar Arnarsdóttur, opið á skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16 og síðan eftir páska á opnunartímum Safnahúss í aprílmánuði.

Bókasafnið er lokað frá skírdegi til og með annars í páskum. Opnar aftur á þriðjudag eftir páska kl. 10.

Gleðilega páska!

Konur í bókmenntum í 100 ár - 21. mars. kl. 13

17.03.2015

Laugardaginn 21. mars verða nemendur Framhaldsskólans í íslensku með dagskrá um konur í bókmenntum í Sagnheimum, byggðasafni. Bæði verður fjallað um ritverk kvenna á 20. öld og fram á okkar daga og einnig hvernig konur birtast í verkum karla á þessum tíma. Hér er um samstarfsverkefni FÍV og Sagnheima að ræða. Áhugavert er að sjá og heyra hvernig unga fólkið nálgast viðfangsefnið og hvaða aðferðir það notar til að koma efninu á framfæri.  Enginn sem hefur áhuga á bókmenntum eða því sem ungt fólk er að fást við ætti að láta þetta tækifæri framhjá sér fara.  Nemendur flytja verkefnið kl. 13:00 og eru bæjarbúar hvattir til að mæta! 

Allir hjartanlega velkomnir!

Saga og súpa í Sagnheimum, 19. mars kl. 12

16.03.2015

Nóg verður um að vera í Safnahúsi á fimmtudaginn. Auk ljósmyndadags í Ingólfsstofu, kl. 14-16 og opnunar hönnunarsýningar Ásdísar Loftsdóttur kl. 17 í Einarsstofu verður Saga og súpa í hádeginu í Sagnheimum, byggðasafni.

Gestur Sagnheima í þetta sinn er Guðbjörg Matthíasdóttir athafnakona. Guðbjörgu þarf vart að kynna fyrir Eyjamönnum, sem flestir kenna hana við Ísfélagið. Í janúar sl. hlaut hún viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Í fyrirlestri sínum Konur í atvinnulífi, kynnir hún m.a. félagið. 

Fyrirlesturinn hefst stundvíslega kl. 12 með súpu og brauði og lýkur kl. 13.

Allir hjartanlega velkomnir!

Eyjakonur í íþróttum í 100 ár

06.03.2015

Sagnheimar, byggðasafn ásamt Safnahúsi eru með margs konar verkefni í gangi á árinu sem tengist því að nú eru 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Nú rétt í þessu fengum við þær frábæru fréttir að afmælisnefndin hefði veitt Sagnheimum 100.000 kr styrk í verkefnið Eyjakonur í íþróttum í 100 ár! Heimildavinna og undirbúningur sýningarinnar er þegar hafinn en stefnt er að opnun 17. maí. Aldeilis frábærar fréttir. Bestu þakkir fyrir okkur!

Á meðfylgjandi mynd er handboltalið Þórs 1946. Efri röð frá vinstri: Erla Eiríksdóttir Urðavegi, Ásta Hannesdóttir Hæli, Kristbjörg Sigurjónsdóttir Sjávargötu, Kristín Jónsdóttir Vestmannabraut. Neðri röð: Sigríður Sigurðardóttir Skuld, Fríða Björnsdóttir Bólstaðarhlíð, Stella Waagfjörð Garðhúsum.

 

Saga og súpa í Sagnheimum, 12. febrúar kl. 12

09.02.2015

Gestur okkar á næsta súpufundi, fimmtudaginn 12. febrúar kl. 12, er dr. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur. Árni er vel þekktur fyrir rannsóknir sínar og frásagnir af siðum og þjóðtrú okkar Íslendinga. Meðal fjölmargra merkra bóka hans má nefna: Merkisdagar á mannsævinni, Saga daganna, Hræranlegar hátíðir, Þorrablót á Íslandi, Jól á Íslandi,  Gamlar þjóðlífsmyndir, Íslenskt vættatal. Árni gegndi starfi forstöðumanns þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands frá 1969-2002 og hefur fengist við kennslu bæði á Íslandi og erlendis. Í hádegiserindi sínu mun Árni fjalla um siði og þjóðtrú tengda þorranum og mikilvægi þorrablóta fyrr og nú. Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Ur Sagnheimum - dásemd, ekki föl fyrir sex gullstangir!

01.02.2015

Hér má sjá einn af dýrgripum Sagnheima, þennan einstaklega flotta sextant, sem er í sýningu á bryggjusvæðinu. Gripinn fól Berent Th. Sveinsson safninu til varðveislu árið 1991. Samkvæmt greiningu safnvarðar í Handels og Söfartsmuseet í Kaupmannahöfn er hann líklega frá um 1890-1900. Vegna ljósbrotsins í speglunum mæla svona tæki 90 og 120 gráðu horn. Ekki er ólíklegt að sambærilegt tæki hafi verið í Vestmannaeyja-Þór.  Einstaklega fallegur gripur!

Úr kjallara Sagnheima. Hvað er nú þetta?

30.01.2015

Safnstjóri nýtur þeirra forréttinda þessa dagana að grúska í geymslum safnsins. Markmiðið  er að draga upp fleiri muni og bæta á bryggjusvæðið eða skipta út fyrir aðra. Leit þessari fylgja oft mikil hróp og háar stunur, sem aðrir starfsmenn Safnahúss eru löngu hættir að kippa sér upp við. Nú komu upp í hendurnar þessir hlutir, sem hér eru á mynd. Á vélrituðum miða stendur: ,,Færisakka með ljósi.". Þetta er líklega úr kopar, 18 cm langt, 4 cm í þvermál og með fjórum litlum ,,gluggum". Gefandinn, Friðrik Alfreðsson frá Haga, segist hafa fundið þetta á milli þilja á Faxastíg 14, þegar hann vann þar að endurbótum 1986. Endilega hafið samband við safnstjóra, helga@sagnheimar.is, ef að þið vitið hvenær svona var notað og þá við hvers konar veiðar?

 

Bakverðir Safnahúss og Sagnheima

14.01.2015

Í dag var í Pálsstofu Sagnheima stofnaður tíu manna bakvarðahópur Safnahúss og Sagnheima. Hópnum er ætlað að verða Kára Bjarnasyni forstöðumanni Safnahúss og Helgu Hallbergsdóttur safnstjóra Sagnheima til ráðgjafar varðandi menningarviðburði, söfnun menningarverðmæta og rannsóknir á menningararfi Eyjanna í víðasta skilningi.o.fl. 

Hópinn skipa: Arnar Sigurmundsson, sem leiðir hópinn, Hermann Einarsson, Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, Haraldur Gíslason, Haraldur Þ. Gunnarsson, Marta Jónsdóttir, Stefán Óskar Jónasson, Páley Borgþórsdóttir, Ágúst Einarsson og Helgi Bernódusson.

Hér á ferð öflugur hópur áhugamanna sem án efa mun efla starfsemina enn meira.

 

Vilborg og hrafninn - úrslit í myndakeppni

12.01.2015

Georg víkingur kom í Sagnheima 10. janúar og upplýsti gesti hvernig það hefði verið að vera víkingur - fyrr og nú.  Að lokum veitti hann verðlaun í myndasamkeppninni um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal.Tæplega sextíu myndir bárust og var dómnefndinni, Steinunni Einarsdóttur  og Kristínu Garðarsdóttur mikill vandi á höndum. Komust þær að þeirri niðurstöðu að myndirnar væru allar svo flottar að í raun væru allir krakkarnir sigurvegarar. Eftir að safnstjóri var búinn að pína þær aðeins meira, völdu þær úr þrjár myndir sem voru verðlaunaðar sérstaklega.  Hér má sjá vinningshafana með Helgu safnstjóra og Georg víkingi.

Frá vinstri: Arnar Berg Arnarson, Bertha Þorsteinsdóttir og Aron Máni Magnússon.  Verðlaunin voru bókin Víkingarnir, norrænir sæfarar og vígamenn.

Til hamingju krakkar - þið voruð öll frábær!

Myndirnar hanga í stigagangi upp í Sagnheima en verða fljótlega færðar inn á safnið.

 

Þrettándagleði í Safnahúsi Vestmannaeyja

05.01.2015

Þrettándagleði Safnahúss verður haldin laugardaginn 10. janúar.

Dagskrá:

13:00 Einarsstofa. Opnun myndlistarsýningar á verkum Jóhönnu Erlendsdóttur, móður Guðna Hermansen. Barnabörn Jóhönnu fjalla stuttlega um þessa gleymsdu listaperlu Eyjanna.

13:30 Sagnheimar-bryggjan. Georg víkingur veitir verðlaun í myndakeppni Sagnheima um Vilborgu og hrafninn og segir frá lífi víkinga. Þorir þú í sjómann við alvöru víking? Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

14:00 Sagnheimar-bryggjan. Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir kynnir og les upp úr nýrri sögu sinni, Silfurskrínið, fyrir börn á öllum aldri.

Allir hjartanlega velkomnir!

 

Nýársóskir frá Sagnheimum

04.01.2015

Sagnheimar þakka gestum og velunnurum fyrir samveruna á árinu 2014 og óskar þeim velfarnaðar á nýju ári! Síðasta ár var mjög viðburðaríkt í Safnahúsi en alls voru skráðir 45 viðburðir og sýningar. Undirbúningur fyrir árið 2015 er löngu hafinn. Á nýbyrjuðu ári er þess víða minnst að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt hér á landi. Reikna má því með því að verulegur ,,kvenlegur halli"  verði á viðburðum og sýningum Safnahúss á árinu. Viðburðir verða eins og áður auglýstir á heimasíðum og með auglýsingum í Safnahúsi og í Eyjafrétttum.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Safnahúsi á nýju ári!

Páll Steingrímsson - DVD til sölu í Sagnheimum

06.12.2014

Páll Steingrímsson hefur verið mjög afkastamikill í gerð heimildamynda. Myndir hans eru tilvaldar tækifærisgjafir til vina og vandamanna hérlendis og erlendis enda allflestar líka til á ensku. Sagnheimar, byggðasafn selja nú myndir Páls (DVD) og er áhugasömum bent á að hafa samband við safnið: helga@sagnheimar.is eða í síma 698 2412.

Meðal mynda Páls má nefna: Spóinn var að vella, Undur vatnsins, Sofa urtubörn á útskerjum, Hestadans, 5000 óboðnir gestir, Oddaflug, Hátíð (Þjóðhátíð), Handfærasinfónían, Íslenski fjárhundurinn, Litli bróðir í norðri (lundinn), Tvö eyjasamfélög í Norður-Atlandshafi og ginklofinn (Landlyst!), Ísaldarhesturinn..... og svo miklu meira! 

Vilborg og hrafninn - sýning í Safnahúsi Vestmannaeyja

05.12.2014

jæja, nú erum við búin að hengja upp myndirnar sem krakkar í 1.-5. bekk teiknuðu við söguna um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal!  Þrjár myndir fá síðan verðlaun á þrettándanum - 9. janúar.  Myndirnar eru á veggnum við stigann upp í Sagnheima og verða til sýnis á opnunartímum Safnahúss, þ.e.  mánud.-fimmtud. frá kl. 10-18, föstudögum kl. 10-17 og á laugardögum kl. 11-16.  Endilega komið og kíkið á þessar flottu myndir!

Allir hjartanlega velkomnir!

Saga og súpa í Sagnheimum - opnun Kjarvalssýningar í Einarsstofu

25.11.2014

Fimmtudaginn 27. nóvember kl. 12-13 bjóðum við upp á sögu og súpu í Sagnheimum. Að því loknu verður opnuð Kjarvalssýning í Einarsstofu í boði Listasafns Vestmannaeyja.

Dagskrá:

Súpa og brauð.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur fjallar um Vestmannaeyjar sem myndefni og kynnir hugmynd sína um úrvalsbók með listaverkum sem hafa Vestmannaeyjar að viðfangsefni.

Opnun sýningar á Kjarvalsmyndum í Einarsstofu.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Sagnheimar - Vilborg, hrafninn og krakkarnir!

17.11.2014

Við í Sagnheimum viljum minna krakka í 1.-5. bekk grunnskóla á að teikna myndir við söguna um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal og skila inn til okkar í Safnahúsi fyrir næstu helgi (22. nóv.). Myndirnar verða síðan hengdar upp í safninu í desember og verðlaun veitt fyrir þrjár skemmtilegustu myndirnar á þteþrettándanum (9. janúar).

Einarsstofa - Stýrimannaskólinn í 50 ár

14.11.2014

Þess er nú minnst í Einarsstofu að 50 ár eru liðin frá því að Stýrimannaskóli var stofnaður hér í Eyjum. Sýndar eru myndir af nemendum og kennurum skólans en svo margar myndir leyndust í ljósmyndasafninu að skipta varð sýningunni í tvennt. Í dag föstudag er því skipt um myndir og nú bara sýndar myndir frá 1984 og yngri.  Við þessi tímamót skólans hefur Friðrik Ásmundsson fyrrum skólameistari tekið saman skemmtilegt og fróðlegt kver um sögu skólans og þá sem hann sóttu, nemendur og kennara. Kverið heitir: Skipstjórnarnám og Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum og má nálgast það hjá Friðrik sjálfum. Sýningin verður í Einarsstofu til 20. nóvember og er opin á opnunartíma Safnahúss. Kíkið endilega á þessar skemmtilegu sýningu af kempunum!