Fréttir

Sagnheimar: Landið mitt - ljóðið mitt

02.11.2015

Vissir þú að 263 íbúar með lögheimili í Eyjum hafa erlent ríkisfang? Alls koma þeir frá 31 landi, flestir frá Póllandi eða 143, 12 koma frá Portúgal, 11 frá Danmörku, 11 frá Bretlandi og síðan færri frá öðrum löndum.

Laugardaginn 7. nóv. kl. 14 verður dagskrá í Sagnheimum, byggðasafni, sem kallast: Landið mitt - ljóðið mitt.  Þar munu sjö Eyjakonur kynna rætur sínar í erlendri mold og flytja ljóð á móðurmáli sínu.

Eyjakonurnar eru:

Anna Fedorowicz - Pólland

Dagný Pétursdóttir - Thailand

Evelyn Consuelo Bryner - Sviss

Jackie Cardoso - Brasilía

Kateryna Sigmundsson - Úkraína

Sarah Hamilton - England

Tina Merete Henriksen - Danmörk

Dagskráin er hluti af safnahelginni. sjá nánar í auglýsingum.

Allir hjartanlega velkomnir!

100 Eyjakonur í Safnahúsi um safnahelgina 6.-8. nóvember

23.10.2015

Undirbúningur er nú á fullu í öllum söfnum Safnahúss fyrir safnahelgina. Listvinahópur hússins kallar eftir verkum kvenna sem dæmi um margvíslega listsköpun þeirra. Hér gæti verið um að ræða málverk, handavinnu, skartgripi, ljóð, teikningar, ljósmynd eða nánast hvað sem er. Eina skilyrðið er að konan hafi búið í Eyjum á tímabilinu 1915-2015. Nú þegar hafa borist alveg ótrúlega flott og margvísleg verk kvenna í þetta spennandi verkefni - en enn er tími og rúm til að bæta við fleiri listverkum. Eyjamenn sem telja sig lúra á dýrgripum og eru tilbúnir að leyfa fleirum að njóta eru hvattir til að hafa samband sem allra fyrst við Kára eða Perlu í Safnahúsi.

Hér á myndinni til hliðar má sjá sýnishorn af einum dýrgripanna.  Um er að ræða svokallaða klukku sem Margrét Jónsdóttir frá Skuld (1885-1980) prjónaði á Ernu Jóhannesdóttur, barnabarn sitt. Klukkan er einn af kjörgripum Sagnheima, byggðasafns.

Sagnheimar - vetraropnun frá 1. okt.- laugard. kl. 13-16.

10.10.2015

Nú 1. október hefst vetrarstarfið í Sagnheimum. Hugað er að innra starfi safnsins, námskeiðahaldi, skráningu muna og frágangi, dagskrár vetrarins skipulagðar, tekið á móti skólahópum og farið yfir hvað má betur gera. Safnahelgin okkar Vestmannaeyinga verður 7.-8. nóvember og verður þá boðið upp á margvíslega, spennandi dagskrárliði í Safnahúsi, sem betur verður kynnt þegar nær dregur. Saga og súpa verður líka á dagskrá í vetur. Þó að opnunartími safnsins sé nú eingöngu auglýstur á laugardögum kl. 13-16 er safnstjóri að störfum flesta daga vikunnar. Skólahópar og aðrir sem vilja komast á safnið á öðrum tímum eru hvattir til að hafa samband beint í síma 698 2412 eða í netfang helga@sagnheimar.is.

Saga og súpa í Sagnheimum, 10. sept. kl. 12

09.09.2015

Á morgun fimmtudag gefst okkur einstakt tækifæri til að hlusta á Róbert Guðfinnsson athafnamann fjalla um uppbygginguna á Siglufirði og ný atvinnutækifæri:

,,Gamli Síldarbærinn Siglufjörður er að ganga í endurnýjun lífdaga. Frá hruni norsk-íslenska síldarstofnsins árið 1967 hefur íbúum fækkað. Tæknivæðing í sjávarútvegi og einhæft atvinnulíf hefur leitt af sér fækkun starfa og fá tækifæri fyrir ungt menntað fólk. Með nýsköpun í líftækni og fjárfestingu í ferðaiðnaði er að myndast nýr grunnur fyrir samfélagið. Breidd í atvinnulífinu með nýjum störfum gefur nýrri kynslóð tækifæri til að snúa vörn í sókn."

Hver eru sóknarfæri byggðarlaga úti á landi?

Hverjir eru möguleikar einstaklinga til að leggja samfélaginu lið?

Allir hjartanlega velkomnir!

Samstarfsverkefni Rótarýklúbbs Vestmannaeyja, Safnahúss og Sagnheima.

Saga og súpa með Róberti Guðfinnssyni frestað!

09.09.2015

Verðum því miður að fresta þessum áhugaverða fyrirlestri um óákveðinn tíma!

Reynum aftur síðar!

Atorkukonur í Safnahúsinu 6. september kl. 14:30

01.09.2015

Sunnudaginn 6. september minnumst við merkra kvenna í Safnahúsi Vestmannaeyja. Við byrjum uppi í kirkjugarði kl. 13:30 og síðan tekur við dagskrá í Einarsstofu kl. 14:30 Að henni lokinni opnar Kristín Ástgeirsdóttir farandsýningu Kvenréttindafélags Íslands sem hefur verið á hringferð um landið í tilefni 100 ára kosningaréttar íslenskra kvenna. Allir hjartanlega velkomnir, sjá nánar í meðfylgjandi auglýsingu!

Úr fórum kvenna í Einarsstofu Safnahúss

24.08.2015

Í Einarsstofu er nú í skápum sýningin Úr fórum kvenna sem er samstarfsverkefni skjalasafns, ljósmyndasafns og byggðasafns. Með sýningunni vill starfsfólk Safnahúss hvetja fólk til að muna eftir söfnunum ef það veit um gömul bréf, dagbækur og skjöl úr fórum kvenna sem oft geyma ótrúlegar sögur um lífshlaup kvenna sem allt of oft gleymast. Sýningin lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér en þar er þó margt áhugavert að finna. Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Ingibjörgu Ólafsdóttur (1895-1976) í fallega blómagarðinum sínum við Bólstaðarhlíð. Þar er einnig stórmerkileg dagbók hennar þar sem hún lýsir efiðum uppvaxtarárum sínum. Á sýningunni má einig nefna handavinnu og ljósmyndir frá Ragnheiði Jónsdóttur (1905-2006) frá Þrúðvangi, skipunarbréf Önnu Pálsdóttur ljóðsmóður (1910-1984) ásamt nokkrum ógnvekjandi töngum, leyfisbréf Emmu á Heygum (1895-1989) til að starfa sem nuddari ásamt skýrum fyrirmælum um að hún megi aldrei gefa sig út fyrir að stunda lækningar á neinn hátt, handskrifuð uppskriftabók Jónu Friðriksdóttur (1922-1999), skjal þar sem Anna P. Halldórsdóttir (1916-2002) er gerð að heiðursfélaga Slysavarnafélags Íslands ásamt hvítri svuntu með hekluðu milliverki sem hún notaði jafnan við kaffisölur og svo margt fleira áhugavert!  Sýningin verður áfram fram eftir haustinu og er alltaf opin á opnunartíma Safnahúss en myndlistarsýningu Steinunnar Einarsdóttur lýkur 25. ágúst.

Byggðasöfn á Íslandi - Sagnheimar

12.08.2015

Á vegum Rannsóknaseturs í safnafræðum við Háskóla Íslands er komin út bókin Byggðasöfn á Íslandi. Bókin er sýnisbók um starfsemi 14 byggðasafna á Íslandi. Tilgangur útgáfunnar er að vekja athygli á því margbrotna starfi sem söfnin hafa staðið fyrir og hversu brýnt það er að þeirri menningarmiðlun sem þar fer fram sé betri gaumur gefinn. Að sjálfsögðu á merkilegt byggðasafn okkar Vestmannaeyinga, Sagnheimar, sína sögu í bókinni.

Í vikunni kom Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í heimsókn í Sagnheima en safnið okkar er ásamt Sæheimum hér í Eyjum í hópi 44 viðurkenndra safna á Íslandi. Til að fá slíka viðurkenningu safnaráðs þurfa söfn að uppfylla strangar kröfur varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf. Við megum því vera afskaplega stolt af safninu okkar og jafnframt þakklát bæjarbúum sem hafa stutt okkur með margvíslegum hætti í gegnum tíðina!

Hér má sjá lista safnaráðs yfir viðurkennd söfn á Íslandi:

http://www.safnarad.is/vidurkennd/vidurkennd-sofn---listi/

 

 

 

Fisktrönur við Safnahús Vestmannaeyja/Sagnheima

05.08.2015

Fisktrönur við Safnahúsið okkar vekja alltaf nokkra athygli gesta ekki síst erlendra ferðamanna. Langa ehf hefur undanfarin ár lagt til fiskinn og minna okkur þar með á þessa aldagömlu aðferð til að auka geymsluþol fisks eða skreiðar. Trönurnar eru hluti af sýningarsvæði Sagnheima, byggðasafns.

Skreið er þurrkaður afhausaður fiskur, oftast þorskur eða ufsi. Skreiðin var lengst af útiþurrkuð, tveir fiskar spyrtir saman og hengdir upp í sérstökum fiskhjöllum eða á þar til gerðar sperrur, fisktrönur, og sól og vindur látin um þurrkunina.

Skreið hefur verið verslunarvara í Evrópu í meira en þúsund ár og var ásamt lýsi og vaðmáli ein helsta útflutningsvara Íslendinga öldum saman. Á miðöldum hækkaði skreið mikið í verði á erlendum mörkuðum og reið þá mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Rakt sjávarloftið reyndist oft erfitt og hertu Eyjamenn því gjarna fiskinn á syllum í móbergshömrum í svokölluðum fiskbirgjum. Dæmi um slík fiskbirgi má sjá í berginu í Fiskhellum á leiðinni inn í Herjólfsdal og komu þau m.a. við sögu í Tyrkjaráninu 1627.

Allt fram undir 1900 var skreiðin talin ómissandi fæða, næringarmikil, saðsöm, þurfti litla matreiðslu og geymdist vel. Hertur fiskurinn var borinn fram með súru smjöri sem þótti drýgra en ósúrt og jafnvel bleyttur í sýru, svo að hann yrði mýkri undir tönn.

Í dag má segja að Íslendingar neyti aðeins einnar tegundar þessarar hertu og þurrkuðu afurða, þ.e. harðfisks. Nær öll vinnsla og þurrkun fer nú fram með vélbúnaði innandyra. Helstu markaðir fyrir skreið og þurrkaða hausa eru í Nígeríu.

Júlíana Sveinsdóttir í Sagnheimum og á Kjarvalsstöðum

30.07.2015

19. júní sl. var opnuð sýningin Tvær sterkar í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Um er að ræða sýningu á verkum tveggja kvenna Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966) og hinnar færeysku Ruthar Smith (1913-1958). Báðar ólust þær upp á vindbörðum og saltstorknum klettaeyjum í Norður-Atlantshafi og voru meðal fyrstu kvennanna sem gerðu myndlist að ævistarfi. Skemmtilegt er að sjá hvernig heimahagar þeirra koma fram í verkunum ásamt gagnrýnum sjálfsmyndum og sterkum myndum af samferðafólki. Listasafn Vestmannaeyja lánaði eitt af verkum Júlíönu úr safni sínu og Sagnheimar, byggðasafn lánaði málaraspjald og pensla Júlíönu. Á sýningunni er einnig nokkur veflistaverk Júlíönu. Í Sagnheimum eru nokkrir munir tengdir Júlíönu, m.a. bernskuskór hennar, vefstóll hennar, málverk og forkunnarfagur skautbúningur sem hún saumaði fyrir mágkonu sína Laufeyju Sigurðardóttur árið 1930.

Sýningin á Kjarvalsstöðum er norræn farandsýning höfuðborganna þriggja, Reykjavíkur, Tórshavnar og Kaupmannahafnar og leggur því land undir fót í lok ágústmánaðar. Vestmannaeyingar og aðrir áhugamenn um myndlist mega alls ekki láta þessa sýningu fram hjá sér fara!

Sagnheimar/safnahús - opnunartímar um þjóðhátíð 2015

29.07.2015

Breytingar eru á opnunartímum Sagnheima og Safnahúss um þjóðhátíð, 31.júlí - 3. ágúst.

Opið verður á föstudag og mánudag kl. 10-17

Lokað á laugardag og sunnudag.

Myndlistarsýning Steinunnar Einarsdóttur í Einarsstofu er opin föstudag og mánudag kl. 13-17 og síðan daglega á opnunartímum Safnahúss.

Bókasafnið vrður lokað frá föstudegi til mánudags.

Gleðilega þjóðhátíð!

Tyrkjaránið 1627: Píslarvætti í Rauðhelli og upprisa í Krosskirkju

12.07.2015

Í júlímánuði minnumst við þess að 388 ár eru frá Tyrkjaráninu. Um goslok var eftirminnilegur flutningur Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar og leikkonu á Örlagasögu Hallgríms og Guðríðar á bryggjusvæði safnsins og komust færri að en vildu. Nú bjóðum við upp á spennandi dagskrá í hádeginu fimmtudaginn 16. júlí kl. 12-13 og er það hluti af fyrirlestraröðinni Saga og súpa í Sagnheimum.

Gestur okkar að þessu sinni er dr. Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur en doktorsritgerð hans: Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins kom út á síðasta ári. Í hádegiserindi sínu ætlar Þorsteinn einkum að beina augum sínum að séra Jóni Þorsteinssyni presti að Kirkjubæ og fjölskyldu hans, ekki síst ævintýralegu lífshlaupi sonar sr. Jóns, er kallaði sig Jón Vestmann. Einnig mun Þorsteinn rekja kenningar sínar um myndmál altaristöflunnar á Krossi í Landeyjum, sem allir Vestmannaeyingar ættu að skoða á ferð sinni um Suðurland.

Að venju er boðið upp á súpu á undan erindinu.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af SASS.

Fréttinni fylgir ein af teikningum Jakobs S. Erlingssonar á sýningarsvæði Sagnheima, byggðasafns um Tyrkjaránið. Hér má sjá víg sr. Jóns Þorsteinssonar víð Rauðhelli.

 

Steinunn, Guðríður og sr. Hallgrímur á goslokum í Sagnheimum

28.06.2015

Laugardaginn 4. júlí kl. 15:30 gefst okkur einstakt og spennandi tækifæri til að sjá sýningu Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar og leikkonu á Örlagasögu Hallgríms og Guðríðar á heimaslóðum Guðríðar hér í Eyjum. Sýningin sem er eintal höfundar hóf göngu sína á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi 2. apríl sl. og var sýnd þar fram í sumarbyrjun.  Sýningin verður á bryggjusvæði Sagnheima og er í boði Ísfélags Vestmannaeyja hf.  Aðeins er um þessa einu sýningu að ræða og eru allir hjartanlega velkomnir á meðan sæti leyfa.

Verkefnið Saga og súpa fær styrk frá SASS

27.06.2015

Verkefnið Saga og súpa í Sagnheimum hefur notið mikilla vinsælda sl. ár og verið vel sótt. Boðið er upp á súpudisk og brauð í hádeginu 5-6 sinnum á ári og fengnir fyrirlesarar um hin margvíslegustu efni, sem þó tengjast öll Eyjunum eða sögu þeirra á e-n máta. Með 200 þús. króna styrk Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga nú getum við haldið verkefninu áfram og gleðjumst við mjög yfir því.  Bestu þakkir fyrir okkur!

Næsta Saga og súpa hefur þegar verið skipulögð, þ.e. fimmtudaginn 16. júlí kl. 12. Þá mun dr. Þorsteinn Helgason sagnfræðingur einkum beina sjónum sínum að vígi sr. Jóns Þorsteinssonar og afdrifum sonar hans, Jóns Vestmanns en þá eru einmitt liðin 388 ár frá Tyrkjaráninu. Nánar verður sagt frá þessu þegar nær dregur bæði hér á heimasíðu og í Eyjafréttum.

Sigríður Lára fjallkona Vestmannaeyja 2015

17.06.2015

Sigríður Lára Garðarsdóttir var fjallkona Eyjamanna í ár. Hátíðarávarp sitt ,,Íslendingaljóð 1944" eftir Jóhannes úr Kötlum flutti hún bæði í Hraunbúðum og íþróttahúsinu - en hátíðahöldin voru flutt inn vegna vætu. Hér má sjá fjallkonuna með skátunum sem mynduðu heiðursvörð og nokkrar fleiri myndir frá í dag.

19. júní í Vestmannaeyjum - þær þráðinn spunnu

15.06.2015

Vestmannaeyingar fagna 100 ára kosningarétti kvenna 19. júní á margvíslegan hátt. Kl. 12 verður hátíðarfundur bæjarstjórnar og jafnframt sá 1500 í Landlyst. Kl. 16:30 hefst síðan jafnréttisganga frá Vigtartorgi upp í Safnahús. Í göngunni stiklar Jóhanna Ýr Jónsdóttir sagnfræðingur á stærstu áfangasigrum kvenréttindabaráttunar og eru þátttakendur í göngunni hvattir til að mæta í bleikum lit. Kl. 17 hefst síðan dagskrá í Sagnheimum, byggðasafni. Gunnhildur Hrólfsdóttir sagnfræðingur og rithöfundur flytur erindið: Þær þráðinn spunnu. Bók hennar um líf og störf kvenna í Eyjum á síðustu öld er að koma út um þessar mundir. Á safninu er hægt að skrá sig á lista og fá bókina þannig á sérstöku kynningarverði. Að þessu tilefni verður opnuð ný sýning í Sagnheimum, sembyggir á bók hennar og er samstarfsverkefni Gunnhildar og Sagnheima, byggðasafns. Á meðal annarra merkra sýninga Sagnheima er þar sýning sem opnuð var í maí: Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár og sérstök kvennastofa.   Í Einarsstofu er myndlistasýning Bjarteyjar Gylfadóttur og þar er einnig á vegum safna Safnahúss sýningin Úr fórum kvenna. Boðið er upp á hátíðarköku í tilefni dagsins Gestir eru hvattir til að skoða sýningar Safnahúss á þessum merka degi. Allir hjartanlega velkomnir.

Sagnheimar - 17. júní 2015

13.06.2015

Sú hefð að fjallkona flytji landsmönnum hátíðarljóð á 17. júní hefur tíðkast hér á landi frá árinu 1947. Að vanda mun fulltrúi Sagnheima, byggðasafns sjá um að skrýða fjallkonu okkar Eyjamanna. Fjallkona okkar í ár er Sigríður Lára Garðarsdóttir og flytur hún ávarp sitt í Hraunbúðum kl. 10:30 og á Stakkagerðistúni kl. 14.

Hér til hliðar má sjá fjallkonu Eyjamanna 2014, Sóleyju Guðmundsdóttur, ásamt foreldrum sínum, Guðmundi Gíslasyni og Guðnýju Jensdóttur. Myndin var tekin 17. júní 2014 á bryggjusvæði Sagnheima.

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 2015

05.06.2015

Óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn!

Minnum á sýningar Sagnheima, byggðasafns, einnig er í Einarsstofu sýningin ,,Úr fórum kvenna" og myndlistarsýning Jóníar Hjörleifsdóttur.

Opið laugardag og sunnudag kl. 10-17. Allir hjartanlega velkomnir!

Saga og súpa í boði Rótarý á fimmtudaginn 28. maí í Sagnheimum

26.05.2015

Rótarýklúbbur Vestmannaeyja fagnar 60 ára afmæli sínu 26. maí. Af því tilefni verður þann dag kl. 17 opnuð sýning í Einarsstofu á vegum klúbbsins. Einnig verður boðið upp á hádegiserindi í Sagnheimum fimmtudaginn 28. maí kl. 12.  Þar mun Margrét Arnardóttir hjá Landsvirkjun flytja erindi um vindmyllur og nýtingu vindorku.  Allir hjartanlega velkomnir.

Íslenski safnadagurinn í Sagnheimum, byggðasafni

12.05.2015

Sagnheimar, byggðasafn taka þátt í Íslenska safnadeginum 17. maí með því að opna nýja sýningu kl. 14: Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár.

Frítt er inn á safnið í tilefni dagsins! Allir hjartanlega velkomnir!