Fréttir

Forsetarnir í Einarsstofu

12.06.2016

Í Einarsstofu eru nú myndir af öllum forsetum íslenska lýðveldisins ásamt Jóni Sigurðssyni, sem var í forystu Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni. Afmælisdagur hans, 17. júní, er stofndagur íslenska lýðveldisins. Við hverja mynd eru fróðleiksmolar sem tengjast viðkomandi forseta. Á þeirri síðustu eru bara Bessastaðir, þar sem íslenska þjóðin gengur til forsetakosninga 25. júní nk. og enginn veit enn hver verður 6. forseti lýðveldisins. Alls hafa um 30 manns boðið sig fram til forseta frá stofnun lýðveldisins, þar af níu nú fyrir þessar kosningar. Í skápum eru einnig bækur sem tengjast forsetunum og embættinu. Einarsstofa er opin alla daga kl. 10-17 og því alveg tilvalið að koma við og hita upp fyrir næstu kosningar, 25. júní.

Til hamingju með daginn sjómenn!

05.06.2016

Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingu með daginn! 

Í tilefni dagsins er ókeypis inn á Sagnheima, byggðasafn., kl. 10-17.

Í Einarsstofu er afmælissýning Gylfa Ægissonar sem lýkur í dag. Gylfi ætlar að ljúka sýningunni með léttum tónleikum á sýningarstað.

Allir hjartanlega velkomnir!

Myndin sem fylgir hér með er eftir Þorvald Skúlason.

Safnadagurinn, 18. maí 2016

13.05.2016

Í ár verður íslenski safnadagurinn haldinn á sama degi og sá alþjóðlegi, þ.e. 18. maí næstkomandi. Markmiðið með deginum er að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og vekja athygli á málefnum safna innan samfélagsins. Þátttakendur í safnadeginum á alþjóðavísu er um 35.000 söfn í 140 löndum. Yfirskrift safnadagsins nú er Söfn og menningarlandslag og eru söfn hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga að því menningarlandslagi sem alls staðar blasir við þeim sem hafa opin augu og huga.

Sagnheimar, byggðasafn mun bjóða upp á Sögu og súpu kl. 12 í tilefni dagsins.  Þar mun Perla Kristinsdóttir listfræðingur fjalla um margbreytilegt menningarlandslag húðflúrs hér á landi og skoða þróun þess með mynddæmum. Erindi sitt kallar Perla: Húðflúrlist á Íslandi. Upphaf, þróun og áhrif og verður betur auglýst næstu daga. Frítt verður í Sagnheima, byggðasafn í tilefni safnadagsins.

Endilega hafið augun opin á ferðum ykkar hér heima eða erlendis í kringum 18. maí og athugið hvað söfnin eru að bjóða upp á. Getum lofað ykkar að þar er margt afar áhugavert í boði og reyndar allan ársins hring. Verið hjartanlega velkomin!

Sumarið er komið í Sagnheimum, byggðasafni!

01.05.2016

Í dag, 1. maí hefst sumaropnun í Sagnheimum, byggðasafni. Opið verður daglega frá kl. 10-17 til 30. september, nema um Þjóðhátíð, sem auglýst verður sérstaklega. Allir hjartanlega velkomnir!

Sumardagurinn fyrsti - 21. apríl 2016 - Safnahús Vestmannaeyja

19.04.2016

Að vanda verður heilmikið um að vera í Safnahúsi Vestmannaeyja á sumardaginn fyrsta.

Einarsstofa kl. 11:

Lúðrasveitin leikur vel valin lög.

Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar, þau Aðalheiður Svanhvít Magnúsdóttir, Hólnfríður Arna Steinsdóttir og Arnar Gauti Egilsson lesa úr Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson.

Goslokalag 2016 frumflutt, en lag og texti er eftir Sigurmund G. Einarsson.

Tilkynnt um val bæjarlistamanns Vestmannaeyja 2016.

Opið verður í Sagnheimum frá kl. 13-16, frítt verður inn í boði Vestmannaeyjabæjar.

Vestmannaeyjabær og Safnahús óskar bæjarbúum gleðilegs sumars!

Saga og súpa í Sagnheimum 7. apríl kl. 12

05.04.2016

Róbert Guðfinnsson athafnamaður verður í sögu og súpu í Sagnheimum  fimmtudaginn 7. apríl kl. 12.  Erindi sitt kallar hann ,,Úr síldarbæ í nýsköpun". Þar mun Róbert fjalla um uppbygginguna á Siglufirði og þau nýju atvinnutækifæri sem þar hafa skapast ekki síst fyrir ungt, menntað fólk. Leitað verður svara við spurningum eins og:

Hver eru sóknarfæri byggðarlaga úti á landi?

Hverjir eru möguleikar einstaklinga til að leggja samfélaginu lið?

Verkefnið er styrkt af Rótarýklúbbi Vestmannaeyja sem fagnaði 60 ára afmæli klúbbsins á síðasta ári.

Allir hjartanlega velkomnir!

 

Safnahús í dymbil- og páskaviku 2016

22.03.2016

Opið verður í Sagnheimum, byggðasafni á skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16. 

Í Einarsstofu er ljósmyndasýning Stefáns Hauks Jóhannessonar Úkraína: Átök og andstæður opin á sama tíma og safnið.

Bókasafnið er lokað frá skírdegi til og með mánudags 2. í páskum.

Gleðilega páska!

 

Gígja Óskarsdóttir - nýr starfsmaður Sagnheima og Sæheima.

16.03.2016

Í byrjun mars fengum við góða viðbót í Safnahúsið, Gígju Óskarsdóttur. Gígja mun fyrst um sinn halda sig í geymslum Sagnheima og vinna að skráningu safnmuna í Sarp. Í maí taka síðan við afleysingar hjá Gígju bæði í Sagnheimum og í Sæheimum. Bjóðum við hana hjartanlega velkomna til starfa!

Á meðfylgjandi mynd má sjá Gígju að störfum í kjallaranum Hún heldur hér á einum af fyrstu gjaldmælunum sem settur var í bíla hér. Örn á Brekku færði safninu mælinn til varðveislu árið 1987 - einn af mörgum gripum, sem hann hefur fært safninu.

Björgvinsbeltið í Sagnheimum

09.03.2016

Í febrúar kom Björgvin Sigurjónsson (Kúti á Háeyri) skipstjóri  með nokkur Björgvinsbelti á mismunandi þróunarstigum ásamt heimildum og teikningum og færði Sagnheimum, byggðasafni til varðveislu. Björgvinsbeltið, sem er hugarsmíði Björgvins, er eitt af þeim tækjum sem hafa auðveldað mjög að ná mönnum aftur um borð sem farið hafa útbyrðis. Beltið er létt og hægt að kasta því mun lengra en venjulegum bjarghring og auðvelt er að hífa mann upp úr sjónum hvort sem hann er einn eða björgunarmaður með. Beltið er nú í allflestum íslenskum skipum og einnig víða við hafnir.  Á myndinni má sjá Björgvin á bryggjusvæði safnsins er þar verður nýjustu útgáfu beltisins komið fyrir ásamt upplýsingum um það. Bestu þakkir að hugsa til Sagnheima, byggðasafn! 

Saga og súpa í Sagnheimum 3. mars kl. 12

01.03.2016

Nú á fimmtudaginn, 3. mars, kl. 12 mun Eyjapeyinn Kristinn R. Ólafsson segja í máli og myndum frá frækilegri för hans og fjögurra félaga umhverfis Ísland sumarið 1972 á gúmmítuðrum. Erindið er hluti af fyrirlestrarröð Sagnheima, sem við köllum Sögu og súpu og er styrkt af SASS.  Allir hjartanlega velkomnir!

Á myndinni má sjá ferðafélagana, frá vinstri: Torfi Haraldsson, Guðjón Jónsson, Óli Kristinn Tryggvason, Marinó Sigursteinsson og Kristinn R. Ólafsson

Viðburðir í Sagnheimum og Safnahúsi árið 2015

23.02.2016

Um áttatíu manns komu í Sagnheima og hlustuðu á Margréti Láru Viðarsdóttur á konudaginn, 21. febrúar. Fyrirlesturinn var liður í fyrirlestrarröðinni Saga og súpa í Sagnheimum. Hér má sjá lista yfir viðburði Sagnheima og Safnahúss árið 2015, alls 37 - og eru þá ekki taldir með ljósmyndadagarnir sem eru vikulega í Ingólfsstofu á veturna og heimsóknirnar í Hraunbúðir.

Sjá nánar hér: 

http://sagnheimar.is/is/page/vidburdir

 

 

Margrét Lára í Sögu og súpu í Sagnheimum

12.02.2016

Sunnudaginn 21. febrúar kl. 12 verður boðið upp á Sögu og súpu í Sagnheimum, byggðasafni.

Margrét  Lára Viðarsdóttir, landsliðskona flytur erindið:

,,Við erum það sem við hugsum.“

Hvaða hugarfar þarf til að ná markmiðum sínum og verða afreksíþróttamaður eða ná langt á öðrum sviðum mannlífsins?

Margrét Lára kynnir einnig helstu niðurstöður  rannsókna sinna um kvíða og þunglyndiseinkenni hjá íslenskum atvinnumönnum í boltaíþróttum.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af SASS, samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.

Vekjum einnig athygli á að nú fara að verða síðustu forvöð að sjá sýninguna: ,,Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár" í Sagnheimum!

 

 

Sagnheimar og menningararfurinn

09.02.2016

Sagnheimar fengu góða heimsókn frá Þjóðminjasafninu í síðustu viku. Þar var á ferð Nathalie Jacqueminet forvörður sem fór yfir húsnæði Sagnheima, ekki síst geymslumálin. Nú er verið að útbúa nýja geymslu á loftinu í Miðstöðinni. Gera þarf verkáætlun, mæla hita- og rakastig, ljósmagn, athuga brunaboða, reikna út og skipuleggja hillumál áður en hægt verður að fara í að raða mununum upp á skipulagðan hátt, mynda og skrá. Leynast ef til vill nýir möguleikar á loftinu? Á sama tíma eru Sagnheimar að gera átak í að skrá muni safnsins í Sarp, rafrænan gagnagrunn safna og verður spennandi að geta sýnt muni safnsins líka á þeim vettvangi. Ómetanlegt er að hafa aðgang að sérfræðingum eins og Nathalie, sem gerir alla vinnu markvissari og fumlausari.

Hér á myndinni má sjá Nathalie frá Þjóðminjasafninu og Georg Skæringsson frá Þekkingarsetrinu á vettvangi.

Sagnheimar - hvað er framundan?

05.02.2016

Þó að allt virðist vera með rólegra móti í Sagnheimum nú eftir jólin, þá kraumar safnastarfið samt á fullu. Tekið er á móti skólahópum, vina- og vinnustaðahópum og margvíslegir viðburðir og málþing skipulögð. Næstu tveir sögu- og súpufundir hafa nú verið fastsettir. Margrét Lára Viðarsdóttir landsliðskona verður með erindið ,,Við erum það sem við hugsum", sunnudaginn 21. febrúar og Kristinn R. Ólafsson stefnir með sitt hádegiserindi á fimmtudaginn 3. mars. Mikið tilhlökkunarefni er að fá báða þessa fyrirlesara, sem verða betur auglýstir þegar nær dregur. Minnum einnig á að hópar geta alltaf haft samband við safnstjóra um opnun safnsins utan auglýsts vetrartíma. Verið hjartanlega velkomin!

 

Sagnheimar aðilar að Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni

01.02.2016

Sagnheimar eru aðilar að Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni safna, ásamt um 50 öðrum söfnum. Söfnin skrá muni sína í sameiginlegan gagnagrunn, oft með mynd og ítarupplýsingum. Upplýsingarnar eru síðan öllum opnar á vefslóðinni www.sarpur.is. Sagnheimar eru nú í skráningarátaki inn á vefinn og er tilhlökkunaefni að geta sýnt muni safnsins á þessum vettvangi. Meðfylgjandi mynd var tekin af þátttakendum og leiðbeinendum á skráningarnámskeiði Landskerfis nú í janúar.

Safnahúsið 23. janúar 2016

21.01.2016

Á laugardaginn eru liðin 43ár frá upphafi Heimaeyjargossins.

Af því tilefni kynnir Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri kl. 13 í Sagnheimum, byggðasafni viðbragðs- og rýmingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar vegna eldgoss og annarra hamfara. Kl. 14 opnar síðan afmælissýning Ásmundar Friðrikssonar í Einarsstofu.

Allir hjartanlega velkomnir

Ljósm.: Ólafur Guðmundsson

Ratleikur jólakattararins 9. jan. í Sagnheimum, kl. 13-16

04.01.2016

Nú er Jólakötturinn í vondum málum! Grýla frétti að hann væri hálftrúlofaður læðu á Brimhólabrautinni og henti honum út. Getið þið hjálpað aumingja kisa að finna hluti í Sagnheimum til að búa sér nýtt heimili?

Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

Sagnheimar, byggðasafn opnunartími um jóladagana

23.12.2015

Sagnheimar, byggðasafn verður opið 28.-30. desember kl. 13-16 og síðan 2. janúar kl. 13-16.

Frést hefur að jólakötturinn hafi sótt um pólitísk hæli í Kattholti en verið hafnað! Nánari fréttir af kisa á þrettándanum!

Gleðileg jól!

Íslenskir mormónar í Sagnheimum, Utah og Spanish Fork

23.11.2015

Nú á sunnudag sýndi RÚV fyrsta hluta af þremur af myndinni Paradísarheimt sem gerð er eftir samnefndri bók Halldórs Kiljans.  Sagan byggir á ferðasögu Eiríks frá Brúnum sem hélt til Utah til að kynnast mormónum.  Í Sagnheimum er sögð saga þeirra 400 Íslendinga sem tóku mormónatrú og héldu vestur um haf og var sýningin uppfærð árið 2013.  12. sept. sl. var þess minnst í Spanish Fork að liðin voru 160 ár  frá því Eyjamenn námu þar land. Blásið var til mikillar veislu sem Eyjamenn og fleiri Íslendingar sóttu. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá brot af viðtölum við nokkra Eyjamenn sem sóttu hátíðina.  

https://www.youtube.com/watch?v=mAJQ87qn7-4&feature=youtu.be

Safnahelgin í Vestmannaeyjum, 5.-8. nóvember 2015

03.11.2015

Nú er dagskrá safnahelgarinnar okkar að mestu komin á hreint. Allur bærinn verður hreint og beint undirlagður í skemmtilegheitum frá fimmtudegi og fram á sunnudag og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hér má sjá dagskrána í heild sinni:

http://vestmannaeyjar.is/is/read/2015/11/03/safnahelgin-2015

Góða skemmtun!