Fréttir

Jólaratleikur í Sagnheimum 7. janúar 2017, kl. 13-16.

03.01.2017

Við byrjum nýtt ár á því að hjálpa Grýlu með óþekktarormana sína, jólasveinana. Þeir fengu að gista á safninu okkar í vonda veðrinu og dreifðu eigum sínum hreint um allt. Þegar Grýla og Leppalúði ræstu þá til að halda aftur til fjalla, hentust þeir af stað og gleymdu náttúrlega helmingnum! Getið þið komið krakkar og hjálpað okkur að finna dótið þeirra, svo að þeir geti nú tekið allt með sér?

Opið laugardaginn 7. janúar kl. 13-16. Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum!

Jólakveðja úr Sagnheimum

22.12.2016

Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Þökkum skemmtilegar samverustundir á árinu og horfum spennt til nýrra verkefna á næsta ári!

Sagnheimar,  byggðasafn verður opið 28.-30. desember kl. 11-15 og síðan á þrettándanum 7. janúar, nánar auglýst síðar.

Sagnheimar, byggðasafn

Myndin er úr Listasafni Vestmannaeyja og er eftir Gísla Þorsteinsson (1906-1987).

Jólasveinarnir koma til byggða!

12.12.2016

Jólasveinarnir í búningi Bryndísar Gunnarsdóttur birtast nú daglega fram að jólum á fésbókarsíðu Sagnheima: https://www.facebook.com/sagnheimar/

Þá má líka sjá í Einarssstofu Safnahúss ásamt ýmsu öðru sem minnir á jólin. Allir velkomnir í Safnahús Vestmannaeyja!

Safnahús. Gömlu jólasveinarnir í nýjum fötum

05.12.2016

Nú er jólaundirbúningur á fullu í Safnahúsinu okkar. Jólabækurnar streyma inn á bókasafnið og starfsmenn geta ekki hamið sig í jólaföndrinu.Í Einarsstofu er nú einstök sýning á gömlu jólasveinunum. Árið 1998 efndi Þjóðminjasafnið til samkeppni um hönnun á fatnaði á sveinana sem gæti endurspeglað þann fatnað sem þeir klæddust áður en þeir sáu Kók auglýsingarnar og fóru að klæðast rauðu. Í Einarsstofu má nú sjá vinningstillöguna sem gerð var af Bryndísi Gunnarsdóttur. Búningar voru síðan saumaðir eftir þessari tillögu og klæðast jólasveinarnir þeim þegar þeir heimsækja Þjóðminjasafnið, svona alveg spari. Á þessari sýningu mynda jólasveinarnir nokkurs konar jólasveinadagatal og mun hver og einn vera kynntur sérstaklega þegar þeir koma til byggða.  Sýninguna lánaði Bryndís Sagnheimum og þökkum við henni kærlega fyrir!

Sagnheimar - munir í geymslu

16.11.2016

Heilmikið átak hefur verið gert í skráningu safngripa Sagnheima á þessu ári. Safnaráð veitti styrk til verkefnisins og hefur Gígja Óskarsdóttir þjóðfræðingur dvalið langdvölum í geymslum safnsins. Í síðustu viku vannst svo enn eitt skref í baráttunni um betra líf gripa Sagnheima þegar nýtt geymsluhúsnæði var gert klárt og hluta af "stórgripum" safnsins komið fyrir í merktum hillum. Oft heyrðust fagnaðarhróp þegar kynni voru endurnýjuð við gamla gripi sem ekki höfðu verið handleiknir alllengi. Stórt skref stigið - en heilmikið eftir óunnið enn. Á meðfylgjandi mynd má sjá fyrsta vatnsklósettkassann sem settur var upp í Breiðabliki á heimili Gísla J. Johnsens.

Páll Steingrímsson kvikmyndatökumaður látinn

12.11.2016

Látinn er Páll Steingrímsson, kvikmyndatökumaður, listamaður, kennari og lífskúnstner. Minningin um Pál lifir áfram í þeim fjölmörgu myndum sem hann hefur gert og í hugum þeirra sem honum kynntust. Takk fyrir allt kæri vinur!

Meðfylgjandi mynd var tekinn í Sagnheimum 25. júlí sl. er Pál forsýndi nýjastu mynd sína Frá Heimaey á heimsenda á 86. afmælisdegi sínum.

Safnahelgin í Vestmannaeyjum, 3.-6. nóvember 2016

02.11.2016

Við þjófstörtum safnahelginni hér í Safnahúsi strax á fimmtudag, en þann dag eru tveir atburðir í safnahúsi.

Hér má sjá alla dagskrá helgarinnar:

http://safnahus.vestmannaeyjar.is

Allir velkomnir!

Illugi Jökulsson í sögu og súpu, sunnudaginn 6. nóvember 2016, kl. 12

28.10.2016

Að vanda verða margir áhugaverðir dagskrárliðir í Eyjum um safnahelgina okkar, 3.-6. nóvember, og mun dagskráin koma inn á hina ýmsu vefmiðla næstu daga.

Á sunnudeginum, 6. nóvember, kl. 12, verður saga og súpa í Sagnheimum. Þá mun Illugi Jökulsson fjalla um vísindamanninn Jean-Babtist Charcot og síðustu sjóferð franska rannsóknarskipsins Pourquoi-pas? sem fórst við Álftanes á Mýrum árið 1936. Í slysinu fórust 39 manns en einn maður lifði af eftir frækilega björgun Íslendings.

Charcot (1867-1936) var í hópi þeirra sem fyrst könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimskautin í byrjun síðustu aldar en meðal annara má nefna Amundsen, Scott, Nordenskjöld og Peary. Pourquoi-Pas? (af hverju ekki?) var sérútbúið rannsóknarskip með þremur rannsóknarstofum og bókasafni. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísindarannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag. Charcot og menn hans komu oft við hér á landi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir og eignaðist fjölmarga vini hér á landi.

Samskipti Eyjamanna við franska sjómenn voru allnokkur fyrr á öldum. Fjölmörg fiskiskip frá norðurhluta Frakklands sigldu á Íslandsmið í lok 19. aldar en flest voru þau talin hafa verið 80 talsins árið 1895. Í byrjun 20. aldar voru reist þrjú sjúkrahús á landinu fyrir þessa sjómenn, í Reykjavík, á Fáskrúðsfirði og í Vestmannaeyjum (Gamló, Kirkjuvegi 20) árið 1905.

Í ritsafni Árna Árnasonar símritara er sagt frá Fransmannaleik sem barst hingað til Eyja í upphafi 20. aldar með sjómönnum á franska spítalanum og varð mjög vinsæll. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1969 er einnig sagt frá því að hið alþjóðlega slagorð sjómanna á milli ,,ship-o hoj" megi jafnvel rekja til franskra sjómanna á miðöldum. Má því e.t.v. með góðum vilja segja að í texta Lofts Guðmundssonar, Sjómannslíf, gæti franskra áhrifa: 

Ship-o-hoj - ship-o-hoj,

ferðbúið liggur fley,

ship-o-hoj - ship-o-hoj

boðanna bíð ég ei.

 

Sagnheimar - dagskrá um Eyjahjartað frestað!

07.10.2016

Því miður þarf að fresta áður auglýstri dagskrá sem vera átti nú á sunnudag um Eyjahjartað um óákveðinn tíma. 

Eyjahjartað í Sagnheimum, sunnudaginn 9. október, kl. 14-16.

06.10.2016

Á sunnudaginn kemur, hinn 9. október, bjóðum við til úrvalsdagskrár með 3 landsþekktum einstaklingum sem munu rifja upp tíma sinn í Eyjum.

Guðmundur Andri Thorsson: Núll í Tombólukassa. Minningar sumarstráks.

Egill Helgason: Á vörubílspallinum hjá Stebba Ungverja.

Bubbi Morthens: Hreistur.

Einar Gylfi Jónsson: Lokaorð fyrir hönd undirbúningsnefndar.

Dagskráin verður haldin í Sagnheimum, byggðasafni, á annarri hæð Safnahúss, kl. 14-16.

Allir hjartanlega velkomnir.

Vitafélagið-íslensk strandmenning í Sagnheimum, sunnud. 2. október kl. 13:30

22.09.2016

Vitafélagið- íslensk strandmenning og Sagnheimar, byggðasafn:

- Strandmenning, auður og ógnir -

Sunnudaginn 2. október kl. 13:30:

Auður við íslenska strönd. Kristján Sveinsson sagnfræðingur kynnir starf Vitafélagsins-íslenskrar strandmenningar.

Nordisk kunstkultur og nýsköpun í vitum: Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins segir frá samstarfi norrænu strandmenningarfélaganna og nýsköpun í vitum.

Hraunið tamið: Frá Axlarsteini til Urðarvita. Gísli Pálsson mannfræðingur fjallar um ógnir hraunsins sem rann á Heimaey árið 1973, björgun hafnar og byggðar og aðlögun Eyjamanna eftir gos.

Virkjum Golfstrauminn! Ívar Atlason forstöðumaður HS Veitna segir frá nýjum kafla í sögu upphitunar á húsum í Eyjum þar sem varminn (-sólarorkan-) sem er geymd í sjónum umhverfis Eyjar er notaður til upphitunar húsa.

STRANDAR-AUÐUR, vannýttur fjársjóður fyrir hönnuði. Emilía Borgþórsdóttir hönnuður. Ströndin og hafið er takmörkuð auðlind sem við þurfum að ganga vel um. Það eru mörg tækifæri fyrir hönnuði að nálgast þessa auðlind á ólíkan máta.

Að lokinni dagskrá mun Arnar Sigurmundsson framkvæmdastjóri leiða sögugöngu um hafnarsvæðið frá Edinborgarbryggju og vestur fyrir gömlu slippana.

Sýningar í Safnahúsi Vestmannaeyja sem tengjast vitum og strandmenningu.

Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Myndina tók Sigurgeir Jónasson í Geirfuglaskeri 1968.

Strandmenning - sýning í Einarsstofu - 2. október

07.09.2016

Sunnudaginn 2. október verður áhugavert málþing í Sagnheimum, samstarfsverkefni Íslenska vitafélagsins og Sagnheima.

Af því tilefni ætlum við að setja upp sýningu í Einarsstofu með gripum sem tengja má lífi okkar og störfum við sjávarströndina. Átt þú myndir, eitthvað úr rekavið, fiskibeinum, roði eða eitthverju allt öðru sem að þú ert reiðubúinn að leyfa fleirum að njóta á þessari sýningu?

Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband sem fyrst við Helgu í Sagnheimum, s.: 698 2412, Perlu eða Kára í Safnahúsi eða Kristínu Garðarsdóttur í síma 698 2045.

Hér á myndinni má sjá skemmtilega fiskitrommu, gerða á frystitogara úr roði hlýra og blágómu og hólki úr bindigarni. Tromma þessi gegndi líka hlutverki loftvogar, því hæðir og lægðir höfðu áhrif á þenslu roðsins og þar með hljóð trommunar. Lúrir þú á eitthverju svona skemmtilegu?

Haustdagskrá Safnahúss

24.08.2016

Haust- og vetrardagskrá er í fullum undirbúningi í Safnahúsi. Við byrjum nú á sunnudag, 28. ágúst kl. 14 í Einarsstofu með dagskránni Með Eyjar í hjarta og hjartað í Eyjum. Þar munu Hildur Oddgeirsdóttir, Hafliði Kristinsson og Þorsteinn Ingi Sigfússon fara á vit bernskudaga í Eyjum. Af þessu tilefni hefur ljósmyndadeildin dregið fram ljósmyndir af lífi og starfi nemenda Grunnskóla Vestmannaeyja frá liðnum dögum. Allir hjartanlega velkomnir!

Sagnheimar - opnunartíma um Þjóðhátíð 2016

29.07.2016

Við fögnum Þjóðhátíð í frábæru veðri!

Safnið okkar er opið um Þjóðhátíð sem hér segir:

Föstudag: 10 - 15

Laugardag og sunnudag: Lokað

Mánudag: kl. 10-17.

Í Einarsstofu Safnahúss er frábær álfabókasýning Guðlaugs Arasonar opin á sömu tímum!

Gleðilega Þjóðhátíð!

 

Páll Steingrímsson: Frá Heimaey á heimsenda

26.07.2016

Í gær, 25. júlí, á 86. afmælisdegi Páls Steingrímssonar var forsýnd nýjasta mynd hans: Frá Heimaey á heimsenda í Sagnheimum, byggðasafni að viðstöddu fjölmenni. Í myndinni er rakin litrík ævisaga Páls, upplifanir og störf hans. Áhugamálin hafa leit hann á hina ólíklegustu staði og oftar en ekki hefur myndavélin verið í för.  Umsjón með myndinni hafði Páll Magnússon, Friðþjófur Helgason sá um kvikmyndatöku og Ólafur Ragnar Halldórsson um myndgerð. Myndin er komin á DVD disk og eru nokkur eintök til sölu í Sagnheimum.

Tyrkjaránsdagur á Skansinum, 17. júlí kl. 14

13.07.2016

Á hinum árlega Tyrkjaránsdegi, sunnudaginn17. júlí, verður þess minnst á Skansinum að nú eru liðin rétt 389 ár frá einum hroðalegasta atburði sögu Vestmannaeyja er sjóræningjar fluttu 242 karla, konur og börn frá Eyjum sem þræla til Alsír. Níu árum síðar voru keyptir út 35 þrælar í Alsír og komu 27 þeirra aftur til Íslands.

Skansinn, kl. 14:

Virkið í Vestmannaeyjum: Birgir Loftsson sagnfræðingur og kennari, höfundur bókarinnar Hernaðarsaga Íslands, flytur stutt erindi um hernaðaruppbyggingu Vestmannaeyja með sérstaka áherslu á Skansinn.

Að því loknu verður skotið úr fallbyssunni.

Allir hjartanlega velkomnir!

Sögusetur 1627

Teikningin sem fylgir fréttinni er gerð af Jakobi S. Erlingssyni og er hluti af Tyrkjaránssýningu Sagnheima.

Goslok 2016 í Sagnheimum

27.06.2016

Á goslokum árið 2010 hóf Jóhanna Ýr Jónsdóttir, þá safnstjóri Sagnheima, að safna frásögum gesta af upplifun sinni af gosnóttinni er rúmlega fimmþúsund íbúar Vestmannaeyja þurftu að flýja hús sín að næturlagi.

Ársbyrjun árið 2013 höfðu safnast um 500 skráningar. Ingiberg Óskarssyni fannst það harla lélegt, tók að sér verkefnastjórn og hóf markvissa söfnun upplýsinga í samvinnu við safnstjóra Sagnheima, byggðasafns. Verkefni sitt kallaði hann Allir í bátana.  rúmlega þremur árum síðan er komið að ákveðnum kaflaskilum. Skráður hefur verið fararmáti 4.563 íbúa gosnóttina en enn vantar nöfn báta sem 364 íbúar fóru með. Töluvert hefur einnig safnast af sögum og margvíslegum fróðleik.

Laugardaginn 2. júlí verður í Sagnheimum, kl. 11-12 sagt frá verkefninu, stöðu þess og hvernig megi nýta þær upplýsingar sem þar hafa safnast:

Ingibergur Óskarsson verkefnastjóri kynnir verkefnið og helstu niðurstöður.

Björgvin Agnarsson meistaranemi í mannfræði við Háskóla Íslands fjallar um verkefnið útfrá sjónarhorni félagsvísindanna en lokaverkefni hans fjallar einmitt um minningar og upplifanir Vestmannaeyinga af Heimaeyjargosinu.

Við fögnum þessum áfanga í verkefninu okkar og bjóðum af því tilefni frítt inn í Sagnheima bæði á laugardag og sunnudag, kl. 10-17. Gögn sem tengjast verkefninu liggja frammi á safninu.

Vestmannaeyingar og aðrir áhugamenn eru hvattir til að líta við og skoða merkilegar samtímaheimildir um einn hrikalegasta atburð í sögu Eyjanna.

Verkefnastjórar verða á staðnum alla helgina og því upplagt tækifæri til að koma á framfæri viðbótarupplýsingum, leiðréttingum eða læra meira um hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973.

Allir hjartanlega velkomnir.

Dagskráin er styrkt af Safnaráði.

Fjallkona Eyjamanna 2016

20.06.2016

Fjallkona okkar Eyjamanna í ár var Dröfn Haraldsdóttir. Hátíðarljóð sitt, Íslands börn eftir Jóhannes úr Kötlum, flutti hún á Hraunbúðum um morguninn, síðan á norrænu kvenfélagsþingi í Akóges og loks á Stakkagerðistúní síðdegis.

19. júní 2016 - söguganga í Sagnheimum kl. 15

18.06.2016

Í ár fögnum við því að þennan dag eru 101 ár liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Barátta formæðra okkar skóp okkur sem nú lifum við betri kjör og þeim til heiðurs bjóða Sagnheimar, byggðasafn upp á kvenlega sögugöngu um safnið kl. 15.

Við hvetjum alla til að bera eitthvað bleikt þennan dag og minnast þannig formæðra okkar.

Sögugangan er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!

17. júní 2016 í Safnahúsi Vestmannaeyja

16.06.2016

Sú hefð að fjallkona flytji landsmönnum hátíðarljóð á 17. júní hefur tíðkast hér á landi frá árinu 1947. Að vanda mun fulltrúi Sagnheima, byggðasafns sjá um að skrýða fjallkonu okkar Eyjamanna úr fjársjóðskistum safnsins. Fjallkona okkar í ár er Dröfn Haraldsdóttir og flytur hún ávarp sitt í Hraunbúðum kl. 10:30 og á Stakkagerðistúni kl. 14. Hún mun einnig líta við á Norrænu sumarþingi kvenfélaga í Akóges.

Í Einarsstofu er forvitnileg sýning og fróðleiksmolar um forseta lýðveldisins.

Opið er í Safnahúsi kl. 10-17 og ókeypis inn í Sagnheima í tilefni dagsins. Gleðilega hátíð!

Hér að ofan má sjá fjallkonu Eyjamanna 2015 Sigríði Láru Garðarsdóttur ásamt heiðursverði sínum.