Fréttir

17. júní 2017 í Safnahúsi Vestmannaeyja

16.06.2017

Við hvetjum alla til að klæðast þjóðbúningi sínum á þjóðhátíðardaginn 17. júní.Fjallkonan okkar í ár er Svanhildur Eiríksdóttir og mun fulltrúi Sagnheima sjá um að skrýða hana eins og undanfarin ár. Hátíðarávarp sitt flytur hún í Hraunbúðum kl. 10:30 og á Stakkagerðistúni kl. 14.

Í Einarsstofu er sýning Gunnars Júlíussonar og Sigurgeirs í Skuld. Brugðið verður á leik og geta gestir stungið nafni sínu í pott kl. 10-16. Dregið verður úr pottinum kl. 16 og mun Gunnar Júl. teikna vinningshafann.

Opið verður í Safnahúsi kl. 10-17 og ókeypis inn í Sagnheima í tilefni dagsins. Gleðilega hátíð!

Hér að ofan má sjá fjallkonu Eyjamanna 2016 Dröfn Haraldsdóttur ásam heiðursverði sínum.

Sjómannadagurinn 2017

11.06.2017

Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn!

Ókeypis er inn á safnið í dag í tilefni dagsins, opið kl. 10-17.

Minnum einnig á sýningu Gunnars Júlíussonar og Sigurgeirs í Einarsstofu.

Í dag kl. 17 verður einnig í Einarsstofu kynning á nýrri bók um fiskveiðistjórnun víða um heim.

Allir velkomnir!

Vestmannaeyjar - safnapassi 2017

23.05.2017

Minnum á að hægt er að kaupa safnapassa í Sagnheimum, Sæheimum og Eldheimum sem gilda á öll söfnin. Með slíkum passa borga gestir í raun bara aðgang að tveimur söfnum og fá það þriðja í kaupbæti. Nú er einnig opið alla daga í Landlyst, kl. 10-17. Ókeypis aðgangur þar og einnig í stafkirkjuna.

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí 2017

21.05.2017

Yfirskript Alþjóðlega safnadagsins í ár er: Söfn og umdeild saga: að segja það sem ekki má í söfnum. Markmið dagsins er að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og opna fyrir umræðuna um hlutverk safna þegar kemur að umdeildum og erfiðum frásögnum. Í Sagnheimum kynnti Már Jónsson prófessor í sagnfræði við HÍ nýútkomna bók sína: Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar. Í bók sinni nýtir Már áður ónýttar heimildir um brauðstrit fólks á örðugum tímum í Vestmannaeyjum. Bókin er seld í Bóksölu stúdenta í Reykjavík en verður á sérstöku kynningarverði í Sagnheimum nú fyrst um sinn, kr. 2.500.

Sagnheimar - viðburðir - netagerðum frestað fram á haust

09.05.2017

Fyrirhuguðu málþingi og myndasýningu um netagerðir í Eyjum hefur verið frestað fram í október. Alls konar tafir hafa hrjáð þá sem unnu að samantektinni en eitt er ljóst að áhugi er mikill og efni nær óþrjótandi og mikilvægt að vanda til verka. Stígum því margefld fram í haust.

Nú er kominn inn á heimasíðuna okkar viðburðalisti Safnahúss fyrir árið 2016. Alls eru þetta 46 viðburðir og eru þá ekki taldir með vikulegar uppákomur svo sem ljósmyndadagurinn. Sjá nánar hér: http://sagnheimar.is/skrar/file/skjol/vidburdir-i-safnahusi-2016-kba.pdf.  Næsti viðburður verður síðan á íslenska safnadaginn 18. maí og verður nánar auglýst þegar nær dregur.

Meðfylgjandi mynd sýnir Ingólf Theódórsson netagerðameistara og Jón Valgarð (Gæsa) skipstjóra. Ingólfur gerði byltingarkennda breytingu á herpinótum (1969) sem Jón Valgarð prófaði síðan á Ísleifi IV. Nánar má lesa um þetta hér: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=114043&pageId=1401094&lang=is&q=%ED%20Bylting%20%ED%20herpin%F3tavei%F0um

Sagnheimar - sumaropnun 2017

01.05.2017

Frá 1. maí til 30 september er opið daglega í Sagnheimum frá kl. 10-17. Búast má við breyttum opnunartíma um Þjóðhátíð og verður það auglýst sérstaklega.

Minnum einnig á Safnapassann sem gildir í Sagnheima, Sæheima og Eldheima og fæst á þeim stöðum. Einstaklingspassi er á 3.200 kr. og fjölskyldupassi á 8.700 kr.  Verið velkomin!

 

Sagnheimar - sumardaginn fyrsta

20.04.2017

Opið er í Sagnheimum í dag, sumardaginn fyrsta, kl. 13-16, í boði Vestmannaeyjabæjar.

Allir velkomnir.

Gleðilegt sumar!

Sagnheimar og Safnahús um páska

07.04.2017

Opið skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16. Lokað aðra daga.

Gleðilega páska!

Saga og súpa í Sagnheimum og opnun sýningar, 13. mars 2017, kl12

10.03.2017

Mánudaginn 13. mars kl. 12 verður saga og súpa í Sagnheimum, byggðasafni.

Sólveig Rós fræðslufulltrúi Samtakanna ´78 flytur fyrirlesturinn. Litbrigði regnbogans: Mikilvægi fjölbreytileika í samfélaginu. Að fyrirlestri loknum opnar hún farandsýningu Þjóðminjasafnsins í Einarsstofu: Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi.

Dagskráin er styrkt af SASS.

https://www.facebook.com/sagnheimar/?hc_ref=PAGES_TIMELINE&fref=nf

Sagnheimar á þorranum

15.02.2017

Safnfræðsla til nemenda á öllum skólastigum er mikilvægur hluti í starfi Sagnheima. Þorrinn er tilvalinn til að fræðast um hvernig lífið var í gamla daga fyrir daga hamborgara og pizzu og þegar ekki var hægt að hlaupa út í búð eftir öllu sem hugurinn girntist. Fræðsla til yngstu barnanna er ekki síður mikilvæg - en stundum getur leiðin verið löng fyrir stutta fætur. Á mánudaginn pakkaði því safnstjóri niður nokkrum safnmunum og heimsótti bæði Kirkjugerði og Víkina og ræddi við börnin. Komu þar ýmsir við sögu, m.a.s. Grettir og Þyrnirós! https://www.facebook.com/sagnheimar/

Saga netagerðar í Eyjum

10.02.2017

Mikilvægur hluti af starfsemi Sagnheima er að safna saman og rannsaka sögu Vestmannaeyja, hvort sem það snertir atvinnusögu eða þætti daglegs lífs. Nú er starfshópur sem skipaður er netagerðarmönnum fyrr og nú ásamt Arnari Sigurmundssyni og safnstjóra að skrá sögu netagerðar í Vestmannaeyjum og kemur þar margt forvitnilegt í ljós. Afraksturinn verður síðan birtur í máli og myndum á málþingi í Sagnheimum í aprílmánuði. Fyrirspurnir okkar leiddu til þess að safninu barst þessi dýrgripur, sem hér má sjá á mynd, til varðveislu. Um er að ræða veski/tösku sem Rögnvaldur Jónsson (1906-1993) átti og notaði undir netanálar sínar og hafði ávallt með sér niður á bryggju en hann vann lengi í Netagerð Ingólfs. Í veskinu eru aðallega nálar sem notaðar voru við síldar- og loðnunætur en netamenn munu vafalaust greina þær betur fyrir safnið. Veskið hafði verið í vörslu Magnúsar Rögnvaldar Birgissonar og þökkum við honum kærlega fyrir að hafa varðveitt þennan dýrgrip svona vel.

Jólaratleikur í Sagnheimum 7. janúar 2017, kl. 13-16.

03.01.2017

Við byrjum nýtt ár á því að hjálpa Grýlu með óþekktarormana sína, jólasveinana. Þeir fengu að gista á safninu okkar í vonda veðrinu og dreifðu eigum sínum hreint um allt. Þegar Grýla og Leppalúði ræstu þá til að halda aftur til fjalla, hentust þeir af stað og gleymdu náttúrlega helmingnum! Getið þið komið krakkar og hjálpað okkur að finna dótið þeirra, svo að þeir geti nú tekið allt með sér?

Opið laugardaginn 7. janúar kl. 13-16. Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum!

Jólakveðja úr Sagnheimum

22.12.2016

Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Þökkum skemmtilegar samverustundir á árinu og horfum spennt til nýrra verkefna á næsta ári!

Sagnheimar,  byggðasafn verður opið 28.-30. desember kl. 11-15 og síðan á þrettándanum 7. janúar, nánar auglýst síðar.

Sagnheimar, byggðasafn

Myndin er úr Listasafni Vestmannaeyja og er eftir Gísla Þorsteinsson (1906-1987).

Jólasveinarnir koma til byggða!

12.12.2016

Jólasveinarnir í búningi Bryndísar Gunnarsdóttur birtast nú daglega fram að jólum á fésbókarsíðu Sagnheima: https://www.facebook.com/sagnheimar/

Þá má líka sjá í Einarssstofu Safnahúss ásamt ýmsu öðru sem minnir á jólin. Allir velkomnir í Safnahús Vestmannaeyja!

Safnahús. Gömlu jólasveinarnir í nýjum fötum

05.12.2016

Nú er jólaundirbúningur á fullu í Safnahúsinu okkar. Jólabækurnar streyma inn á bókasafnið og starfsmenn geta ekki hamið sig í jólaföndrinu.Í Einarsstofu er nú einstök sýning á gömlu jólasveinunum. Árið 1998 efndi Þjóðminjasafnið til samkeppni um hönnun á fatnaði á sveinana sem gæti endurspeglað þann fatnað sem þeir klæddust áður en þeir sáu Kók auglýsingarnar og fóru að klæðast rauðu. Í Einarsstofu má nú sjá vinningstillöguna sem gerð var af Bryndísi Gunnarsdóttur. Búningar voru síðan saumaðir eftir þessari tillögu og klæðast jólasveinarnir þeim þegar þeir heimsækja Þjóðminjasafnið, svona alveg spari. Á þessari sýningu mynda jólasveinarnir nokkurs konar jólasveinadagatal og mun hver og einn vera kynntur sérstaklega þegar þeir koma til byggða.  Sýninguna lánaði Bryndís Sagnheimum og þökkum við henni kærlega fyrir!

Sagnheimar - munir í geymslu

16.11.2016

Heilmikið átak hefur verið gert í skráningu safngripa Sagnheima á þessu ári. Safnaráð veitti styrk til verkefnisins og hefur Gígja Óskarsdóttir þjóðfræðingur dvalið langdvölum í geymslum safnsins. Í síðustu viku vannst svo enn eitt skref í baráttunni um betra líf gripa Sagnheima þegar nýtt geymsluhúsnæði var gert klárt og hluta af "stórgripum" safnsins komið fyrir í merktum hillum. Oft heyrðust fagnaðarhróp þegar kynni voru endurnýjuð við gamla gripi sem ekki höfðu verið handleiknir alllengi. Stórt skref stigið - en heilmikið eftir óunnið enn. Á meðfylgjandi mynd má sjá fyrsta vatnsklósettkassann sem settur var upp í Breiðabliki á heimili Gísla J. Johnsens.

Páll Steingrímsson kvikmyndatökumaður látinn

12.11.2016

Látinn er Páll Steingrímsson, kvikmyndatökumaður, listamaður, kennari og lífskúnstner. Minningin um Pál lifir áfram í þeim fjölmörgu myndum sem hann hefur gert og í hugum þeirra sem honum kynntust. Takk fyrir allt kæri vinur!

Meðfylgjandi mynd var tekinn í Sagnheimum 25. júlí sl. er Pál forsýndi nýjastu mynd sína Frá Heimaey á heimsenda á 86. afmælisdegi sínum.

Safnahelgin í Vestmannaeyjum, 3.-6. nóvember 2016

02.11.2016

Við þjófstörtum safnahelginni hér í Safnahúsi strax á fimmtudag, en þann dag eru tveir atburðir í safnahúsi.

Hér má sjá alla dagskrá helgarinnar:

http://safnahus.vestmannaeyjar.is

Allir velkomnir!

Illugi Jökulsson í sögu og súpu, sunnudaginn 6. nóvember 2016, kl. 12

28.10.2016

Að vanda verða margir áhugaverðir dagskrárliðir í Eyjum um safnahelgina okkar, 3.-6. nóvember, og mun dagskráin koma inn á hina ýmsu vefmiðla næstu daga.

Á sunnudeginum, 6. nóvember, kl. 12, verður saga og súpa í Sagnheimum. Þá mun Illugi Jökulsson fjalla um vísindamanninn Jean-Babtist Charcot og síðustu sjóferð franska rannsóknarskipsins Pourquoi-pas? sem fórst við Álftanes á Mýrum árið 1936. Í slysinu fórust 39 manns en einn maður lifði af eftir frækilega björgun Íslendings.

Charcot (1867-1936) var í hópi þeirra sem fyrst könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimskautin í byrjun síðustu aldar en meðal annara má nefna Amundsen, Scott, Nordenskjöld og Peary. Pourquoi-Pas? (af hverju ekki?) var sérútbúið rannsóknarskip með þremur rannsóknarstofum og bókasafni. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísindarannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag. Charcot og menn hans komu oft við hér á landi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir og eignaðist fjölmarga vini hér á landi.

Samskipti Eyjamanna við franska sjómenn voru allnokkur fyrr á öldum. Fjölmörg fiskiskip frá norðurhluta Frakklands sigldu á Íslandsmið í lok 19. aldar en flest voru þau talin hafa verið 80 talsins árið 1895. Í byrjun 20. aldar voru reist þrjú sjúkrahús á landinu fyrir þessa sjómenn, í Reykjavík, á Fáskrúðsfirði og í Vestmannaeyjum (Gamló, Kirkjuvegi 20) árið 1905.

Í ritsafni Árna Árnasonar símritara er sagt frá Fransmannaleik sem barst hingað til Eyja í upphafi 20. aldar með sjómönnum á franska spítalanum og varð mjög vinsæll. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1969 er einnig sagt frá því að hið alþjóðlega slagorð sjómanna á milli ,,ship-o hoj" megi jafnvel rekja til franskra sjómanna á miðöldum. Má því e.t.v. með góðum vilja segja að í texta Lofts Guðmundssonar, Sjómannslíf, gæti franskra áhrifa: 

Ship-o-hoj - ship-o-hoj,

ferðbúið liggur fley,

ship-o-hoj - ship-o-hoj

boðanna bíð ég ei.

 

Sagnheimar - dagskrá um Eyjahjartað frestað!

07.10.2016

Því miður þarf að fresta áður auglýstri dagskrá sem vera átti nú á sunnudag um Eyjahjartað um óákveðinn tíma.