Actualités

Baðstofuhorn og biblíur á sýningu aðventista í Höllinni

09.02.2014

Aðventistar minnast þess að nú eru liðin 90 ár frá stofnun safnaðarins í Eyjum. Sett hefur verið upp myndarleg sýning í Höllinni sem opin er kl. 10-22 til 16. febrúar auk þess sem boðið er upp á erindi og tónlist, sjá nánar á b3d.adventistar.is.
Safnahús hefur ásamt fleirum lánað muni til sýningarinnar. Má þar sjá merkar biblíur úr safni Bókasafns og Sagnheimar, byggðasafn á muni í baðstofuhorni.
Hér á myndinni má sjá Hrönn Þórðardóttur sitja í peysufötum Ingu móður sinnar í baðstofuhorninu.

Ný ásýnd Safnahúss Vestmannaeyja

28.01.2014

Allflestir eru sammála um að Safnahúsið okkar er orðið hið glæsilegasta þó að alltaf megi laga og betrumbæta. Nokkuð hefur borið á að gestir og ferðamenn hafi kvartað undan lélegri merkingu hússins og hefur nú verið ráðin veruleg bót á því. Á rúðum norðurhliðar standa nöfn þeirra fimm safna sem þar eru til húsa bæði á íslensku og ensku. Yfir aðaldyrum stendur síðan stórum stöfum Safnahús Vestmannaeyja ásamt skjaldamerki bæjarins. Starfsmenn Safnahúss minna á fjölbreytta starfsemi hússins og bjóða alla hjartanlega velkomna.

Víkin í heimsókn í Safnahúsi Vestmannaeyja

28.01.2014

Líf og fjör var í Safnahúsi Vestmannaeyja í morgun þegar um 60 nemendur ásamt kennurum og leiðbeinendum úr Víkinni komu í heimsókn.  Eftir að hafa skoðað spennandi veröld bókasafnsins var farið í rannsóknarleiðangur í kjallarann. Í Sagnheimum var fræðst um eldgosið á Heimaey, þorrann og ýmislegt forvitnilegt sem gert var í gamla daga.  Áður en þessi flotti hópur kvaddi var kíkt í þjóðhátíðartjaldið og sjóræningjahellirinn kannaður. Takk fyrir heimsóknina - þið voruð frábær!

Undirbúningur nýrra sýninga í Sagnheimum, byggðasafni

21.01.2014

Myndasýning og blaðaúrklippur sem voru á vegg í Pálsstofu og sagði frá Eldeyjarför vaskra Eyjamanna 1971 og 1982 hefur nú verið tekin niður. Sýningin var hluti af dagskrá sem flutt var um safnahelgina í nóvember.
Undirbúningur er hafinn af nýrri sýningu á veggnum sem byggir á dýrgripum úr geymslu í kjallara. Einnig hefur safninu borist ómetanlegir dýrgripir frá Danmörku sem tengjast Vestmannaeyjum og er nú verið að undirbúa til sýningar. Báðar þessar sýningar verða kynntar betur þegar nær dregur.

Danski Pétur skal hann heita!

13.01.2014

Byggðasafnið væri ekki til nema fyrir velvilja bæjarbúa sem eru duglegir að koma með gamla muni til varðveislu og hjálpa þannig til við að viðhalda sögunni. Oft er það einmitt sagan sem fylgir hlutunum sem gæðir þá lífi og gerir jafnvel hluti sem í fyrstu virðast lítils virði að ómetanlegum fjársjóði.
Hér til hliðar má sjá mynd af einni slíkri gjöf, sem barst safninu sl. sumar.  Hér er um að ræða flöskustút af kampavínsflösku sem notuð var við nafnagift Danska Péturs 20. febrúar 1971, sem lengst af var í eigu Emils Andersen og útgerðarfélags hans. Flöskustúturinn er nú til sýnis í glerskáp í afgreiðslu Sagnheima.
Sjá nánar hér að neðan:

Fjölmennt á myrkraverkum Sagnheima

05.01.2014

Um 140 manns aðstoðuðu Grýlu við að finna dótið sitt í Sagnheimum í gær. Börnin mættu með vasaljós enda hafði Leppalúði klippt á rafmagnið og því myrkur á safninu. Talsvert stóð í fólki hvað væri ,,koffort" en allflestir þekktu koppinn sem unga stúlkan á meðfylgjandi mynd fann undir stól í mormónabásnum. Grýla þarf því væntanlega ekki að fara út í öllum veðrum til morgunverka sinna. Takk fyrir komuna krakkar!

Myrkraverk í Sagnheimum, byggðasafni

29.12.2013

Jólaleikur fyrir börn á öllum aldri 4. janúar kl. 13-16
Hjálp! Grýla kom með fullt af dóti sem hún safnaði í mannheimi og faldi á safninu. Leppalúði varð svo reiður að hann klippti á rafmagnið!
KRAKKAR! Getið þið komið með vasaljós og hjálpað Grýlu að finna dótið sitt? Frítt fyrir afa og ömmur í fylgd með börnum!

Endurgerð og skráning kvikmyndaefnis um Vestmannaeyjar

28.12.2013

Vinir Árna Árnasonar símritara í samstarfi við Sagnheima og Kvikmyndasafn Íslands buðu til bíós í dag kl. 13 og nýttu tæplega 60 manns sér boðið.  Um var að ræða myndbúta úr 9 klst. löngu myndefni Átthagafélagsins Heimakletts sem tekin var á árunum 1945-1960 af Sveini Ársælssyni, Friðrik Jessyni og fleirum. Sýningaraðilar stefna á nýju ári á samstarf við Eyjamenn um greiningu á einstaklingum sem koma fram í myndinni, svo skrá megi til framtíðar. Myndefni þetta er ómetanleg heimild um atvinnu- og byggðasögu Vestmannaeyja sem og menningararfinn okkar í heild.

Sagnheimar - uppskrift af jólamatnum

14.12.2013

Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur hélt skemmtilegt hádegiserindi í Sagnheimum sl. fimmtudag. Benti hún m.a. á ýmsar matarholur sem leynast í nágrenni okkar, t.d. hvernig útbúa má girnilegt snakk á auðveldan hátt úr blöðruþangi. Ýmsar fleiri uppskriftir var hún með í pokahorninu, t.d. úr mismunandi gerðum þangs, fjörugrösum, sölvum og skeldýrum.
Uppskriftirnar má nálgast í afgreiðslu Sagnheima.
I lok erindisins kom Guðrún með uppskrift af jólasaltfiskrétti frá Suður - Frakklandi. Hvernig væri að breyta einu sinni til og bjóða upp á einn slíkan?
Uppskriftina má sjá hér að neðan:

Saga og jólagrautur í Sagnheimum, 12. desember kl. 12

10.12.2013

Í tilefni aðventu skiptum við súpunni út fyrir jólagraut í hádegiserindi okkar:
Matarkistan Vestmannaeyjar, ofgnótt eða skortur?  Hefur matarhefð Eyjamanna sérstöðu og ef svo er, í hverju er hún fólgin og hvernig nýtum við okkur það?
 
Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur ReykjavíkurAkademíunni varpar ljósi á söguna og fjallar um breytingar sem fylgja nýjum lífsstíl. 
Dagskráin hefst stundvíslega kl. 12 með jólagraut og lýkur kl. 13.
Allir hjartanlega velkomnir.
 
Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Safnaráði.

Trollað á Þórunni Sveinsdóttur VE

06.12.2013

Sagnheimar, byggðasafn eiga marga velunnara innan sjómannastéttarinnar og er áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE þar engin undantekning. Er þeir komu í land í gær voru þeir auk hefðbundis afla með skipsklukku og bút af torkennilegum hlut (spil?) sem þeir fengu í trollið á Breiðamerkurdýpi. Viðar Sigurjónsson vissi ekki til þess að nokkurt skipsflak væri merkt nákvæmlega þarna og við fyrstu skoðun er ekki hægt að sjá neitt nafn á klukkunni. Freistandi er að álykta að klukkan og búturinn séu úr sama skipi. Haft verður samband við forverði Þjóðminjasafns um aðstoð við frekari greiningu á þessum spennandi fundi.
Á myndinni hér að ofan má sjá Sigurjón og Guðmund með klukkuna góðu.

Myndir Páls Steingrímssonar til sölu í Sagnheimum

03.12.2013

Í Sagnheimum, byggðasafni eru nú til sölu stórmerkilegar heimildamyndir Páls Steingrímssonar á íslensku og ensku á 3.000 kr. stk. Meðal mynda sem til sölu eru má nefna Ginklofann, Surtsey, Litli bróðir í norðri (lundinn), Ísaldarhesturinn, þorskurinn, Hátíð - þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Safnið hefur einnig milligöngu um pöntun á öðrum myndum Páls.
Erfitt hefur verið að nálgast myndir Páls og því mikill fengur að fá þær til sölu!

Fleiri skemmtilegir munir úr kjallara Sagnheima

16.11.2013

Þessi safnmunur úr kjallara hreif safnstjóra sérstaklega og vildi gefa mikið til að hann gæti sagt sögu sína og þeirra sem hann notuðu.  Þetta er ælubakki úr m/b Gísla Johnsen VE 100 sem var notaður í Stokkseyraferðum á sumrin í fjölda ára.  Safnið er einnig með líkan af skipinu á safninu, sem kemur úr eigu Sigurjóns Ingvarssonar, eins af fyrri eigendum.
Um skipið segir Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð í bók sinni Íslensk skip:
,,Sm. í Svíþjóð 1939. Eik. 25 brl. 110 ha. June Munktell vél. Eig. Guðlaugur Brynjólfsson, Vestmannaeyjum, frá 13. mars 1939. Báturinn var lengdur í Vestmannaeyjum 1941og mældist þá 32 brl. Seldur 15. maí 1944 Sigurjóni Ingvarssyni og Jóni Sigurðssyni, Vestmannaeyjum og Páli Guðjónssyni, Stokkseyri. 1953 var sett í bátinn 170 ha Caterpillar diesel vél. Seldur 16. des. 1957 Ársæli Sveinssyni, Vestmannaeyjum. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 8. júní 1967."

Sagnheimar, byggðasafn - ómetanlegar heimildir

15.11.2013

Á afmæli byggðasafnsins 2012 færði Kristín Sigríður Þorsteinsdóttir safninu að gjöf ómetanlegt myndband sem eiginmaður hennar Sigfús J. Johnsen tók í byggðasafninu 14. maí 1981. Þar má sjá frumkvöðul safnsins Þorstein Þ. Víglundsson ganga um safnið og lýsa því sem sem fyrir augun ber. 
Víglundur Þorsteinsson hefur bætt um betur og tengt við hvert myndskeið ítarefni úr Bliki sem hann hefur sett inn á Heimaslóð af óbilandi elju.  Hér er því komið alveg ómetanleg tól fyrir nemendur og fræðimenn til að feta sig eftir slóð sögunnar. 
Hægt er að komast beint inn á efnið frá
heimasíðu Sagnheima  í gegnum flipann ,,um okkur" - byggðasafn á Heimaslóð -
eða beint í gegnum
www.heimaslod.is. http://heimaslod.is/index.php/Bygg%C3%B0asafn_Vestmannaeyja
 
 
 

Surtsey 50 ára 14. nóvember - Safnahús Vestmannaeyja

13.11.2013

Í tilefni af því að 14. nóvember eru liðin 50 ár frá upphafi Surtseyjargoss verður mynd Páls Steingrímssonar Surtsey sköpun og þróun lands sýnd í Pálsstofu Sagnheima 14.-16.nóvember kl. 14 og síðan á opnunartíma byggðasafns út nóvember.
Á 1. hæð Safnahúss eru einnig sýndar stórmerkilegar ljósmyndir Sæmundar Ingólfssonar yfirvélstjóra á Alberti sem teknar voru á upphafsstundu gossins og fóru víða um heim.

Merkilegar Surtseyjarmyndir gefnar Sagnheimum, byggðasafni

13.11.2013

Sagnheimum, byggðasafni berast margar merkilegar gjafir og í sumar bárust okkur afar dýrmætar myndir. Sæmundur Ingólfsson sem vélstjóri var á Alberti tók margar ljósmyndir af upphafsstund Surtseyjargossins og færði okkur myndirnar sem birtust á forsíðu og baksíðu Morgunblaðsins 16. nóvember. Svo mikið lá á að koma myndunum í blaðið að þær birtust bara í hluta upplagsins og þá með vélrituðum texta.  Einnig færði Sæmundur safninu myndavélina að gjöf sem hann tók flestar myndirnar á.  Þessar frábæru myndir eru nú sýndar í listaskáp Safnahúss ásamt afriti af Morgunblaðinu þar sem myndirnar birtust upphaflega.
Sjá nánar um sögu myndanna hér að neðan og fæðingu Surtseyjar.

Mikið um að vera í Sagnheimum um safnahelgina

04.11.2013

Eitt af hefðbundnum atriðum safnahelgar er upplestur höfunda úr nýjum bókum sínum og sá Guðmundur Andri Thorsson um þann þátt í ár - en bók hans Sæmd rétt náðist til Eyja fyrir helgina og var því glóðvolg. Erlendur Sveinsson opnaði málverkasýningu föður síns, Sveins Björnssonar, í Einarsstofu og hélt síðan upp í Sagnheima þar sem hann sagði frá gömlum Eyjakvikmyndum í Kvikmyndasafni Íslands og sýndi 30 mín. bút. Katrín Gunnarsdóttir kom með enn fleiri dýrgripi úr eigu afa síns Árna símritara og opnaði jafnframt á Heimaslóð tengil inn á bók afa síns Eyjar og úteyjalíf sem Víglundur Þorsteinsson hefur séð um að koma þangað af mikilli elju.

Eyjapeyjar o.fl. í Sagnheimum um safnahelgi

04.11.2013

Velheppnaðri safnahelgi er nú lokið og sóttu um 160 manns dagskrá í Sagnheimum á laugardeginum. Henrý Gränz og Ragnar Jónsson sögðu í máli og myndum frá miklum ævintýra- og glæfraferðum í Eldey 1971 og 1982.  Í ferðinni 1982 var Halldóra Filipusdóttir og er hún líklega eina konan sem klifið hefur Eldey.  Kapparnir færðu Sagnheimum, byggðasafni að gjöf fornlegan keðjubút sem þeir fundu í Eldey árið 1971. Gaman væri ef sá bútur gæti sagt sögu sína. 
Hér á myndinni má sjá Eldeyjarfarana Ragnar Jónsson, Guðjón Jónsson, Henrý Gränz, Ólaf Tryggvason og Hörð Hilmisson með þennan merka keðjubút.

Safnahelgin í Safnahúsi Vestmannaeyja

27.10.2013

Undirbúningur Safnahelgar er nú í fullum gangi í Safnahúsi fyrir safnahelgina og mikil tilhlökkun og spenningur í gangi.
 
Viðburðir í safnahúsi verða eftirfarandi:
2.nóv. laugard.:Einarsstofa. Sýning héraðsskjalasafns: ,,Týnda fólkið, konur í einkaskjalasöfnum". Sýning á ljósmyndum og ljósmyndavélum úr fórum Friðriks Jessonar.
Einarsstofa kl. 13:00 Erlendur Sveinsson opnar myndlistarsýningu föður síns Sveins Björnssonar.
Sagnheimar kl.13:30: Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands fjallar um myndefni sem tengist Eyjum og sýnir um 30 mín. bút úr myndinni Úr Eyjum frá 1969.
 - Egill Helgason þáttastjórnandi Kiljunar fjallar um jólabókaflóðið m.m.  Guðmundur Andri Thorsson les úr nýrri bók sinni.
Sagnheimar kl. 20:00 ,,Eyjapeyjar í Eldey 1971 og 1982" saga í máli og myndum. Ragnar Jónsson, Hörður Himisson og Henrý Gränz segja frá.
 
Dagskrána í heild má nálgast á www.vestmannaeyjar.is
Opnunartíma safnahúss um helgina má sjá hér fyrir neðan:

Sagnheimar- 1973 í bátana

27.10.2013

Nú er verið að taka niður gossögurnar sem voru á vegg Pálsstofu undir yfirskriftinni Stærsta björgunarafrek sögunnar. Í stað þeirra koma myndir úr ævintýrum Eyjapeyja í Eldey sem nánar verða kynnt um safnahelgina.
 
Söfnun skráninga og frásagna frá Heimaeyjargosinu er þó alls ekki hætt og heldur Ingibergur Óskarsson eins og herforingi utan um verkefnið. Heilmikið hefur safnast en nokkuð er þó enn óskráð. Hvetjum við alla sem enn lúra á upplýsingum að hafa samband við okkur í: 1973ibatana@gmail.com og helga@sagnheimar.is.