Actualités

Sagnheimar - uppskrift af jólamatnum

14.12.2013

Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur hélt skemmtilegt hádegiserindi í Sagnheimum sl. fimmtudag. Benti hún m.a. á ýmsar matarholur sem leynast í nágrenni okkar, t.d. hvernig útbúa má girnilegt snakk á auðveldan hátt úr blöðruþangi. Ýmsar fleiri uppskriftir var hún með í pokahorninu, t.d. úr mismunandi gerðum þangs, fjörugrösum, sölvum og skeldýrum.
Uppskriftirnar má nálgast í afgreiðslu Sagnheima.
I lok erindisins kom Guðrún með uppskrift af jólasaltfiskrétti frá Suður - Frakklandi. Hvernig væri að breyta einu sinni til og bjóða upp á einn slíkan?
Uppskriftina má sjá hér að neðan:

Saga og jólagrautur í Sagnheimum, 12. desember kl. 12

10.12.2013

Í tilefni aðventu skiptum við súpunni út fyrir jólagraut í hádegiserindi okkar:
Matarkistan Vestmannaeyjar, ofgnótt eða skortur?  Hefur matarhefð Eyjamanna sérstöðu og ef svo er, í hverju er hún fólgin og hvernig nýtum við okkur það?
 
Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur ReykjavíkurAkademíunni varpar ljósi á söguna og fjallar um breytingar sem fylgja nýjum lífsstíl. 
Dagskráin hefst stundvíslega kl. 12 með jólagraut og lýkur kl. 13.
Allir hjartanlega velkomnir.
 
Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Safnaráði.

Trollað á Þórunni Sveinsdóttur VE

06.12.2013

Sagnheimar, byggðasafn eiga marga velunnara innan sjómannastéttarinnar og er áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE þar engin undantekning. Er þeir komu í land í gær voru þeir auk hefðbundis afla með skipsklukku og bút af torkennilegum hlut (spil?) sem þeir fengu í trollið á Breiðamerkurdýpi. Viðar Sigurjónsson vissi ekki til þess að nokkurt skipsflak væri merkt nákvæmlega þarna og við fyrstu skoðun er ekki hægt að sjá neitt nafn á klukkunni. Freistandi er að álykta að klukkan og búturinn séu úr sama skipi. Haft verður samband við forverði Þjóðminjasafns um aðstoð við frekari greiningu á þessum spennandi fundi.
Á myndinni hér að ofan má sjá Sigurjón og Guðmund með klukkuna góðu.

Myndir Páls Steingrímssonar til sölu í Sagnheimum

03.12.2013

Í Sagnheimum, byggðasafni eru nú til sölu stórmerkilegar heimildamyndir Páls Steingrímssonar á íslensku og ensku á 3.000 kr. stk. Meðal mynda sem til sölu eru má nefna Ginklofann, Surtsey, Litli bróðir í norðri (lundinn), Ísaldarhesturinn, þorskurinn, Hátíð - þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Safnið hefur einnig milligöngu um pöntun á öðrum myndum Páls.
Erfitt hefur verið að nálgast myndir Páls og því mikill fengur að fá þær til sölu!

Fleiri skemmtilegir munir úr kjallara Sagnheima

16.11.2013

Þessi safnmunur úr kjallara hreif safnstjóra sérstaklega og vildi gefa mikið til að hann gæti sagt sögu sína og þeirra sem hann notuðu.  Þetta er ælubakki úr m/b Gísla Johnsen VE 100 sem var notaður í Stokkseyraferðum á sumrin í fjölda ára.  Safnið er einnig með líkan af skipinu á safninu, sem kemur úr eigu Sigurjóns Ingvarssonar, eins af fyrri eigendum.
Um skipið segir Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð í bók sinni Íslensk skip:
,,Sm. í Svíþjóð 1939. Eik. 25 brl. 110 ha. June Munktell vél. Eig. Guðlaugur Brynjólfsson, Vestmannaeyjum, frá 13. mars 1939. Báturinn var lengdur í Vestmannaeyjum 1941og mældist þá 32 brl. Seldur 15. maí 1944 Sigurjóni Ingvarssyni og Jóni Sigurðssyni, Vestmannaeyjum og Páli Guðjónssyni, Stokkseyri. 1953 var sett í bátinn 170 ha Caterpillar diesel vél. Seldur 16. des. 1957 Ársæli Sveinssyni, Vestmannaeyjum. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 8. júní 1967."

Sagnheimar, byggðasafn - ómetanlegar heimildir

15.11.2013

Á afmæli byggðasafnsins 2012 færði Kristín Sigríður Þorsteinsdóttir safninu að gjöf ómetanlegt myndband sem eiginmaður hennar Sigfús J. Johnsen tók í byggðasafninu 14. maí 1981. Þar má sjá frumkvöðul safnsins Þorstein Þ. Víglundsson ganga um safnið og lýsa því sem sem fyrir augun ber. 
Víglundur Þorsteinsson hefur bætt um betur og tengt við hvert myndskeið ítarefni úr Bliki sem hann hefur sett inn á Heimaslóð af óbilandi elju.  Hér er því komið alveg ómetanleg tól fyrir nemendur og fræðimenn til að feta sig eftir slóð sögunnar. 
Hægt er að komast beint inn á efnið frá
heimasíðu Sagnheima  í gegnum flipann ,,um okkur" - byggðasafn á Heimaslóð -
eða beint í gegnum
www.heimaslod.is. http://heimaslod.is/index.php/Bygg%C3%B0asafn_Vestmannaeyja
 
 
 

Surtsey 50 ára 14. nóvember - Safnahús Vestmannaeyja

13.11.2013

Í tilefni af því að 14. nóvember eru liðin 50 ár frá upphafi Surtseyjargoss verður mynd Páls Steingrímssonar Surtsey sköpun og þróun lands sýnd í Pálsstofu Sagnheima 14.-16.nóvember kl. 14 og síðan á opnunartíma byggðasafns út nóvember.
Á 1. hæð Safnahúss eru einnig sýndar stórmerkilegar ljósmyndir Sæmundar Ingólfssonar yfirvélstjóra á Alberti sem teknar voru á upphafsstundu gossins og fóru víða um heim.

Merkilegar Surtseyjarmyndir gefnar Sagnheimum, byggðasafni

13.11.2013

Sagnheimum, byggðasafni berast margar merkilegar gjafir og í sumar bárust okkur afar dýrmætar myndir. Sæmundur Ingólfsson sem vélstjóri var á Alberti tók margar ljósmyndir af upphafsstund Surtseyjargossins og færði okkur myndirnar sem birtust á forsíðu og baksíðu Morgunblaðsins 16. nóvember. Svo mikið lá á að koma myndunum í blaðið að þær birtust bara í hluta upplagsins og þá með vélrituðum texta.  Einnig færði Sæmundur safninu myndavélina að gjöf sem hann tók flestar myndirnar á.  Þessar frábæru myndir eru nú sýndar í listaskáp Safnahúss ásamt afriti af Morgunblaðinu þar sem myndirnar birtust upphaflega.
Sjá nánar um sögu myndanna hér að neðan og fæðingu Surtseyjar.

Mikið um að vera í Sagnheimum um safnahelgina

04.11.2013

Eitt af hefðbundnum atriðum safnahelgar er upplestur höfunda úr nýjum bókum sínum og sá Guðmundur Andri Thorsson um þann þátt í ár - en bók hans Sæmd rétt náðist til Eyja fyrir helgina og var því glóðvolg. Erlendur Sveinsson opnaði málverkasýningu föður síns, Sveins Björnssonar, í Einarsstofu og hélt síðan upp í Sagnheima þar sem hann sagði frá gömlum Eyjakvikmyndum í Kvikmyndasafni Íslands og sýndi 30 mín. bút. Katrín Gunnarsdóttir kom með enn fleiri dýrgripi úr eigu afa síns Árna símritara og opnaði jafnframt á Heimaslóð tengil inn á bók afa síns Eyjar og úteyjalíf sem Víglundur Þorsteinsson hefur séð um að koma þangað af mikilli elju.

Eyjapeyjar o.fl. í Sagnheimum um safnahelgi

04.11.2013

Velheppnaðri safnahelgi er nú lokið og sóttu um 160 manns dagskrá í Sagnheimum á laugardeginum. Henrý Gränz og Ragnar Jónsson sögðu í máli og myndum frá miklum ævintýra- og glæfraferðum í Eldey 1971 og 1982.  Í ferðinni 1982 var Halldóra Filipusdóttir og er hún líklega eina konan sem klifið hefur Eldey.  Kapparnir færðu Sagnheimum, byggðasafni að gjöf fornlegan keðjubút sem þeir fundu í Eldey árið 1971. Gaman væri ef sá bútur gæti sagt sögu sína. 
Hér á myndinni má sjá Eldeyjarfarana Ragnar Jónsson, Guðjón Jónsson, Henrý Gränz, Ólaf Tryggvason og Hörð Hilmisson með þennan merka keðjubút.

Safnahelgin í Safnahúsi Vestmannaeyja

27.10.2013

Undirbúningur Safnahelgar er nú í fullum gangi í Safnahúsi fyrir safnahelgina og mikil tilhlökkun og spenningur í gangi.
 
Viðburðir í safnahúsi verða eftirfarandi:
2.nóv. laugard.:Einarsstofa. Sýning héraðsskjalasafns: ,,Týnda fólkið, konur í einkaskjalasöfnum". Sýning á ljósmyndum og ljósmyndavélum úr fórum Friðriks Jessonar.
Einarsstofa kl. 13:00 Erlendur Sveinsson opnar myndlistarsýningu föður síns Sveins Björnssonar.
Sagnheimar kl.13:30: Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands fjallar um myndefni sem tengist Eyjum og sýnir um 30 mín. bút úr myndinni Úr Eyjum frá 1969.
 - Egill Helgason þáttastjórnandi Kiljunar fjallar um jólabókaflóðið m.m.  Guðmundur Andri Thorsson les úr nýrri bók sinni.
Sagnheimar kl. 20:00 ,,Eyjapeyjar í Eldey 1971 og 1982" saga í máli og myndum. Ragnar Jónsson, Hörður Himisson og Henrý Gränz segja frá.
 
Dagskrána í heild má nálgast á www.vestmannaeyjar.is
Opnunartíma safnahúss um helgina má sjá hér fyrir neðan:

Sagnheimar- 1973 í bátana

27.10.2013

Nú er verið að taka niður gossögurnar sem voru á vegg Pálsstofu undir yfirskriftinni Stærsta björgunarafrek sögunnar. Í stað þeirra koma myndir úr ævintýrum Eyjapeyja í Eldey sem nánar verða kynnt um safnahelgina.
 
Söfnun skráninga og frásagna frá Heimaeyjargosinu er þó alls ekki hætt og heldur Ingibergur Óskarsson eins og herforingi utan um verkefnið. Heilmikið hefur safnast en nokkuð er þó enn óskráð. Hvetjum við alla sem enn lúra á upplýsingum að hafa samband við okkur í: 1973ibatana@gmail.com og helga@sagnheimar.is.

Sagnheimar - Teikniborð Ólafs Á. Kristjánssonar

25.10.2013

Það verður bara að viðurkennast að einn skemmtilegasti hluti safnastarfs er að grúska í gömlum munum safnsins og teyga í sig sögu þeirra. Þegar safnstjóri þurfti að færa til muni í geymslu kom þessi dýrgripur upp í hendur hans.  Honum fylgdu eftirfarandi skýringar:
,,Þetta teikniborð smíðaði Ólafur Á. Kristjánsson fyrrverandi bæjarstjóri eftir að hafa lokið námi í húsateikningum frá Iðnskólanum í Reykjavík 1931. Og á þessu borði teiknaði hann öll þau hús bæði stór og smá sem hann teiknaði."
 
Á borðinu er húsateikning merkt Hreggviður Jónsson og fl. og ártalið er 1955.
Degi safnstjóra er hér með borgið!
 
 

Sagnheimar - skráning nýrra muna

21.10.2013

Spennandi hluti af vetrarstarfi Sagnheima er að skrá þá hluti sem safninu hafa borist, leita að frekari upplýsingum og ganga síðan frá þeim annað hvort til sýningar eða geymslu.  Um 50 söfn eru nú komin í Sarp sem er sameiginlegur gagnagrunnur safna og allir landsmenn geta skoðað, sjá www.sarpur.is. Stefnt er að því Sagnheimar, byggðasafn verði líka aðili að Sarpi.
Hér að ofan má sjá einn af nýjustu munum Sagnheima, þjóðhátíðargítar Árna Johnsen.

Sagnheimar - lengdur opnunartími

20.10.2013

Að ósk ferðaþjónustunnar hefur verið ákveðið að hafa Sagnheima og Sæheima opna á virkum dögum kl. 13-15 til 30. nóvember auk laugardagsopnunar kl. 13-16. Er hér um tilraun að ræða. Framhaldið ræðst af því hvernig til tekst og því mikilvægt að hvetja fólk til að nýta sér þetta og benda gestum sínum og ferðamönnum á söfnin okkar sem eru stútfull af áhugaverðu efni.  Allir hjartanlega velkomnir!

Páll Steingrímsson - Saga og súpa í Sagnheimum, 10. október kl. 12

07.10.2013

Á degi íslenskrar náttúru, 16. september sl. hlaut Páll Steingrímsson Jarðarberið, fjölmiðlaverðlaun Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
 
Af því tilefni mun Páll Steingrímsson, Vestmannaeyingur, kennari, myndlistarmaður, náttúruunnandi, kvikmyndajöfur og lífskúnstner deila hugrenningum sínum og lífsviðhorfum í Pálsstofu Sagnheima.
 
Dagskráin hefst stundvíslega kl. 12 með súpu og brauði og verður lokið kl. 13.
 
Allir hjartanlega velkomnir.
 
Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Íþróttafélagið Þór 100 ára 9. sept. - Saga og súpa í Sagnheimum, byggðasafni

05.09.2013

Í tilefni þess að 9. september 2013 eru 100 ár liðin frá stofnun Íþróttafélagsins Þórs er þann dag kl. 12 - 13 boðið upp á Sögu og súpu í Sagnheimum, byggðasafni.
 
 
 
 
Dagskrá:
Opnuð ný sýning í Sagnheimum um sögu Þórs.
Sigurgeir Jónsson kynnir nýútkomna bók um sögu félagsins og Áki Heinz les stutta ferðasögu.
Fólk er hvatt til að mæta í treyjum eða öðru merkt félaginu.
Allir hjartanlega velkomnir.
 
Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Safnaráði.
 

Sagnheimar komnir í skreiðarútflutning?

04.09.2013

Í sumar hefur verið unnið að endurbótum fyrir utan Safnahúsið og er þeim ekki enn lokið. 
Á trönurnar eru nú komnar nokkrar skreiðar og fljótlega bætast hausar við, þökk sé Víkingi og félögum hjá Löngu ehf.
Þurrkun var gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks og var einkum notuð á Íslandi og í Noregi og var um aldaraðir helsta útflutningsvara þessara landa.
Skreiðin var hengd upp í hjöllum eða trönum sem þessari, fiskarnir spyrtir saman tveir og tveir, og sól og vindur látinn sjá um þurrkunina. Nú er fiskurinn oftast þurrkaður inni. 
Segja má að nú sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar, harðfiskur, öll önnur skreið er framleidd til útflutnings.
 
Margir sakna Eiðisbátsins sem var fyrir utan Safnahúsið en hann fór illa í fárviðri sl. vetur og bíður enn viðgerðar.
 
 

Sagnheimar - Hannes lóðs kveður - ný sýning í vinnslu

24.08.2013

Nú um helgina eru síðustu dagar sýningar sem tileinkuð er Hannesi lóðs og sett var upp í nóvember sl. Ný sýning er í undirbúningi í Sagnheimum og mun hún nokkuð litast af því að 9. september nk. eru liðin 100 ár frá stofnun íþróttafélagsins Þórs. Nánar verður sagt frá þeirri sýningu síðar.

Sagnheimar - Þjóðhátíð 2013 - opnunartími

01.08.2013

Í Sagnheimum, byggðasafni verður þjóðhátíðardagana, 2.-5. ágúst, opið sem hér segir:
Föstudag: 11 - 17
Laugardag og sunnudag: lokað
Mánudag: 13 - 17
Myndin um Heimaeyjargosið, Days of Destruction, verður sýnd föstudag og mánudag kl. 14 og 16.
Gleðilega Þjóðhátíð!