Actualités

Ur Sagnheimum - dásemd, ekki föl fyrir sex gullstangir!

01.02.2015

Hér má sjá einn af dýrgripum Sagnheima, þennan einstaklega flotta sextant, sem er í sýningu á bryggjusvæðinu. Gripinn fól Berent Th. Sveinsson safninu til varðveislu árið 1991. Samkvæmt greiningu safnvarðar í Handels og Söfartsmuseet í Kaupmannahöfn er hann líklega frá um 1890-1900. Vegna ljósbrotsins í speglunum mæla svona tæki 90 og 120 gráðu horn. Ekki er ólíklegt að sambærilegt tæki hafi verið í Vestmannaeyja-Þór.  Einstaklega fallegur gripur!

Úr kjallara Sagnheima. Hvað er nú þetta?

30.01.2015

Safnstjóri nýtur þeirra forréttinda þessa dagana að grúska í geymslum safnsins. Markmiðið  er að draga upp fleiri muni og bæta á bryggjusvæðið eða skipta út fyrir aðra. Leit þessari fylgja oft mikil hróp og háar stunur, sem aðrir starfsmenn Safnahúss eru löngu hættir að kippa sér upp við. Nú komu upp í hendurnar þessir hlutir, sem hér eru á mynd. Á vélrituðum miða stendur: ,,Færisakka með ljósi.". Þetta er líklega úr kopar, 18 cm langt, 4 cm í þvermál og með fjórum litlum ,,gluggum". Gefandinn, Friðrik Alfreðsson frá Haga, segist hafa fundið þetta á milli þilja á Faxastíg 14, þegar hann vann þar að endurbótum 1986. Endilega hafið samband við safnstjóra, helga@sagnheimar.is, ef að þið vitið hvenær svona var notað og þá við hvers konar veiðar?

 

Bakverðir Safnahúss og Sagnheima

14.01.2015

Í dag var í Pálsstofu Sagnheima stofnaður tíu manna bakvarðahópur Safnahúss og Sagnheima. Hópnum er ætlað að verða Kára Bjarnasyni forstöðumanni Safnahúss og Helgu Hallbergsdóttur safnstjóra Sagnheima til ráðgjafar varðandi menningarviðburði, söfnun menningarverðmæta og rannsóknir á menningararfi Eyjanna í víðasta skilningi.o.fl. 

Hópinn skipa: Arnar Sigurmundsson, sem leiðir hópinn, Hermann Einarsson, Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, Haraldur Gíslason, Haraldur Þ. Gunnarsson, Marta Jónsdóttir, Stefán Óskar Jónasson, Páley Borgþórsdóttir, Ágúst Einarsson og Helgi Bernódusson.

Hér á ferð öflugur hópur áhugamanna sem án efa mun efla starfsemina enn meira.

 

Vilborg og hrafninn - úrslit í myndakeppni

12.01.2015

Georg víkingur kom í Sagnheima 10. janúar og upplýsti gesti hvernig það hefði verið að vera víkingur - fyrr og nú.  Að lokum veitti hann verðlaun í myndasamkeppninni um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal.Tæplega sextíu myndir bárust og var dómnefndinni, Steinunni Einarsdóttur  og Kristínu Garðarsdóttur mikill vandi á höndum. Komust þær að þeirri niðurstöðu að myndirnar væru allar svo flottar að í raun væru allir krakkarnir sigurvegarar. Eftir að safnstjóri var búinn að pína þær aðeins meira, völdu þær úr þrjár myndir sem voru verðlaunaðar sérstaklega.  Hér má sjá vinningshafana með Helgu safnstjóra og Georg víkingi.

Frá vinstri: Arnar Berg Arnarson, Bertha Þorsteinsdóttir og Aron Máni Magnússon.  Verðlaunin voru bókin Víkingarnir, norrænir sæfarar og vígamenn.

Til hamingju krakkar - þið voruð öll frábær!

Myndirnar hanga í stigagangi upp í Sagnheima en verða fljótlega færðar inn á safnið.

 

Þrettándagleði í Safnahúsi Vestmannaeyja

05.01.2015

Þrettándagleði Safnahúss verður haldin laugardaginn 10. janúar.

Dagskrá:

13:00 Einarsstofa. Opnun myndlistarsýningar á verkum Jóhönnu Erlendsdóttur, móður Guðna Hermansen. Barnabörn Jóhönnu fjalla stuttlega um þessa gleymsdu listaperlu Eyjanna.

13:30 Sagnheimar-bryggjan. Georg víkingur veitir verðlaun í myndakeppni Sagnheima um Vilborgu og hrafninn og segir frá lífi víkinga. Þorir þú í sjómann við alvöru víking? Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

14:00 Sagnheimar-bryggjan. Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir kynnir og les upp úr nýrri sögu sinni, Silfurskrínið, fyrir börn á öllum aldri.

Allir hjartanlega velkomnir!

 

Nýársóskir frá Sagnheimum

04.01.2015

Sagnheimar þakka gestum og velunnurum fyrir samveruna á árinu 2014 og óskar þeim velfarnaðar á nýju ári! Síðasta ár var mjög viðburðaríkt í Safnahúsi en alls voru skráðir 45 viðburðir og sýningar. Undirbúningur fyrir árið 2015 er löngu hafinn. Á nýbyrjuðu ári er þess víða minnst að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt hér á landi. Reikna má því með því að verulegur ,,kvenlegur halli"  verði á viðburðum og sýningum Safnahúss á árinu. Viðburðir verða eins og áður auglýstir á heimasíðum og með auglýsingum í Safnahúsi og í Eyjafrétttum.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Safnahúsi á nýju ári!

Páll Steingrímsson - DVD til sölu í Sagnheimum

06.12.2014

Páll Steingrímsson hefur verið mjög afkastamikill í gerð heimildamynda. Myndir hans eru tilvaldar tækifærisgjafir til vina og vandamanna hérlendis og erlendis enda allflestar líka til á ensku. Sagnheimar, byggðasafn selja nú myndir Páls (DVD) og er áhugasömum bent á að hafa samband við safnið: helga@sagnheimar.is eða í síma 698 2412.

Meðal mynda Páls má nefna: Spóinn var að vella, Undur vatnsins, Sofa urtubörn á útskerjum, Hestadans, 5000 óboðnir gestir, Oddaflug, Hátíð (Þjóðhátíð), Handfærasinfónían, Íslenski fjárhundurinn, Litli bróðir í norðri (lundinn), Tvö eyjasamfélög í Norður-Atlandshafi og ginklofinn (Landlyst!), Ísaldarhesturinn..... og svo miklu meira! 

Vilborg og hrafninn - sýning í Safnahúsi Vestmannaeyja

05.12.2014

jæja, nú erum við búin að hengja upp myndirnar sem krakkar í 1.-5. bekk teiknuðu við söguna um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal!  Þrjár myndir fá síðan verðlaun á þrettándanum - 9. janúar.  Myndirnar eru á veggnum við stigann upp í Sagnheima og verða til sýnis á opnunartímum Safnahúss, þ.e.  mánud.-fimmtud. frá kl. 10-18, föstudögum kl. 10-17 og á laugardögum kl. 11-16.  Endilega komið og kíkið á þessar flottu myndir!

Allir hjartanlega velkomnir!

Saga og súpa í Sagnheimum - opnun Kjarvalssýningar í Einarsstofu

25.11.2014

Fimmtudaginn 27. nóvember kl. 12-13 bjóðum við upp á sögu og súpu í Sagnheimum. Að því loknu verður opnuð Kjarvalssýning í Einarsstofu í boði Listasafns Vestmannaeyja.

Dagskrá:

Súpa og brauð.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur fjallar um Vestmannaeyjar sem myndefni og kynnir hugmynd sína um úrvalsbók með listaverkum sem hafa Vestmannaeyjar að viðfangsefni.

Opnun sýningar á Kjarvalsmyndum í Einarsstofu.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Sagnheimar - Vilborg, hrafninn og krakkarnir!

17.11.2014

Við í Sagnheimum viljum minna krakka í 1.-5. bekk grunnskóla á að teikna myndir við söguna um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal og skila inn til okkar í Safnahúsi fyrir næstu helgi (22. nóv.). Myndirnar verða síðan hengdar upp í safninu í desember og verðlaun veitt fyrir þrjár skemmtilegustu myndirnar á þteþrettándanum (9. janúar).

Einarsstofa - Stýrimannaskólinn í 50 ár

14.11.2014

Þess er nú minnst í Einarsstofu að 50 ár eru liðin frá því að Stýrimannaskóli var stofnaður hér í Eyjum. Sýndar eru myndir af nemendum og kennurum skólans en svo margar myndir leyndust í ljósmyndasafninu að skipta varð sýningunni í tvennt. Í dag föstudag er því skipt um myndir og nú bara sýndar myndir frá 1984 og yngri.  Við þessi tímamót skólans hefur Friðrik Ásmundsson fyrrum skólameistari tekið saman skemmtilegt og fróðlegt kver um sögu skólans og þá sem hann sóttu, nemendur og kennara. Kverið heitir: Skipstjórnarnám og Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum og má nálgast það hjá Friðrik sjálfum. Sýningin verður í Einarsstofu til 20. nóvember og er opin á opnunartíma Safnahúss. Kíkið endilega á þessar skemmtilegu sýningu af kempunum!

Saga og súpa í Sagnheimum, byggðasafni - 11. nóv. kl. 12

10.11.2014

Á morgun, þriðjudag, blásum við enn til Sögu og súpu í Sagnheimum. Þá mun Steve Leifson, bæjarstjóri í Spanish Fork ræða um þessa elstu Íslendinganýlendu í heimi utan Íslands en hann er afkomandi Hjálmfríðar Hjálmarsdóttur í Kastala. Erindið er um 30 mínútur og er flutt á ensku. Allir hjartanlega velkomnir.

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Safnahelgin - Margt býr í myrkrinu

31.10.2014

Safnahelgin heldur áfram. Einn viðburður var ekki auglýstur með öðrum dagskrárliðum - enda var um tíma tvísýnt að næðist að klára tæknileg atriði.  Viðburðinn köllum við Fjársjóð minninganna og er samstarf Sagnheima, Sæheima og Ljósmyndasafns Vestmannaeyja með styrk frá Menningarráði Suðurlands.  Fjársjóðir þessir birtast eftir að dimma tekur frá föstudegi til sunnudags og nú er bara að fara út að leita! Vísbending: Fjársjóðurinn er á tveimur stöðum og finnst ekki ef bara er horft niður fyrir tærnar!

Safnahelgin í Safnahúsi Vestmannaeyja 30.10.-2.11. 2014

30.10.2014

Dagskráin í Safnahúsi um helgina er sem hér segir:

Fimmtudagur 30. október: Ingólfsstofa kl. 14-16. Ljósmyndasýning Gísla Friðriks Johnsen (1906-2000).

Laugardagur 1. nóvember: Einarsstofa kl. 11.

Illugi Jökulsson rithöfundur kynnir og les upp úr knattspyrnubókum sínum.

Einarsstofa kl. 13.

Gísli Pálsson les úr bók sinni Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér og Illugi Jökulsson les úr framhaldi sínu af bókinni Háski í hafi.

Í beinu framhaldi:

Konur í þátíð. Opnun skissusýningar Gíslínu Daggar Bjarkadóttur bæjarlistamanns Vestmannaeyja til kynningar á stærri sýningu sem haldin verður í vor. Efnið er sótt til skáldverksins Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur.

Sagnheimar, byggðasafn kl. 15:

Herjólfsdalur – hvað leynist undir sverðinum? Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur kynnir niðurstöður rannsókna sem hann og Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur gerðu með jarðsjá í Herjólfsdal í sumar.  Sýndir verða valdir gripir frá Þjóðminjasafni úr uppgreftri Margrétar Hermanns- Auðardóttur (1971-1980) aðeins þennan dag.

Bókasafnið opið kl. 11-17 og Sagnheimar kl. 13-17.

Sunnudagur 2. nóvember: Sagnheimar kl. 14

Fríða Sigurðardóttir segir söguna um Vilborgu og hrafninn í Herjólfsdal, ratleikur á safninu og teiknimyndasamkeppni kynnt.   

Sagnheimar opnir kl. 13-16.

Allir hjartanlega velkomnir!

 

Safnahelgin 30.10.-2.11. 2014

27.10.2014

Undirbúningur safnahelgarinnar er í fullum gangi og enn er verið að vinna í hugmyndum sem við vonum að hægt verði að bjóða upp á um helgina.  Við munum kynna viðburði Safnahúss sérstaklega - bæði hér og á fésbókarsíðu Sagnheima.

Sagnheimar verða opnir þessa daga kl. 13-16 - eða á meðan á viðburðum stendur.

Smellið á fyrirsögn fréttar til að sjá alla dagskrá safnahelgar, innanhúss og utan, sem nú þegar hefur verið ákveðin:

Spítalasaga í Sagnheimum, byggðasafni - 19.10. 2014 kl. 13:30-15:30

15.10.2014

Sunnudaginn 19. október kl. 13:30 verður í Sagnheimum haldið málþingið: Spítalasaga.  

Stiklað verður um sögu heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum frá Landlyst til okkar daga með sérstakri áherslu á líf og störf læknanna Halldórs Gunnlaugssonar og Einars Guttormssonar.

Dagskrá:

Hjörtur Kristjánsson læknir: Frá Landlyst til Sólhlíðar.

Halldór G. Axelsson þróunarstjóri: Halldór Gunnlaugsson læknir, Kirkjuhvoli

Fríða Einarsdóttir ljósmóðir: Faðir minn, Einar Gutt. læknir.

Sólveig Bára Guðnadóttir hjúkrunarfræðingur leiðir skoðunarferð í Sjúkrahús Vestmannaeyja 1928-1973, nú Ráðhús bæjarins.

Kaffi og spjall í Landlyst í ferðalok.

Allir hjartanlega velkomnir!

Sagnheimar í október

04.10.2014

Undirbúningur vetrarstarfsins í Sagnheimum er kominn vel á veg. Fyrsti viðburðurinn á safninu verður sunnudaginn 19. október. Vinnuheitið er Brot úr sögu spítala og lækna í Eyjum. Flest þekkjum við Landlyst og gamla spítalann en vitið þið hvar franski spítalinn var? Eða að til eru stórmerkilegar teikningar af spítala sem átti að reisa á Skansinum fyrir um 100 árum? Við munum einnig minnast Halldórs Gunnlaugssonar læknis sérstaklega sem fórst ásamt fleirum við Eiðið árið 1924 og Einars Guttormssonar læknis sem settur var sjúkrahúslæknir hér 1934 og þjónaði okkur í um 40 ár. Verkefni sem unnið er í samstarfi við fjölskyldur beggja. Saga og súpa verður áfram á dagskrá hjá okkur og verður auglýst sérstaklega hverju sinni.

Sagnheimar, byggðasafn verður í október opið mánudaga - laugardaga kl. 13-16, lokað á sunnudögum.  Skólar og hópar geta ávallt haft samband við safnstjóra um opnun safnsins á öðrum tímum. 

Hér að ofan má sjá mynd af franska spítalanum úr eigu Ljósmyndasafns Vestmannaeyja.

Sagnheimar - og Hótel Berg

27.09.2014

Nú í vikunni kom Páll Helgason ferðafrömuður með merka hluti tengda Hótel Berg til varðveislu í Sagnheimum, byggðasafni.  Um er að ræða ljósmynd af Hóteli Berg frá um 1915 og forláta postulínskanna merkt Hótel Berg. Hlutir þessir berast safninu frá Sigurði Karlssyni hönnuði og Hanný Ingu Karlsdóttur til minningar um móður þeirra Sigurbjörgu Ingimundardóttur ekkju Karls Sigurðssonar skipstjóra á Litla Landi Vestmannaeyjum en hún var síðasti eigandi Hótels Bergs. Sendum Páli og þeim systkinum bestu þakkir og kærar kveðjur.

Myndin er nú til sýnis í sýningarskáp við hlið dyra inn á bókasafn á 1. hæð.

Smellið á fyrirsögn fréttar til að fá meiri fróðleik um húsið Tungu og Hótel Berg:

Sagnheimar - opnunartími í september

12.09.2014

Í Sagnheimum verður opið alla daga til og með 14. september kl. 11-17. Frá 15. - 30 sept. verður síðan opið kl. 13-17. Annar opnunartími er eftir samkomulagi. Allir hjartanlega velkomnir!

Sagnheimum færðir munir frá Guðbjörgu og Hjálmari frá Dölum

04.09.2014

Fyrir skömmu færðu tvö barna Guðbjargar Helgadóttur og Hjálmars Jónssonar  frá Dölum Sagnheimum, byggðasafni muni til varðveislu. Um var að ræða kaffikvörn sem gefendur muna eftir frá bernskuárum sínum og harmonikku. Hjálmar mun hafa spilað á nikku á böllum frá 17 ára aldri og einnig var hún alltaf með í för í Álsey. Báða þessa muni hafði Jakobína varðveitt hin síðari ár.

Nikkunni hefur verið fundinn staður í úteyjarkofanum á bryggjusvæði Sagnheima og er einstaklega skemmtileg viðbót við safnið og er þeim systkinum færðar bestu þakkir!

Á myndinni hér að ofan má sjá Sveinbjörn Hjálmarsson með nikkuna, Jakobínu Hjálmarsdóttur með kaffikvörnina og Ernu Jóhannesdóttur eiginkonu Sveinbjarnar ásamt safnstjóra.