Actualités

Júlíana Sveinsdóttir í Sagnheimum og á Kjarvalsstöðum

30.07.2015

19. júní sl. var opnuð sýningin Tvær sterkar í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Um er að ræða sýningu á verkum tveggja kvenna Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966) og hinnar færeysku Ruthar Smith (1913-1958). Báðar ólust þær upp á vindbörðum og saltstorknum klettaeyjum í Norður-Atlantshafi og voru meðal fyrstu kvennanna sem gerðu myndlist að ævistarfi. Skemmtilegt er að sjá hvernig heimahagar þeirra koma fram í verkunum ásamt gagnrýnum sjálfsmyndum og sterkum myndum af samferðafólki. Listasafn Vestmannaeyja lánaði eitt af verkum Júlíönu úr safni sínu og Sagnheimar, byggðasafn lánaði málaraspjald og pensla Júlíönu. Á sýningunni er einnig nokkur veflistaverk Júlíönu. Í Sagnheimum eru nokkrir munir tengdir Júlíönu, m.a. bernskuskór hennar, vefstóll hennar, málverk og forkunnarfagur skautbúningur sem hún saumaði fyrir mágkonu sína Laufeyju Sigurðardóttur árið 1930.

Sýningin á Kjarvalsstöðum er norræn farandsýning höfuðborganna þriggja, Reykjavíkur, Tórshavnar og Kaupmannahafnar og leggur því land undir fót í lok ágústmánaðar. Vestmannaeyingar og aðrir áhugamenn um myndlist mega alls ekki láta þessa sýningu fram hjá sér fara!

Sagnheimar/safnahús - opnunartímar um þjóðhátíð 2015

29.07.2015

Breytingar eru á opnunartímum Sagnheima og Safnahúss um þjóðhátíð, 31.júlí - 3. ágúst.

Opið verður á föstudag og mánudag kl. 10-17

Lokað á laugardag og sunnudag.

Myndlistarsýning Steinunnar Einarsdóttur í Einarsstofu er opin föstudag og mánudag kl. 13-17 og síðan daglega á opnunartímum Safnahúss.

Bókasafnið vrður lokað frá föstudegi til mánudags.

Gleðilega þjóðhátíð!

Tyrkjaránið 1627: Píslarvætti í Rauðhelli og upprisa í Krosskirkju

12.07.2015

Í júlímánuði minnumst við þess að 388 ár eru frá Tyrkjaráninu. Um goslok var eftirminnilegur flutningur Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar og leikkonu á Örlagasögu Hallgríms og Guðríðar á bryggjusvæði safnsins og komust færri að en vildu. Nú bjóðum við upp á spennandi dagskrá í hádeginu fimmtudaginn 16. júlí kl. 12-13 og er það hluti af fyrirlestraröðinni Saga og súpa í Sagnheimum.

Gestur okkar að þessu sinni er dr. Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur en doktorsritgerð hans: Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins kom út á síðasta ári. Í hádegiserindi sínu ætlar Þorsteinn einkum að beina augum sínum að séra Jóni Þorsteinssyni presti að Kirkjubæ og fjölskyldu hans, ekki síst ævintýralegu lífshlaupi sonar sr. Jóns, er kallaði sig Jón Vestmann. Einnig mun Þorsteinn rekja kenningar sínar um myndmál altaristöflunnar á Krossi í Landeyjum, sem allir Vestmannaeyingar ættu að skoða á ferð sinni um Suðurland.

Að venju er boðið upp á súpu á undan erindinu.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af SASS.

Fréttinni fylgir ein af teikningum Jakobs S. Erlingssonar á sýningarsvæði Sagnheima, byggðasafns um Tyrkjaránið. Hér má sjá víg sr. Jóns Þorsteinssonar víð Rauðhelli.

 

Steinunn, Guðríður og sr. Hallgrímur á goslokum í Sagnheimum

28.06.2015

Laugardaginn 4. júlí kl. 15:30 gefst okkur einstakt og spennandi tækifæri til að sjá sýningu Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar og leikkonu á Örlagasögu Hallgríms og Guðríðar á heimaslóðum Guðríðar hér í Eyjum. Sýningin sem er eintal höfundar hóf göngu sína á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi 2. apríl sl. og var sýnd þar fram í sumarbyrjun.  Sýningin verður á bryggjusvæði Sagnheima og er í boði Ísfélags Vestmannaeyja hf.  Aðeins er um þessa einu sýningu að ræða og eru allir hjartanlega velkomnir á meðan sæti leyfa.

Verkefnið Saga og súpa fær styrk frá SASS

27.06.2015

Verkefnið Saga og súpa í Sagnheimum hefur notið mikilla vinsælda sl. ár og verið vel sótt. Boðið er upp á súpudisk og brauð í hádeginu 5-6 sinnum á ári og fengnir fyrirlesarar um hin margvíslegustu efni, sem þó tengjast öll Eyjunum eða sögu þeirra á e-n máta. Með 200 þús. króna styrk Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga nú getum við haldið verkefninu áfram og gleðjumst við mjög yfir því.  Bestu þakkir fyrir okkur!

Næsta Saga og súpa hefur þegar verið skipulögð, þ.e. fimmtudaginn 16. júlí kl. 12. Þá mun dr. Þorsteinn Helgason sagnfræðingur einkum beina sjónum sínum að vígi sr. Jóns Þorsteinssonar og afdrifum sonar hans, Jóns Vestmanns en þá eru einmitt liðin 388 ár frá Tyrkjaráninu. Nánar verður sagt frá þessu þegar nær dregur bæði hér á heimasíðu og í Eyjafréttum.

Sigríður Lára fjallkona Vestmannaeyja 2015

17.06.2015

Sigríður Lára Garðarsdóttir var fjallkona Eyjamanna í ár. Hátíðarávarp sitt ,,Íslendingaljóð 1944" eftir Jóhannes úr Kötlum flutti hún bæði í Hraunbúðum og íþróttahúsinu - en hátíðahöldin voru flutt inn vegna vætu. Hér má sjá fjallkonuna með skátunum sem mynduðu heiðursvörð og nokkrar fleiri myndir frá í dag.

19. júní í Vestmannaeyjum - þær þráðinn spunnu

15.06.2015

Vestmannaeyingar fagna 100 ára kosningarétti kvenna 19. júní á margvíslegan hátt. Kl. 12 verður hátíðarfundur bæjarstjórnar og jafnframt sá 1500 í Landlyst. Kl. 16:30 hefst síðan jafnréttisganga frá Vigtartorgi upp í Safnahús. Í göngunni stiklar Jóhanna Ýr Jónsdóttir sagnfræðingur á stærstu áfangasigrum kvenréttindabaráttunar og eru þátttakendur í göngunni hvattir til að mæta í bleikum lit. Kl. 17 hefst síðan dagskrá í Sagnheimum, byggðasafni. Gunnhildur Hrólfsdóttir sagnfræðingur og rithöfundur flytur erindið: Þær þráðinn spunnu. Bók hennar um líf og störf kvenna í Eyjum á síðustu öld er að koma út um þessar mundir. Á safninu er hægt að skrá sig á lista og fá bókina þannig á sérstöku kynningarverði. Að þessu tilefni verður opnuð ný sýning í Sagnheimum, sembyggir á bók hennar og er samstarfsverkefni Gunnhildar og Sagnheima, byggðasafns. Á meðal annarra merkra sýninga Sagnheima er þar sýning sem opnuð var í maí: Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár og sérstök kvennastofa.   Í Einarsstofu er myndlistasýning Bjarteyjar Gylfadóttur og þar er einnig á vegum safna Safnahúss sýningin Úr fórum kvenna. Boðið er upp á hátíðarköku í tilefni dagsins Gestir eru hvattir til að skoða sýningar Safnahúss á þessum merka degi. Allir hjartanlega velkomnir.

Sagnheimar - 17. júní 2015

13.06.2015

Sú hefð að fjallkona flytji landsmönnum hátíðarljóð á 17. júní hefur tíðkast hér á landi frá árinu 1947. Að vanda mun fulltrúi Sagnheima, byggðasafns sjá um að skrýða fjallkonu okkar Eyjamanna. Fjallkona okkar í ár er Sigríður Lára Garðarsdóttir og flytur hún ávarp sitt í Hraunbúðum kl. 10:30 og á Stakkagerðistúni kl. 14.

Hér til hliðar má sjá fjallkonu Eyjamanna 2014, Sóleyju Guðmundsdóttur, ásamt foreldrum sínum, Guðmundi Gíslasyni og Guðnýju Jensdóttur. Myndin var tekin 17. júní 2014 á bryggjusvæði Sagnheima.

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 2015

05.06.2015

Óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn!

Minnum á sýningar Sagnheima, byggðasafns, einnig er í Einarsstofu sýningin ,,Úr fórum kvenna" og myndlistarsýning Jóníar Hjörleifsdóttur.

Opið laugardag og sunnudag kl. 10-17. Allir hjartanlega velkomnir!

Saga og súpa í boði Rótarý á fimmtudaginn 28. maí í Sagnheimum

26.05.2015

Rótarýklúbbur Vestmannaeyja fagnar 60 ára afmæli sínu 26. maí. Af því tilefni verður þann dag kl. 17 opnuð sýning í Einarsstofu á vegum klúbbsins. Einnig verður boðið upp á hádegiserindi í Sagnheimum fimmtudaginn 28. maí kl. 12.  Þar mun Margrét Arnardóttir hjá Landsvirkjun flytja erindi um vindmyllur og nýtingu vindorku.  Allir hjartanlega velkomnir.

Íslenski safnadagurinn í Sagnheimum, byggðasafni

12.05.2015

Sagnheimar, byggðasafn taka þátt í Íslenska safnadeginum 17. maí með því að opna nýja sýningu kl. 14: Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár.

Frítt er inn á safnið í tilefni dagsins! Allir hjartanlega velkomnir!

Sagnheimar - sumaropnun 1. maí - 30. sept.

01.05.2015

Í dag 1. maí hefst sumaratíminn í Sagnheimum, byggðasafni og verður nú opið daglega kl. 10-17. Við förum rólega af stað en 17. maí fögnum við íslenska safnadeginum með opnun nýrrar sýningar: Eyjakonur í íþróttum í 100 ár. Fleira gerum við skemmtilegt þann dag, allt frekar á kvennavænginn enda erum við rétt að byrja að fagna 100 ára kosningaafmæli kvenna og er ýmislegt fleira á prjónunum fram á haust, bæði í Sagnheimum og í Einarsstofu. Fylgist því vel með tilkynningum úr Safnahúsi!

 

Ljósmyndasýning í Einarsstofu

30.04.2015

Í dag kl. 17 opnar ljósmyndasýning Sísíar Högnadóttur Valkyrjur í Einarsstofu. Á sýningunni má sjá um 200 ljósmyndir af Eyjakonum í leik og starfi. Sýningin er opin alla daga á opnunartímum Safnahúss frá kl. 10-17 til 14. maí.  Allir hjartanlega velkomnir.

Sumardagurinn fyrsti - Dagur bókarinnar

22.04.2015

Líf og fjör verður í Safnahúsinu á sumardaginn fyrsta enda vetur konungur loks að kveðja.

Bæjarlistamaður verður kynntur og hefst sú dagskrá kl. 11.

Málþing verður um sagnaarfinn okkar í Einarsstofu kl. 13-15 með þátttöku Vésteins Ólasonar, Einars Kárasonar og Guðna Ágústssonar. 

Opið verður í Sagnheimum, byggðasafni kl. 13-16. Frítt inn.

Í Einarsstofu er myndlistarsýning Sigurdísar Hörpu Arnarsdóttur: mEyjar og samsýning safna Safnahúss: Úr fórum kvenna í skápum.

Allir hjartanlega velkomnir!

Úr fórum kvenna

21.04.2015

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar og kjörgengis íslenskra kvenna er ný sýning í skápum Einarsstofu Safnahúss: Úr fórum kvenna. Með þessari sýningu, sem er samstarfsverkefni safna Safnahúss, viljum við hvetja fólk til að muna eftir söfnunum - ekki síst þegar dagbækur, skjöl, myndir og munir koma úr fórum kvenna. Munir/skjöl sem ef til vill láta lítið yfir sér við fyrstu sýn geta geymt ómetanlegar heimildir.

Sýningin er opin á opnunartíma Safnahúss. Allir hjartanlega velkomnir!

Safnahús í dymbil- og páskaviku 2015

31.03.2015

í Sagnheimum, byggðasafni verður opið á skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16.  Nú eru síðustu forvöð að sjá íþróttasýningu Þórs en sýningin verður tekin niður eftir páska. Hafinn er undirbúningur að nýrri spennandi íþróttasýningu sem opnuð verður í maí.

Í Einarsstofu er sýning Sigurdísar Arnarsdóttur, opið á skírdag og laugardag fyrir páska kl. 13-16 og síðan eftir páska á opnunartímum Safnahúss í aprílmánuði.

Bókasafnið er lokað frá skírdegi til og með annars í páskum. Opnar aftur á þriðjudag eftir páska kl. 10.

Gleðilega páska!

Konur í bókmenntum í 100 ár - 21. mars. kl. 13

17.03.2015

Laugardaginn 21. mars verða nemendur Framhaldsskólans í íslensku með dagskrá um konur í bókmenntum í Sagnheimum, byggðasafni. Bæði verður fjallað um ritverk kvenna á 20. öld og fram á okkar daga og einnig hvernig konur birtast í verkum karla á þessum tíma. Hér er um samstarfsverkefni FÍV og Sagnheima að ræða. Áhugavert er að sjá og heyra hvernig unga fólkið nálgast viðfangsefnið og hvaða aðferðir það notar til að koma efninu á framfæri.  Enginn sem hefur áhuga á bókmenntum eða því sem ungt fólk er að fást við ætti að láta þetta tækifæri framhjá sér fara.  Nemendur flytja verkefnið kl. 13:00 og eru bæjarbúar hvattir til að mæta! 

Allir hjartanlega velkomnir!

Saga og súpa í Sagnheimum, 19. mars kl. 12

16.03.2015

Nóg verður um að vera í Safnahúsi á fimmtudaginn. Auk ljósmyndadags í Ingólfsstofu, kl. 14-16 og opnunar hönnunarsýningar Ásdísar Loftsdóttur kl. 17 í Einarsstofu verður Saga og súpa í hádeginu í Sagnheimum, byggðasafni.

Gestur Sagnheima í þetta sinn er Guðbjörg Matthíasdóttir athafnakona. Guðbjörgu þarf vart að kynna fyrir Eyjamönnum, sem flestir kenna hana við Ísfélagið. Í janúar sl. hlaut hún viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Í fyrirlestri sínum Konur í atvinnulífi, kynnir hún m.a. félagið. 

Fyrirlesturinn hefst stundvíslega kl. 12 með súpu og brauði og lýkur kl. 13.

Allir hjartanlega velkomnir!

Eyjakonur í íþróttum í 100 ár

06.03.2015

Sagnheimar, byggðasafn ásamt Safnahúsi eru með margs konar verkefni í gangi á árinu sem tengist því að nú eru 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Nú rétt í þessu fengum við þær frábæru fréttir að afmælisnefndin hefði veitt Sagnheimum 100.000 kr styrk í verkefnið Eyjakonur í íþróttum í 100 ár! Heimildavinna og undirbúningur sýningarinnar er þegar hafinn en stefnt er að opnun 17. maí. Aldeilis frábærar fréttir. Bestu þakkir fyrir okkur!

Á meðfylgjandi mynd er handboltalið Þórs 1946. Efri röð frá vinstri: Erla Eiríksdóttir Urðavegi, Ásta Hannesdóttir Hæli, Kristbjörg Sigurjónsdóttir Sjávargötu, Kristín Jónsdóttir Vestmannabraut. Neðri röð: Sigríður Sigurðardóttir Skuld, Fríða Björnsdóttir Bólstaðarhlíð, Stella Waagfjörð Garðhúsum.

 

Saga og súpa í Sagnheimum, 12. febrúar kl. 12

09.02.2015

Gestur okkar á næsta súpufundi, fimmtudaginn 12. febrúar kl. 12, er dr. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur. Árni er vel þekktur fyrir rannsóknir sínar og frásagnir af siðum og þjóðtrú okkar Íslendinga. Meðal fjölmargra merkra bóka hans má nefna: Merkisdagar á mannsævinni, Saga daganna, Hræranlegar hátíðir, Þorrablót á Íslandi, Jól á Íslandi,  Gamlar þjóðlífsmyndir, Íslenskt vættatal. Árni gegndi starfi forstöðumanns þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands frá 1969-2002 og hefur fengist við kennslu bæði á Íslandi og erlendis. Í hádegiserindi sínu mun Árni fjalla um siði og þjóðtrú tengda þorranum og mikilvægi þorrablóta fyrr og nú. Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.