Actualités

Saga og súpa í Sagnheimum 3. mars kl. 12

01.03.2016

Nú á fimmtudaginn, 3. mars, kl. 12 mun Eyjapeyinn Kristinn R. Ólafsson segja í máli og myndum frá frækilegri för hans og fjögurra félaga umhverfis Ísland sumarið 1972 á gúmmítuðrum. Erindið er hluti af fyrirlestrarröð Sagnheima, sem við köllum Sögu og súpu og er styrkt af SASS.  Allir hjartanlega velkomnir!

Á myndinni má sjá ferðafélagana, frá vinstri: Torfi Haraldsson, Guðjón Jónsson, Óli Kristinn Tryggvason, Marinó Sigursteinsson og Kristinn R. Ólafsson

Viðburðir í Sagnheimum og Safnahúsi árið 2015

23.02.2016

Um áttatíu manns komu í Sagnheima og hlustuðu á Margréti Láru Viðarsdóttur á konudaginn, 21. febrúar. Fyrirlesturinn var liður í fyrirlestrarröðinni Saga og súpa í Sagnheimum. Hér má sjá lista yfir viðburði Sagnheima og Safnahúss árið 2015, alls 37 - og eru þá ekki taldir með ljósmyndadagarnir sem eru vikulega í Ingólfsstofu á veturna og heimsóknirnar í Hraunbúðir.

Sjá nánar hér: 

http://sagnheimar.is/is/page/vidburdir

 

 

Margrét Lára í Sögu og súpu í Sagnheimum

12.02.2016

Sunnudaginn 21. febrúar kl. 12 verður boðið upp á Sögu og súpu í Sagnheimum, byggðasafni.

Margrét  Lára Viðarsdóttir, landsliðskona flytur erindið:

,,Við erum það sem við hugsum.“

Hvaða hugarfar þarf til að ná markmiðum sínum og verða afreksíþróttamaður eða ná langt á öðrum sviðum mannlífsins?

Margrét Lára kynnir einnig helstu niðurstöður  rannsókna sinna um kvíða og þunglyndiseinkenni hjá íslenskum atvinnumönnum í boltaíþróttum.

Allir hjartanlega velkomnir!

Dagskráin er styrkt af SASS, samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.

Vekjum einnig athygli á að nú fara að verða síðustu forvöð að sjá sýninguna: ,,Eyjakonur í íþróttum í eitt hundrað ár" í Sagnheimum!

 

 

Sagnheimar og menningararfurinn

09.02.2016

Sagnheimar fengu góða heimsókn frá Þjóðminjasafninu í síðustu viku. Þar var á ferð Nathalie Jacqueminet forvörður sem fór yfir húsnæði Sagnheima, ekki síst geymslumálin. Nú er verið að útbúa nýja geymslu á loftinu í Miðstöðinni. Gera þarf verkáætlun, mæla hita- og rakastig, ljósmagn, athuga brunaboða, reikna út og skipuleggja hillumál áður en hægt verður að fara í að raða mununum upp á skipulagðan hátt, mynda og skrá. Leynast ef til vill nýir möguleikar á loftinu? Á sama tíma eru Sagnheimar að gera átak í að skrá muni safnsins í Sarp, rafrænan gagnagrunn safna og verður spennandi að geta sýnt muni safnsins líka á þeim vettvangi. Ómetanlegt er að hafa aðgang að sérfræðingum eins og Nathalie, sem gerir alla vinnu markvissari og fumlausari.

Hér á myndinni má sjá Nathalie frá Þjóðminjasafninu og Georg Skæringsson frá Þekkingarsetrinu á vettvangi.

Sagnheimar - hvað er framundan?

05.02.2016

Þó að allt virðist vera með rólegra móti í Sagnheimum nú eftir jólin, þá kraumar safnastarfið samt á fullu. Tekið er á móti skólahópum, vina- og vinnustaðahópum og margvíslegir viðburðir og málþing skipulögð. Næstu tveir sögu- og súpufundir hafa nú verið fastsettir. Margrét Lára Viðarsdóttir landsliðskona verður með erindið ,,Við erum það sem við hugsum", sunnudaginn 21. febrúar og Kristinn R. Ólafsson stefnir með sitt hádegiserindi á fimmtudaginn 3. mars. Mikið tilhlökkunarefni er að fá báða þessa fyrirlesara, sem verða betur auglýstir þegar nær dregur. Minnum einnig á að hópar geta alltaf haft samband við safnstjóra um opnun safnsins utan auglýsts vetrartíma. Verið hjartanlega velkomin!

 

Sagnheimar aðilar að Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni

01.02.2016

Sagnheimar eru aðilar að Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni safna, ásamt um 50 öðrum söfnum. Söfnin skrá muni sína í sameiginlegan gagnagrunn, oft með mynd og ítarupplýsingum. Upplýsingarnar eru síðan öllum opnar á vefslóðinni www.sarpur.is. Sagnheimar eru nú í skráningarátaki inn á vefinn og er tilhlökkunaefni að geta sýnt muni safnsins á þessum vettvangi. Meðfylgjandi mynd var tekin af þátttakendum og leiðbeinendum á skráningarnámskeiði Landskerfis nú í janúar.

Safnahúsið 23. janúar 2016

21.01.2016

Á laugardaginn eru liðin 43ár frá upphafi Heimaeyjargossins.

Af því tilefni kynnir Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri kl. 13 í Sagnheimum, byggðasafni viðbragðs- og rýmingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar vegna eldgoss og annarra hamfara. Kl. 14 opnar síðan afmælissýning Ásmundar Friðrikssonar í Einarsstofu.

Allir hjartanlega velkomnir

Ljósm.: Ólafur Guðmundsson

Ratleikur jólakattararins 9. jan. í Sagnheimum, kl. 13-16

04.01.2016

Nú er Jólakötturinn í vondum málum! Grýla frétti að hann væri hálftrúlofaður læðu á Brimhólabrautinni og henti honum út. Getið þið hjálpað aumingja kisa að finna hluti í Sagnheimum til að búa sér nýtt heimili?

Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

Sagnheimar, byggðasafn opnunartími um jóladagana

23.12.2015

Sagnheimar, byggðasafn verður opið 28.-30. desember kl. 13-16 og síðan 2. janúar kl. 13-16.

Frést hefur að jólakötturinn hafi sótt um pólitísk hæli í Kattholti en verið hafnað! Nánari fréttir af kisa á þrettándanum!

Gleðileg jól!

Íslenskir mormónar í Sagnheimum, Utah og Spanish Fork

23.11.2015

Nú á sunnudag sýndi RÚV fyrsta hluta af þremur af myndinni Paradísarheimt sem gerð er eftir samnefndri bók Halldórs Kiljans.  Sagan byggir á ferðasögu Eiríks frá Brúnum sem hélt til Utah til að kynnast mormónum.  Í Sagnheimum er sögð saga þeirra 400 Íslendinga sem tóku mormónatrú og héldu vestur um haf og var sýningin uppfærð árið 2013.  12. sept. sl. var þess minnst í Spanish Fork að liðin voru 160 ár  frá því Eyjamenn námu þar land. Blásið var til mikillar veislu sem Eyjamenn og fleiri Íslendingar sóttu. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá brot af viðtölum við nokkra Eyjamenn sem sóttu hátíðina.  

https://www.youtube.com/watch?v=mAJQ87qn7-4&feature=youtu.be

Safnahelgin í Vestmannaeyjum, 5.-8. nóvember 2015

03.11.2015

Nú er dagskrá safnahelgarinnar okkar að mestu komin á hreint. Allur bærinn verður hreint og beint undirlagður í skemmtilegheitum frá fimmtudegi og fram á sunnudag og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Hér má sjá dagskrána í heild sinni:

http://vestmannaeyjar.is/is/read/2015/11/03/safnahelgin-2015

Góða skemmtun! 

 

Sagnheimar: Landið mitt - ljóðið mitt

02.11.2015

Vissir þú að 263 íbúar með lögheimili í Eyjum hafa erlent ríkisfang? Alls koma þeir frá 31 landi, flestir frá Póllandi eða 143, 12 koma frá Portúgal, 11 frá Danmörku, 11 frá Bretlandi og síðan færri frá öðrum löndum.

Laugardaginn 7. nóv. kl. 14 verður dagskrá í Sagnheimum, byggðasafni, sem kallast: Landið mitt - ljóðið mitt.  Þar munu sjö Eyjakonur kynna rætur sínar í erlendri mold og flytja ljóð á móðurmáli sínu.

Eyjakonurnar eru:

Anna Fedorowicz - Pólland

Dagný Pétursdóttir - Thailand

Evelyn Consuelo Bryner - Sviss

Jackie Cardoso - Brasilía

Kateryna Sigmundsson - Úkraína

Sarah Hamilton - England

Tina Merete Henriksen - Danmörk

Dagskráin er hluti af safnahelginni. sjá nánar í auglýsingum.

Allir hjartanlega velkomnir!

100 Eyjakonur í Safnahúsi um safnahelgina 6.-8. nóvember

23.10.2015

Undirbúningur er nú á fullu í öllum söfnum Safnahúss fyrir safnahelgina. Listvinahópur hússins kallar eftir verkum kvenna sem dæmi um margvíslega listsköpun þeirra. Hér gæti verið um að ræða málverk, handavinnu, skartgripi, ljóð, teikningar, ljósmynd eða nánast hvað sem er. Eina skilyrðið er að konan hafi búið í Eyjum á tímabilinu 1915-2015. Nú þegar hafa borist alveg ótrúlega flott og margvísleg verk kvenna í þetta spennandi verkefni - en enn er tími og rúm til að bæta við fleiri listverkum. Eyjamenn sem telja sig lúra á dýrgripum og eru tilbúnir að leyfa fleirum að njóta eru hvattir til að hafa samband sem allra fyrst við Kára eða Perlu í Safnahúsi.

Hér á myndinni til hliðar má sjá sýnishorn af einum dýrgripanna.  Um er að ræða svokallaða klukku sem Margrét Jónsdóttir frá Skuld (1885-1980) prjónaði á Ernu Jóhannesdóttur, barnabarn sitt. Klukkan er einn af kjörgripum Sagnheima, byggðasafns.

Sagnheimar - vetraropnun frá 1. okt.- laugard. kl. 13-16.

10.10.2015

Nú 1. október hefst vetrarstarfið í Sagnheimum. Hugað er að innra starfi safnsins, námskeiðahaldi, skráningu muna og frágangi, dagskrár vetrarins skipulagðar, tekið á móti skólahópum og farið yfir hvað má betur gera. Safnahelgin okkar Vestmannaeyinga verður 7.-8. nóvember og verður þá boðið upp á margvíslega, spennandi dagskrárliði í Safnahúsi, sem betur verður kynnt þegar nær dregur. Saga og súpa verður líka á dagskrá í vetur. Þó að opnunartími safnsins sé nú eingöngu auglýstur á laugardögum kl. 13-16 er safnstjóri að störfum flesta daga vikunnar. Skólahópar og aðrir sem vilja komast á safnið á öðrum tímum eru hvattir til að hafa samband beint í síma 698 2412 eða í netfang helga@sagnheimar.is.

Saga og súpa í Sagnheimum, 10. sept. kl. 12

09.09.2015

Á morgun fimmtudag gefst okkur einstakt tækifæri til að hlusta á Róbert Guðfinnsson athafnamann fjalla um uppbygginguna á Siglufirði og ný atvinnutækifæri:

,,Gamli Síldarbærinn Siglufjörður er að ganga í endurnýjun lífdaga. Frá hruni norsk-íslenska síldarstofnsins árið 1967 hefur íbúum fækkað. Tæknivæðing í sjávarútvegi og einhæft atvinnulíf hefur leitt af sér fækkun starfa og fá tækifæri fyrir ungt menntað fólk. Með nýsköpun í líftækni og fjárfestingu í ferðaiðnaði er að myndast nýr grunnur fyrir samfélagið. Breidd í atvinnulífinu með nýjum störfum gefur nýrri kynslóð tækifæri til að snúa vörn í sókn."

Hver eru sóknarfæri byggðarlaga úti á landi?

Hverjir eru möguleikar einstaklinga til að leggja samfélaginu lið?

Allir hjartanlega velkomnir!

Samstarfsverkefni Rótarýklúbbs Vestmannaeyja, Safnahúss og Sagnheima.

Saga og súpa með Róberti Guðfinnssyni frestað!

09.09.2015

Verðum því miður að fresta þessum áhugaverða fyrirlestri um óákveðinn tíma!

Reynum aftur síðar!

Atorkukonur í Safnahúsinu 6. september kl. 14:30

01.09.2015

Sunnudaginn 6. september minnumst við merkra kvenna í Safnahúsi Vestmannaeyja. Við byrjum uppi í kirkjugarði kl. 13:30 og síðan tekur við dagskrá í Einarsstofu kl. 14:30 Að henni lokinni opnar Kristín Ástgeirsdóttir farandsýningu Kvenréttindafélags Íslands sem hefur verið á hringferð um landið í tilefni 100 ára kosningaréttar íslenskra kvenna. Allir hjartanlega velkomnir, sjá nánar í meðfylgjandi auglýsingu!

Úr fórum kvenna í Einarsstofu Safnahúss

24.08.2015

Í Einarsstofu er nú í skápum sýningin Úr fórum kvenna sem er samstarfsverkefni skjalasafns, ljósmyndasafns og byggðasafns. Með sýningunni vill starfsfólk Safnahúss hvetja fólk til að muna eftir söfnunum ef það veit um gömul bréf, dagbækur og skjöl úr fórum kvenna sem oft geyma ótrúlegar sögur um lífshlaup kvenna sem allt of oft gleymast. Sýningin lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér en þar er þó margt áhugavert að finna. Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Ingibjörgu Ólafsdóttur (1895-1976) í fallega blómagarðinum sínum við Bólstaðarhlíð. Þar er einnig stórmerkileg dagbók hennar þar sem hún lýsir efiðum uppvaxtarárum sínum. Á sýningunni má einig nefna handavinnu og ljósmyndir frá Ragnheiði Jónsdóttur (1905-2006) frá Þrúðvangi, skipunarbréf Önnu Pálsdóttur ljóðsmóður (1910-1984) ásamt nokkrum ógnvekjandi töngum, leyfisbréf Emmu á Heygum (1895-1989) til að starfa sem nuddari ásamt skýrum fyrirmælum um að hún megi aldrei gefa sig út fyrir að stunda lækningar á neinn hátt, handskrifuð uppskriftabók Jónu Friðriksdóttur (1922-1999), skjal þar sem Anna P. Halldórsdóttir (1916-2002) er gerð að heiðursfélaga Slysavarnafélags Íslands ásamt hvítri svuntu með hekluðu milliverki sem hún notaði jafnan við kaffisölur og svo margt fleira áhugavert!  Sýningin verður áfram fram eftir haustinu og er alltaf opin á opnunartíma Safnahúss en myndlistarsýningu Steinunnar Einarsdóttur lýkur 25. ágúst.

Byggðasöfn á Íslandi - Sagnheimar

12.08.2015

Á vegum Rannsóknaseturs í safnafræðum við Háskóla Íslands er komin út bókin Byggðasöfn á Íslandi. Bókin er sýnisbók um starfsemi 14 byggðasafna á Íslandi. Tilgangur útgáfunnar er að vekja athygli á því margbrotna starfi sem söfnin hafa staðið fyrir og hversu brýnt það er að þeirri menningarmiðlun sem þar fer fram sé betri gaumur gefinn. Að sjálfsögðu á merkilegt byggðasafn okkar Vestmannaeyinga, Sagnheimar, sína sögu í bókinni.

Í vikunni kom Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í heimsókn í Sagnheima en safnið okkar er ásamt Sæheimum hér í Eyjum í hópi 44 viðurkenndra safna á Íslandi. Til að fá slíka viðurkenningu safnaráðs þurfa söfn að uppfylla strangar kröfur varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf. Við megum því vera afskaplega stolt af safninu okkar og jafnframt þakklát bæjarbúum sem hafa stutt okkur með margvíslegum hætti í gegnum tíðina!

Hér má sjá lista safnaráðs yfir viðurkennd söfn á Íslandi:

http://www.safnarad.is/vidurkennd/vidurkennd-sofn---listi/

 

 

 

Fisktrönur við Safnahús Vestmannaeyja/Sagnheima

05.08.2015

Fisktrönur við Safnahúsið okkar vekja alltaf nokkra athygli gesta ekki síst erlendra ferðamanna. Langa ehf hefur undanfarin ár lagt til fiskinn og minna okkur þar með á þessa aldagömlu aðferð til að auka geymsluþol fisks eða skreiðar. Trönurnar eru hluti af sýningarsvæði Sagnheima, byggðasafns.

Skreið er þurrkaður afhausaður fiskur, oftast þorskur eða ufsi. Skreiðin var lengst af útiþurrkuð, tveir fiskar spyrtir saman og hengdir upp í sérstökum fiskhjöllum eða á þar til gerðar sperrur, fisktrönur, og sól og vindur látin um þurrkunina.

Skreið hefur verið verslunarvara í Evrópu í meira en þúsund ár og var ásamt lýsi og vaðmáli ein helsta útflutningsvara Íslendinga öldum saman. Á miðöldum hækkaði skreið mikið í verði á erlendum mörkuðum og reið þá mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Rakt sjávarloftið reyndist oft erfitt og hertu Eyjamenn því gjarna fiskinn á syllum í móbergshömrum í svokölluðum fiskbirgjum. Dæmi um slík fiskbirgi má sjá í berginu í Fiskhellum á leiðinni inn í Herjólfsdal og komu þau m.a. við sögu í Tyrkjaráninu 1627.

Allt fram undir 1900 var skreiðin talin ómissandi fæða, næringarmikil, saðsöm, þurfti litla matreiðslu og geymdist vel. Hertur fiskurinn var borinn fram með súru smjöri sem þótti drýgra en ósúrt og jafnvel bleyttur í sýru, svo að hann yrði mýkri undir tönn.

Í dag má segja að Íslendingar neyti aðeins einnar tegundar þessarar hertu og þurrkuðu afurða, þ.e. harðfisks. Nær öll vinnsla og þurrkun fer nú fram með vélbúnaði innandyra. Helstu markaðir fyrir skreið og þurrkaða hausa eru í Nígeríu.