Actualités

Sagnheimar - hvað er framundan í sumar.....?

17.05.2013

Sumarið í Sagnheimum hófst í raun með herkvaðningu og dagskrá um kaptein Kohl á sumardaginn fyrsta. Nú er verið að undirbúa í Safnahúsi dagskrá um Árna úr Eyjum sem verður á sjómannadag. Ýmislegt fleira er í bígerð og verður það tilkynnt jafnóðum og línur skýrast.

Sagnheimar - sumaropnun - sýnum gosmyndina Eldeyjan tvisvar á dag

15.05.2013

Sumaropnunartími er nú hafinn í Sagnheimum. Opið er alla daga vikunnar frá kl. 11-17.   Daglega klukkan 14 og 16 er sýnd mynd Ernst Kettlers, Ásgeirs Long og Páls Steingrímssonar Eldeyjan á ensku með þýskum texta (27 mínútur).

Kapteinn Kohl - vel heppnuð dagskrá á sumardaginn fyrsta

03.05.2013

Dagskráin um kaptein Kohl, danska sýslumanninn sem breytti sögu Eyjanna tókst vel í blíðskaparveðri. Nýendurvakinn herfylking mætti edrú og galvösk á Skansinn undir stjórn núverandi sýslumanns og eftirmanns Kohls, Karls Gauta. Herinn skartaði húfum sem Ásdís Loftsdóttir hannaði eftir gamalli lýsingu. Arnar Sigurmundsson benti á breytingar sem gerðar höfðu verið á Skansinum í tíð Kohls og Landlyst, þar sem sýslumaður bjó.

Styttuganga í boði Visku, 30. apríl kl. 17

28.04.2013

Þriðjudaginn 30. apríl nk. er boðið upp á sögugöngu þar sem rakin er saga nokkurra minnismerkja og styttna bæjarins. Við hittumst við hurð Landakirkju kl. 17, þar sem gangan hefst. Gangan er lokahnykkur á afmælisverkefni Visku og eru allir hjartanlega velkomnir. Göngufólki er bent á að vera vel skóað og taka með sér húfu og vettlinga.

Kapteinn Kohl-sýslumaðurinn sem breytti sögu Vestmannaeyja

22.04.2013

Sumardaginn fyrsta, 25. apríl nk. verður þess minnst að þá eru 160 ár liðin frá því kapteinn Kohl var skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum.
Skansinn kl. 14:00
Arnar Sigurmundsson rekur tengsl Kohls við Skansinn og Landlyst.
Lúðrasveitin flytur hersöng Kohls.
Ásmundur Pálsson skýtur úr fallbyssu.
Haldið fylktu liði undir trommuslætti upp í Safnahús.
Safnahús kl. 14:45
Karl Gauti Hjaltason: Frá forneskju til framfara - Hvernig kapteinn Kohls breytti tíðarandanum í Eyjum 1853-1860.
Óskar Guðmundsson: Skyggnst í kringum kaptein Kohl - og dálítið um niðja hans.
Að lokinni dagskrá verður lagður blómsveigur á leiði Kohls í kirkjugarðinum í virðingar og þakklætisskyni.
Hægt er að taka þátt í allri dagskránni eða hluta hennar.
Allir hjartanlega velkomnir.
Dagskráin er styrkt af menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja og Visku.
 

Sagnheimar fagna komu lundans, laugardaginn 20. apríl

18.04.2013

Sagnheimar fagna komu lundans laugardaginn 20. apríl kl. 13-16.
Mynd Páls Steingrímssonar Litli bróðir í norðri verður sýnd kl. 13, 14 og 15. 
í myndinni eru fjölmargar lundabyggðir heimsóttar og fylgst með lífshlaupi þessa merkilega fugls.
Aðgangseyrir: 2 fyrir 1 en frítt er fyrir 17 ára og yngri.
Allir hjartanlega velkomnir!

Kapteinn Kohl - herkvaðning í Sagnheimum

17.04.2013

Undirbúningur er nú á fullu í Sagnheimum fyrir dagskrá sem halda skal á sumardaginn fyrsta, 25. apríl nk. en þá eru liðin rétt 160 ár síðan Kapteinn Kohl var settur sýslumaður í Vestmannaeyjum. Dagskráin byrjar á Skansinum kl. 14 en Kohl bjó einmitt í Landlyst. Endurvakinn verður vísir að herfylkingu Vestmannaeyja. Allnokkrir hafa nú þegar skráð sig í hersveitina en betur má ef duga skal! Áhugasamir þátttakendur í herfylkingunni eru beðnir um að hafa samband við safnvörð í síma 698 2412. Algjört skilyrði fyrir þátttöku er að menn séu edrú þennan dag í anda Kohls!

Húsin í hrauninu og Guðni Hermansen í Einarsstofu

15.04.2013

Í Einarsstofu verða dagana 15.-19. og 22.-26. apríl sýnd verk Guðna Hermansen úr eigu Listasafns Vestmannaeyja. Laugardagana 20. og 27. apríl verðum við síðan áfram með sýninguna sem við nefnum Gull úr fórum bæjarbúa.
Í Einarsstofu eru einnig sýndar myndir á skjá úr verkefninu Húsin undir hrauninu. Þar má sjá margar myndir af gamla austurbænum, sem nú er horfinn. Fyrirhugað er að sú sýning verði í fjórar vikur en skipt verður um myndir á mánudögum.
Sýningarnar eru opnar á opnunartíma Safnahúss.
Myndina hér fyrir ofan tók Óskar Elías Björnsson.

Gull úr eigu bæjarbúa í Einarsstofu

14.04.2013

Undanfarna tvo laugardaga hafa í Einarsstofu verið sýnd myndlist úr eigu bæjarbúa. Heimamenn hafa lánað listasafninu myndir af veggjum sínum til að fleiri megi njóta. Verkin eru margvísleg og margar perlur hafa verið dregnar fram. Nefna má listamenn eins og Pétur Friðrik, Barböru Árnason, Brynhildi Friðriksdóttur, Alfreð Flóka, Guðmund frá Miðdal, Guðna Hermansen og marga fleiri. Næstu tvo laugardaga verða síðan dregnir fram enn fleiri gullmolar.
Vakin er athygli á því að myndirnar eru aðeins til sýnis á laugardögum kl. 11 - 16.
Allir hjartanlega velkomnir.

Vestmannaeyjar - útilistaverk - námskeið

31.03.2013

Á rölti okkar um Heimaey má sjá meira en 60 misjafnlega áberandi útilistaverk. Sum vekja forvitni, önnur undrun eða jafnvel furðu. Öll eiga þau sína sögu sem erfitt virðist þó að finna á einum stað. Eitt af afmælisverkefnum Visku er einmitt að gera upplýsingar um þessi verk aðgengileg. Boðið er upp á námskeið 9. og 16. apríl kl. 19:30-21:30 í húsnæði Visku og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Farið verður sameiginlega yfir verkin og sögu þeirra, einnig í eina vettvangsferð. Markmiðið er að safna sem bestum heimildum og birta síðan á Heimaslóð ásamt mynd. Skráning er í Visku: s.: 481 1950 eða í netfangi viska@eyjar.is. Leiðbeinandi: Helga Hallbergsdóttir

Páskasýning í Einarsstofu, Safnahúsi Vestmannaeyja

27.03.2013

Árið 1967 gáfu fyrrverandi bæjarfógetahjón, Sigfús M. Johnsen og Jarþrúður Johnsen Vestmannaeyjabæ 34 Kjarvalsmálverk. Þessi merka og einstaka gjöf  er hryggjarstykkið í listasafni Vestmannaeyjabæjar og verður sýnd í Einarsstofu um bænadagana.  Ekki er hægt að sýna öll málverkin í einu og verður því skipt um myndir daglega. 
Opið verður á skírdag, laugardag og á annan í páskum frá kl. 11 - 17.
Á opnunartíma verður einnig sýnd heimildarmynd Páls Steingrímssonar um Jóhannes Sveinsson Kjarval í Einarsstofu.
Allir hjartanlega velkomnir!

Eldeyjan sýnd í Sagnheimum í sumar

21.03.2013

Eldeyjan, ,,Days of destruction" mynd Ernst Kettlers, Páls Steingrímssonar og Ásgeirs Long verður sýnd í Sagnheimum í sumar. Myndin hlaut gullverðlaun sem besta heimildarmyndin á kvikmyndahátíð í Atlanda í Bandaríkjunum árið 1973.
Myndin verður sýnd gestum safnsins á ensku með þýskum texta  tvisvar á dag frá 15. maí - 15. september.

Sagnheimar og Sæheimar - heimasíður

16.03.2013

Eitt af því sem unnið hefur verið að í vetur er að fá þýddar heimasíður Sagnheima og Sæheima. Textar eru nú óðum að birtast á heimasíðum safnanna.  Þeir sem komu að verkinu eru:
Enska: Margo Renner
Þýska: Ruth Zohlen og Renate Illge
Franska: Bergþór Bjarnason
 

Safnahús - Einarsstofa - Hjálmar nú - Kjarval um páska

15.03.2013

Í Einarsstofu eru gosmyndir Hjálmars Böðvarssonar í millisafnaláni frá Þjóðminjasafni. Þar eru einnig myndir Kristins Benediktssonar bæði á vegg og einnig á þriðjahundrað gosmyndir á sjónvarpsskjá. Sýningarnar eru opnar á opnunartíma Safnahúss.
Um páskana verða sýndar Kjarvalsmyndir í eigu Listasafns Vestmannaeyja. Opnunartími verður auglýstur þegar nær dregur.

Kapteinn Kohl snýr aftur?

11.03.2013

Margt spennandi er framundan í Sagnheimum - og undirbúningur á fullu undir kyrrlátu yfirborði.
Á sumardaginn fyrsta eru 160 ár liðin frá því að sá merki maður Kapteinn Kohl var settur sýslumaður hér í Eyjum. Hann var ekki eingöngu röggsamt yfirvald sem stofnaði herfylkingu Vestmannaeyja, æfði íþróttir, boðaði bindindi og byggði hús og vegi heldur fyrst og fremst mikilmenni sem átti auðvelt með að hrífa fólk með sér. Varpað verður ljósi á sögu Kohls og dregnar fram sögur af samskiptum hans við Eyjamenn og konur. Átti Kohl e.t.v. afkomendur hér?
Nánar auglýst síðar!
 
 

Safnahús - Einarsstofa - fyrirlestur - stjörnuskoðun

30.01.2013

Fimmtudaginn 31. janúar flytur Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness fræðsluerindi um Marsjeppann Curiosity á vegum Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja.
Erindið hefst klukkan 19:30 og er öllum opið.
Ef veður leyfir verður farið með Sævari í stjörnuskoðun að fyrirlestri loknum.
Allir hjartanlega velkomnir!

Sagnheimar - gossýningar- opnunartími

29.01.2013

Mikill og skemmtilegur erill var í Sagnahúsi er þess var minnst að 40 ár eru liðin frá því að gos hófst á Heimaey. Krakkarnir í grunnskólanum höfðu unnið metnaðarfull verkefni og myndir sem prýddu safnið auk þess sem boðið var upp á ljósmyndasýningar Hjálmars R. Bárðarsonar, Kristins Benediktssonar og Sigurgeirs Jónassonar. Úrklippubækur og skráningarblöð fyrir þá sem eiga eftir að segja sögu sína liggja frammi. Fyrir hádegi 23. janúar höfðu nær 300 krakkar heimsótt safnið en opinber móttaka og opnun sýninga var kl. 17.

Heimaeyjargosið í Safnahúsi Vestmannaeyja

22.01.2013

Í Safnahúsi Vestmannaeyja er þess nú minnst með fjölbreytilegum sýningum að 40 ár eru frá upphafi Heimaeyjargossins.
Einarsstofa: Hjálmar R. Bárðarson, ljósmyndarsýning: Heimaey í svarthvítu.
Kristinn Benediktsson, ljósmyndasýning, Heimaeyjargosið.
Sýning frá héraðsskjalasafni og bókasafni í skápum.
Stigagangur: Gosverk barna í Grunnskóla Vestmannaeyja.
Sagnheimar: Gosverk barna í Grunnskóla Vestmannaeyja.
Sagnheimar/Pálsstofa. Sigurgeir Jónasson, ljósmyndasýning: Flóttinn frá Heimaey.
Skráning og sýnishorn úr heimildasöfnuninni: Bátsferðin mín gosnóttina 1973.

Sagnheimar - breyttur opnunartími vegna gossýninga

22.01.2013

23. janúar kl. 17 verða nýjar sýningar í Safnahúsi opnaðar með stuttri athöfn.
Breyttur opnunartími verður í þessari viku í Sagnheimum:
miðvikudagur 23. janúar kl. 17-18.
fimmtudagur og föstudagur kl. 10-17
laugardagur og sunnudagur kl. 13-16
Allir hjartanlega velkomnir!
 

Sagnheimar, byggðasafn og Heimaeyjargosið

18.01.2013

Undirbúningur sýninga, þar sem þess verður minnst að 40 ár eru frá því eldgos hófst á Heimaey stendur nú sem hæst í Sagnheimum.  Sýningarnar hafa ekki enn tekið á sig lokamynd en verða opnaðar formlega 23. janúar kl. 17.
 
Ljósmyndsýningar verða í Einarsstofu/Safnahúsi og Pálsstofu/Sagnheimum auk þess sem verið er að vinna heimildasýningu í Pálsstofu.  Krakkar í Grunnskóla Vestmannaeyja vinna líka sínar sýningar í Sagnheimum.